Rekstrarrök en ekki byggðarök ráða för

Víkingur Gunnarsson. Mynd: mbl.is / Helgi Bjarnason.

 

Víkingur Gunnarsson framkvæmdastjóri Arnarlax á Bíldudal segir að samfélagslegu áhrifin af laxeldinu séu nú þegar orðin talsverð á sunnanverðum Vestfjörðum. 110 starfsmenn vinna hjá Arnarlaxi á Bíldudal, Tálknafirði og Patreksfirði. Þetta kemur fram í viðtali við Víking í Fréttatímanum sem kom út á laugardag. „Á þessum stöðum þar sem er fiskeldi í gangi, bæði í þorpum hér á Íslandi og annars staðar, er fjölgun á barnafólki, það er fjölgun í barnaskólunum og svo framvegis. Á Bíldudal og Patreksfirði er þetta augljóst: Fjölgun íbúa, hærra húsnæðisverð, tekjur sveitarfélagsins hafa aukist,“ segir Víkingur.

Hann telur þó að byggðarökin stjórni ekki ákvörðunum fjárfesta í laxeldi. Á endanum snúist eldið eins og annar rekstur um það hvort það gangi vel eða ekki, en ekki hvar það sé stundað.

„Ég held að við þurfum aðeins að taka umræðuna um laxeldið á vitrænt stig. Það gengur vel að reka þessi fyrirtæki; fjárfestar eru ekki að leggja peninga í laxeldið út af byggðasjónarmiðum og til að hafa atvinnu úti á landi. Þetta skapar störf, þetta skapar fjölbreytt störf og þetta skapar störf sem krefjast alls kyns menntunar. Og það er eitt í þessu sem er afar skemmtilegt: Þetta skapar bæði karla- og kvennastörf“.

 

smari@bb.is

 

DEILA