Ráðið í nafngift Ísafjarðar og Ísafjarðardjúps

Ísafjarðardjúp.

Mest lesna fréttin á vef Bændablaðsins í dag er grein undir heitinu „Hvers vegna bærinn Ísafjörður heitir Ísafjörður“ eftir Einar Jónsson fiskifræðing. Tilefni greinarinnar sem er æði löng og ítarleg má rekja til ljósmyndar af pollinum á Ísafirði í Bændablaðinu í byrjun nóvembermánaðar þar sem vísað var til nafngiftar Ísafjarðar og Ísafjarðardjúps. Ræður Einar í það á sinn hátt hversvegna bærinn beri nafnið Ísafjörður, þegar hann er í Skutulsfirði og fjörðurinn Ísafjörður í raun mun innar við Ísafjarðardjúp, sem hann segir að hafi ekki heitið það heldur einfaldlega Ísafjörður. Segir Einar lausn ráðgátunnar tiltölulega einfalda og furðar sig á að fræðimenn hafi ekki fram til þessa ráðið þessa gátu með eftirfarandi hætti:

„Málið er það að sá mikli flói eða fjörður sem nú er nefndur Ísafjarðardjúp hét alls ekki svo í upphafi heldur aðeins Ísafjörður og það er ekki fyrr en í byrjun átjándu aldar að annars skilnings fer að verða vart, þ.e. að orðið Ísafjarðardjúp sé ekki bara nafn á svæði utan eða í mynni hins forna Ísafjarðar heldur nái lengra inn og í kortasögu Íslands má síðan rekja hvernig þetta nafnabrengl eða nafnabreyting færist æ innar í Ísafjörðinn uns Borgarey er náð og er þá varla annað en innsti halinn eftir með nafninu Ísafjörður en hann hafði aldrei annað nafn en náði í upphafi allt út að Rit og ysta hluta Stigahlíða.“

Í greininni dregur Einar fram allmörg dæmi sem styðja við kenningu hans, líkt og úr Landnámu þar sem segir frá Þuríði Sundafylli og skattlagningu hennar: „„Hún setti og Kvíarmið á Ísafjarðardjúpi og tók til á kollótta af hverjum bónda í Ísafirði.“ Hér í lýsingu Landnámu eru allir hlutir strax morgunljósir. Hún sló eign sinni á Kvíarmið sem voru á Ísafjarðardjúpi en þar mun átt við djúpið fyrir og í mynni Ísafjarðar enda Kvíarmið enn vel þekkt í dag rétt SV af Ritnum. Síðan tók hún toll af hverjum bónda (kollótta á) í Ísafirði. Þetta orðalag tekur af allan vafa um að Ísafjörður var þá allur hinn stóri flói sem við í dag köllum Djúpið.“

Fjölmörg önnur dæmi eru dregin upp, líkt og kortaupplýsingar og skrif Eggerts og Bjarna. Greinina má lesa í heild sinni hér.

annska@bb.is

DEILA