Óheppilegt að burðarþolsmat liggur ekki fyrir

Staðsetningar eldiskvía Arnarlax eru skyggðar með grænu.

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar gerir ekki athugasemd við tillögu að matsáætlun Arnarlax á 10 þúsund tonna laxeldi í Ísafjarðardjúpi.  Hinsvegar þá ítrekar nefndin enn og aftur að afleitt sé að enga stefnumörkun stjórnvalda er að finna um sjókvíaeldi á Vestfjörðum, fremur en annars staðar á landinu. Nefndin segir óheppilegt er að veita leyfi þar sem burðarþol Ísafjarðardjúps liggur ekki fyrir og samlegðaráhrif eldis á svæðinu gagnvart lífríkinu eru ekki ljós. Því verður að telja það forgangsatriði að klára rannsóknir á burðarþoli Ísafjarðardjúps.

Að frumkvæði sveitarfélaga á Vestfjörðum og Fjórðungssambands Vestfjarða var unnin nýtingaráætlun fyrir Arnarfjörð og nefndin segir það slæmt að ríkisvaldið hafi ekki séð ástæðu til að láta samsvarandi vinnu fara fram á strandsvæði Ísafjarðardjúps.

Skipulags- og mannvirkjanefnd  ítrekar einnig þá skoðun að æskilegt er að sveitarfélög ráði skipulagi strandsjávar út að 1 sjómílu frá grunnlínu.

smari@bb.is

DEILA