Ný færðarkort hjá Vegagerðinni

Svona lítur nýtt færðarkort Vestfjarða út á vef Vegagerðarinnar

Á vef Vegagerðarinnar er nú að finna ný færðarkort og leysa þau af hólmi kort af grænu Íslandi sem hafa sinnt þessari upplýsingaveitu í 20 ár. Kortin með upplýsingum um færð og veður hafa í áranna rás verið eitt mikilvægasta verkfærið í upplýsingamiðlun Vegagerðarinnar og á dögum vályndra veðra hafa heimsóknir farið yfir 80.000. Margt hefur breyst í tölvunotkun landsmanna frá árinu 1996 en þá tengdust heimili til að mynda netinu í gegnum módem. Snjallsímar voru þá langt inni í framtíðinni sem og spjaldtölvur og því kominn tími til að færa kortin í frekari nútímabúning er segir í frétt um nýja síðu á Vegagerðarvefnum.

Á nýju kortunum eru reitir sem birta upplýsingar um hitastig, vindátt, vindhraða, vindhviður og umferð. Framsetning upplýsinga í þessum reitum er mikið breytt og hún nú orðin grafískari. Sé smellt á reit kemur upp vefsíða með frekari upplýsingum, t.d. daggarmarki, veghita og raka. Vefsíðan birtir einnig línurit yfir upplýsingar frá veðurstöð aftur í tímann. Einnig er hægt að smella beint á vefmyndavélar til að sjá myndir frá viðkomandi stað.

Á nýju færðarkortunum er landið teiknað í þremur grátónum sem mynda litabreytingu á kortunum þar sem hæð nær 200 og 400 metrum yfir sjávarmáli. Á nokkrum vegum hefur vegnúmerum verið bætt við kortin og einnig hefur örnefnum verið fjölgað nokkuð á kortunum. Þá hefur kortum verið fjölgað og eru nú birt kort fyrir miðhálendið og fyrir Reykjavík og nágrenni. Litir sem tákna færð eru nánast þeir sömu og áður. Tákn fyrir aðstæður hafa verið betrumbætt og táknið „Fært fjallabílum“ er nú með mynd af jeppa í stað 4×4 táknsins sem áður var.

Tæknileg högum á framsetningu línuritanna er nú gjörbreytt því í stað þess að birta tilbúnar myndir með línuritum eru nýju línuritin teiknuð í vafra notandans á grundvelli gagna um veður og umferð síðustu sólarhringa. Nýju línuritin hafa m.a. þann eiginleika að þau aðlaga sig að skjástærð notandans. Einnig birta þau benditexta með ítarupplýsingum þegar notandi fer með mús yfir línuritin eða snertir þau á snjalltæki.

annska@bb.is

DEILA