MÍ mætir VA í Gettu betur

Lið MÍ sem komst í sjónvarpshluta Gettu betur á síðasta ári. Kolbeinn (lengst t.v.) er einnig í liðinu sem keppir í kvöld

Gettu betur, spurningakeppni framhaldsskólanna hefst á Rás 2 í kvöld og er það lið Menntaskólans á Ísafirði sem ríður á vaðið í fyrstu viðureigninni þar sem lið skólans mætir liði Verkmenntaskóla Austurlands. Lið MÍ skipa þau Ína Guðrún Gísladóttir, Kolbeinn Sæmundur Hrólfsson og Veturliði Snær Gylfason. Útsending á Rás 2 hefst klukkan 19:25. Spyrill er Björn Bragi Arnarson, spurningahöfundar og dómarar eru þau Bryndís Björgvinsdóttir og Steinþór Helgi Arnsteinsson.

Þetta er í þrítugasta og annað sinn sem Gettu betur er haldin. Tuttugu og fimm skólar taka þátt að þessu sinni en átta lið fara áfram í lokakeppnina sem hefst í sjónvarpi þann 24.febrúar nk. Liði MÍ hefur aldrei gengið jafn vel í keppninni og á síðasta ári er það komst áfram í lokaumferðina í sjónvarpinu en lét það þar í minni pokann fyrir liði Menntaskólans við Hamrahlíð. Liðið í ár stefnir að sjálfsögðu að því marki að komast í lokaumferðina.

annska@bb.is

DEILA