Lokanir fjögur ár af sex

Vegurinn um Súðavíkurhlíð kann stundum að vera ferðalöngum á Vestfjörðum farartálmi. Um hátíðirnar jól og áramót er fólk oft meira á ferð en á öðrum tímum yfir vetrarmánuðina, er margir bæði koma til að verja hátíðunum með fjölskyldum sínum vestra, jafnframt því sem Vestfirðingar að sama skapi halda til annarra staða um landið. Á síðustu sex árum hefur svo borið við fjögur ár að veginum á milli Ísafjarðar og Súðavíkur, eða Súðavíkur og restarinnar af Vestfjörðum norðanverðum hefur verið lokað, en líkt og flestir vita liggur leiðin um Súðavíkurhlíð og Kirkjubólshlíð. Um nýliðin jól var veginum lokað í tvo daga, þó ekki heilu dagana heldur rúmar sex klukkustundir á jóladag og rúmar 8 klukkustundir annan dag jóla. Þá var varúðarstigi vegna snjóflóða lýst yfir frá klukkan 12 á hádegi á jóladag til 10:30 á annan í jólum.

Árin 2015 og 2014 var ástandið nokkuð gott og ekki kom til lokana þau ár. Árið 2013 var hins vegar ástandið slæmt er vegurinn var lokaður að mestu leiti frá Þorláksmessu fram til 28.desember. Árið 2012 var einnig slæmt er vegurinn var að mestu lokaður frá 27.desember fram á nýársdag. Mest var þá vegurinn opinn þann 28.desember í rúma 7 tíma. Árið 2011 kom svo til lokana bæði á aðfangadag og jóladag.

annska@bb.is

DEILA