Helstu verkefni lögreglu í liðinni viku

Skemmtanahald í umdæmi Lögreglunnar á Vestfjörðum yfir jól og áramót fór vel fram, er fram kemur í helstu verkefnum hennar í síðustu viku. Komust lögreglumenn að því er þeir gerðu athugasemdir við ökumann sem notaði stefnuljós ekki með viðeigandi hætti að ökutækið reyndist ótryggt og voru númer þess tekin af og það tekið úr umferð. Í vikunni hafði lögreglan afskipti af ökumanni sem var að flytja farm á vörubílspalli og hafði ekki fest farminn nægjanlega vel. Þá voru tveir ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur í Arnkötludal, annar ók á 112 km hraða en hinn á 105 km hraða, en hámarkshraði þar er 90 km.

Tilkynnt var um eitt umferðaróhapp í vikunni, þann 30. desember þegar ökumaður missti stjórn á bifreið sinni í hálku og nýföllnum snjó á Súgandafjarðarvegi, skammt fyrir utan gangamunnann í botni fjarðarins og rann bíllinn út af veginum og valt. Ökumaður, sem var einsamall í bílnum, var í bílbelti og hlaut ekki alvarleg meiðsl. Hann var þó fluttur til skoðunar á sjúkrahúsið á Ísafirði.

Um miðjan dag gamlársdags óskaði lögreglan á Vestfjörðum eftir aðstoð björgunarsveita á Ísafirði og nágrenni við leit að manni sem hafði farið í göngutúr heiman frá sér fyrr sama dag og óttast var um. Maðurinn fannst látinn skömmu eftir að leit hófst.

annska@bb.is

DEILA