Fleiri stunda símenntun

Árið 2015 varð mikil aukning í símenntun á Íslandi en þá sóttu 27,5% landsmanna á aldrinum 25-64 ára sér fræðslu, annað hvort í skóla eða aðra fræðslu með leiðbeinanda, eða 45.700 manns er Hagstofan greinir frá. Það er fjölgun um 3.600 manns og um 1,9 prósentustig frá árinu 2014. Frá árinu 2003 hefur hlutfall landsmanna á aldrinum 25-64 ára, sem stundar einhvers konar símenntun, heldur farið hækkandi. Hlutfallið var 22,2% árið 2003 en fór hæst í 27,6% árið 2006 og nálgast nú þá tölu á ný.

Tæp 38% þeirra sem höfðu lokið háskólamenntun sóttu símenntun árið 2015 en rúm 17% þeirra sem eingöngu höfðu lokið grunnmenntun. Hlutfall þeirra sem sóttu sér menntun hækkaði mest frá fyrra ári meðal þeirra sem hafa háskólamenntun en lítið meðal þeirra sem aðeins hafa grunnmenntun. Mun fleiri konur en karlar sækja sér fræðslu.
Alls stunduðu 31.400 manns símenntun utan skóla árið 2015, sóttu til dæmis námskeið, ráðstefnu eða fyrirlestur. Þátttaka í símenntun meðal 25-64 ára var hlutfallslega meiri hjá atvinnulausum og fólki utan vinnumarkaðar en hjá starfandi fólki árið 2015. Þannig sóttu 33,8% atvinnulausra 25-64 ára sér fræðslu.

Ísland er í fjórða sæti 33 Evrópuþjóða þegar litið er á þátttöku 25-64 ára í símenntun árið 2015. Aðeins í Danmörku (32,1%), Sviss (31,3%) og Svíþjóð (29,4%) er þátttakan meiri en á Íslandi. Meðaltal Evrópusambandsríkjanna 28 er 10,7%.

Símenntun er skilgreind sem öll menntun sem einstaklingur sækir, hvort sem er formlegt nám í skóla eða menntun utan skóla, s.s. á námskeiði, fyrirlestri eða á ráðstefnu. Tölurnar eru byggðar á niðurstöðum úr vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands. Grein Hagstofunnar um málið má lesa í heild sinni hér.

annska@bb.is

DEILA