Fiskvinnslur í þrot dragist verkfall áfram

Jón Steinn Elíasson, formaður Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda segir stöðuna í fiskútflutningi mjög slæma. Hann segir verkfall sjómanna koma sér illa fyrir fiskvinnslur án útgerðar og minni fyrirtæki í sjávarútvegi um allt land „Síðasta ár var auðvitað mjög erfitt út af genginu. Svo kemur þetta verkfall ofan í það þannig að staðan er mjög erfið,“ segir Jón Steinn, í samtali við Vísir.

Frá því var greint í síðustu viku að Oddi á Patreksfirði og Íslenskt sjávarfang á Þingeyri hefðu tekið saman tæplega 100 manns af launaskrá hjá sér vegna vinnslustöðvunar.

„Það er skelfilegt að láta tvær heilar vikur falla dauðar niður. Það segir manni það að þeir ætla ekkert að semja heldur bíða bara eftir að ríkisstjórnin setji á þetta lög. Ég get ekki lesið annað út úr þessu. Ég ætla bara að vona að menn grípi ekki til slíkra aðgerða nema að á samninga verði reynt fyrir alvöru áður,“ segir Jón Steinn við blaðamann Vísis.

Næst verður fundað í deilu sjómanna og útgerðarmanna 5. janúar, en verkfall sjómanna hefur staðið síðan 14. desember síðast liðinn.

brynja@bb.is

DEILA