Fiskverð nánast tvöfaldast

Verð á þorski og ýsu hefur nánast tvöfaldast á fiskmörkuðum frá því að verkfall sjómanna hófst fyrir þremur vikum. Allir bátar nema einn sem landa í Bolungarvík eru á sjó í dag.

Samúel Samúelsson hjá Fiskmarkaði Suðurnesja í Bolungarvík segir verðhækkunina vera gríðarlega: „Það er mjög mikil verðhækkun á öllum tegundum, þorskur og ýsa og skarkoli hafa hækkað gríðarlega mikið. Fyrir verkfall vorum við að selja þorskkílóið á 250 krónur, en hefur verið að seljast frá 500-600 krónur kílóið núna síðustu daga. Ýsan hækkaði gríðarlega en hefur lækkað aðeins, ég var að selja stóra línuýsu á svona 370-390 krónur, sem venjulega væri á 250 krónur kílóið“

Samúel segir verkfallið ekki hafa haft áhrif á markaðinn nema til góðs þegar litið er til verðhækkana: „Þetta verkfall hefur lítil áhrif á okkur nema til góðs, verðin hafa hækkað og aðeins einn bátur sem ekki rær hjá okkur, það er Sirrýin. Við vorum mjög óheppin með veður milli hátíða en í dag og í gær voru allir á sjó.“

Hann segist þó vona að deilan leysist bráðlega: „Maður óskar náttúrulega engum þess að vera í verkfalli lengur og vonar að deilan leysist. En þetta kemur ágætlega út hjá okkur á meðan gefur á sjó höldum við áfram að vinna. Við erum að selja 30-40 tonn á dag.“

brynja@bb.is

DEILA