Farsímasamband á vegum landsins

Póst og fjarskiptastofnun (PFS) hefur framkvæmt mælingar á fjarskiptasambandi á helstu vegum í vegakerfinu á Íslandi. Verkefnið var unnið að ósk Fjarskiptasjóðs og fór þannig fram að starfsmenn PFS óku eftir þeim vegum sem mældir voru með tilheyrandi mælitæki. Mælingarnar stóðu yfir frá haustinu 2015 til haustsins 2016 og þar sem hröð uppbygging á fjarskiptakerfinu er sífellt í gangi geta niðurstöður sýnt lakari dreifingu en raun er orðin síðan mælingarnar voru gerðar. Þá er einnig rétt að hafa í huga að loftnet símtækja geta verið mismunandi að gæðum og því ekki alltaf víst að ferðalangar um vegi landsins fái sömu upplifun varðandi styrk merkja og kortin gefa til kynna.
Innan PFS hafa verið unnin gagnvirk vefkort þar sem hægt er að skoða niðurstöður mælinganna fyrir öll fjarskiptakerfin, GSM, 3G og 4G. Hægt er að þysja mjög nákvæmlega inn á einstaka staði og sjá hvar mælingapunktarnir liggja og hver staðan er.

Samkvæmt kortinu ætti farsímaband milli Hólmavíkur og Ísafjarðar að vera meira og minna sæmilegt. Vegir með góðu farsímasambandi er merkt með grænu en miðlungsgott er merkt með gulu. Skilgreining á gulu er að sambandi sé sæmilegt en gæti slitnað. Talsvert langir kaflar eru á þessari leið merktir gulu og ef þysjað er inn má sjá að inn á milli eru rauðir punktar en rautt þýðir að ekkert farsímasamband næst.

Ástand farsímasambands á suðurfjörðum Vestfjarða og á Barðaströnd er með svipuðum hætti og augljóst að bæta þarf verulega úr á leiðinni milli Ísafjarðar og suðurfjarða þegar Dýrafjarðargöng opna.

Um verkefnið

Eftir að Fjarskiptasjóður óskaði eftir því á seinni hluta ársins 2015 að PFS framkvæmdi mælingar á gæðum fjarskiptamerkja á öllum helstu vegum landsins var gerður samningur um verkefnið. Samkvæmt honum var gert ráð fyrir því að PFS myndi skila niðurstöðum fyrir öll fjarskiptafélög sameiginlega og öll farnetskerfi, þ.e. GSM, UMTS (3G) og LTE (4G) á kortavefsjá á vef PFS, ásamt samantekt á niðurstöðum í skýrslu. Með því að birta niðurstöðurnar fyrir öll fjarskiptafélögin sameiginlega er auðveldara að gera sér grein fyrir því hvar næst í það minnsta samband fyrir neyðarsímtöl (112).

Verkefninu var skipt í tvo áfanga þar sem fyrri áfanganum hefur verið lokið. Þar er um að ræða stærsta hluta vegakerfisins, þ.e. sem hægt er að aka venjulegum fólksbílum að öllu jöfnu. Ekki hefur verið tekin ákvörðun varðandi seinni áfanga verkefnisins, hálendis- og háfjallavegi, en gera má ráð fyrir því að ákvörðun verði tekin fljótlega á árinu 2017. Á gagnvirka kortinu sem hægt er að nálgast hér fyrir ofan er útbreiðslan á þessum vegum byggð á spálíkani sem PFS hefur gert, þ.e. ekki er um eiginlegar mælingar að ræða á þeim vegaköflum.

DEILA