Fara fljótlega á reynsluveiðar

Togararnir sem Hraðfrystihúsið – Gunnvör hf. og Vinnslustöðin hf. í Vestmannaeyjum eru með í smíðum í Kína halda fljótlega til „veiða“ á miðin í næst við skipassmíðastöðinni í Shidao í Kína. Þetta kemur fram á vef Vinnslustöðvarinnar. Breki VE mun fara í prufuferð á undan Páli Pálssyni ÍS.

„Aðalatriðið er að kanna afl togskips með stærstu skrúfu íslenska fiskiskipaflotans. Auðvitað kostar verulega fjármuni og fyrirhöfn að senda veiðarfæri alla þessa leið en við viljum ganga úr skugga um að allur búnaður virki eins og til er ætlast áður en skipið verður afhent,“ segir Rúnar Helgi Bogason vélsmiður í frétt á vef Vinnslustöðvarinnar. Hann hefur verið í borginni Shidao í Kína í hálft annað ár og litið fyrir hönd útgerðanna eftir smíði systurskipanna ásamt Finni Kristinssyni vélfræðingi.

Fyrir liggur að láta reyna á ýmis tæki og tól í höfn í Kína, meðal annars átaksmæla aðalvélina með því að festa stálvíra úr skipinu í landi og láta skipið síðan toga.

Mikilvægasta þolraunin verður samt úti á sjó og Rúnar Helgi veit ekki til þess að svona nokkuð hafi verið gert áður með íslenskt fiskiskip hjá erlendri skipasmíðastöð fyrir afhendingu.

„Sjórinn er grunnur þarna úti fyrir. Við viljum gjarnan komast á 100 til 150 metra dýpi en það kostar allt að tveggja sólarhringa siglingu hvora leið og ekki víst að kínversk stjórnvöld leyfi slíka langferð. Meiningin er svo að færa trollið yfir í Pál Pálsson og prófa hann á sama hátt líka en ekki fyrr en séð er að allt sé með felldu í Breka. Ef eitthvað kemur upp á þar verður brugðist við í báðum skipunum áður en Páll fer í sína prófunarveiðiferð.“

smari@bb.is

DEILA