Fagnar yfirlýsingu ráðherra um Reykjavíkurflugvöll

 

Bæjarráð Bolungarvíkur fagnar yfirlýsingu Jóns Gunnarssonar samgöngunráðherra um staðsetningu Reykjavíkurflugvallar og að miðstöð innanalandsflugs verði í Vatnsmýri til framtíðar. Þetta kemur fram í bókun bæjarráðs. Í gegnum árin hefur Jón verið ötull stuðningsmaður Reykjavíkurflugvallar og strax á fyrstu dögum hans í samgönguráðuneytinu kom berlega í ljós að hann hyggst beita sér fyrir áframhaldandi veru flugvallar í Vatnsmýri.

„Það er engin önnur lausn í stöðunni. Það er auðvitað áhugavert að skoða allar framtíðarpælingar um eitthvað annað, en það er eitthvað sem er komið svo stutt á veg að það mun í mínum huga taka mörg ár að koma niðurstaða í. Á meðan getum við ekki búið við einhverja óvissu um Reykjavíkurflugvöll,“ sagði Jón í Fréttablaðinu fyrr í mánuðinum, aðspurður hvort hann vilji flugvöllinn áfram í Vatnsmýri.

Jón vill ráðast í uppbyggingu á vellinum, sér í lagi á flugstöðinni. „Reykjavíkurflugvöllur gegnir gríðarlega veigamiklu hlutverki í okkar samgöngum. Aðstæður þar eru algerlega óviðunandi, bæði fyrir starfsfólk og farþega. Það verður að ná saman um einhverja framtíðarsýn þannig að hægt sé að ráðast í eðlilega uppbyggingu og horfa til lengri tíma. Við getum ekki búið við þessa stöðugu óvissu.“

smari@bb.is

DEILA