Samningafundi sjómanna og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi lauk nú fyrir stundu og viðræðum verður frestað til mánudags. Tímann þangað til ætlar sjómannaforystan að nota til að kanna baklandið meðal umbjóðenda og ráða ráðum sínum. Sjómenn hafa í tvígang fellt kjarasamning sem forystan hefur samþykkt.
Verkfall sjómanna hefur staðið í rúmar fimm vikur og tap sjómanna og útgerða mikið svo ekki sé minnst á fiskverkafólk, en á annað þúsund starfsmanna í fiskvinnslu hafa fengið uppsagnarbréf frá því að verkfallið hófst.
Fulltrúar beggja málsaðila keyrðu á vegg í þessum viðræðum og það var kominn svolítill hiti í menn. Á ákveðnum málum steytti og því var ákveðið að kæla málið aðeins og byrja aftur eftir helgina,“ segir Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands, í samtali við blaðamann Morgunblaðsins í dag.
smari@bb.is