Ekki ákært í Hornvíkurmálinu

Þremenningarnir í fjörunni í Hornvík.

 

Lögreglan á Vestfjörðum ætlar ekki að ákæra fyrir meint brot í friðlandi Hornstranda í júní í fyrra.  Fréttastofa RÚV greinir frá að rannsókn sé lokið og verður málinu lokið með sekt þar sem ekki var hægt að tengja mennina við nema hluta brotanna með óyggjandi hætti. Málið snýst um meint brot þremenninga á reglum friðlandsins um meðferð skotvopna í friðlandinu, um ólöglegar skotveiðar í friðlandinu, veiðar á fuglum utan veiðitíma og að hafa hreiðrað um sig í neyðarskýli Landsbjargar án leyfis. Málið komst í hámæli þegar starfsmenn ferðaþjónustufyrirtækis á Ísafirði komu að þeim í neyðarskýlinu í Hornvík og lýstu upplifun sinni á samfélagsmiðlum.

Á vef RÚV er haft eftir Karli Inga Vilbergssyni lögreglstjóra á Vestfjörðum að mennirnir hljóti sektina fyrir að hafa ekki tilkynnt ferðir sínar í friðlandið sem stangist á við ákvæði um friðland Hornstranda og fyrir meðferð skotvopna í friðlandinu sem er óheimil öðrum en landeigendum. Ekki er hægt tengja önnur brot við mennina með óyggjandi hætti.

smari@bb.is

DEILA