Þorsteinn Másson starfsmaður Arnarlax skrifaði í gær grein sem birt var á bb.is þar sem hann útskýrir yfirlitskort yfir eldissvæði Arnarlax í Ísafjarðardjúpi. Myndin sem tekin er úr tillögu að matsáætlun sem Arnarlax hefur skilað til Skipulagsstofnunar og sýnir áætluð svæði fyrir kvíar, sýnir svæðin sem mislita búta víðsvegar um djúpið. Í Fréttatímanum er fjallað um þessa mynd með fyrirsögninni „Ísafjarðardjúp teppalagt með laxeldiskvíum“. Um málið er líka fjallað á facebook síðu Landssambands veiðifélaga en sem kunnugt er eru stangveiðimenn og samtök þeirra mjög ósátt við opið sjókvíaeldi
Þorsteinn segir í grein sinni að myndin gefi skakka mynd og að svæðin sem fari undir kvíar séu aðeins brotabrot af því sem „teppisbútarnir“ gefi til kynna. Sótt er um svæði sem fyrirtækin hafa áhuga á að nota undir eldið, síðan sé farið í rannsóknir sem eiga að tryggja að kvíarnar verði á besta mögulega staðnum inn á svæðinu.
Þau eru þrjú eldisfyrirtækin, Arnarlax, Arctic Sea Farm og Hraðfrystihúsið Gunnvör sem nú hyggja á stórfellt eldi í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi og eru leyfismál mislangt á veg komin. Fyrir liggur að félagið Náttúruvernd 1 hefur stefnt Matvælastofnun, Umhverfisstofnun og Arnarlaxi vegna leyfisveitinga í Arnarfirði en eigendur Náttúruverndar 1 eru eigendur Kirkjubóls, Hringdals og Grænuhlíðar í Arnarfirði, eigendur veiðiréttar í Haffjarðará á Snæfellsnesi og veiðifélag Laxár á Ásum í Austur Húnavatnssýslu. Að sögn Jóns Steinars Gunnlaugssonar lögmanns Náttúruverndar 1 stendur til að stofna Náttúruvernd 2, 3 og jafnvel fleiri eftir atvikum. Í Viðskiptablaðinu er haft eftir Jóni „ Það er ætlun þess hóps sem stendur að þessu að láta reyna á lögmæti sjókvíaeldisstöðva víðsvegar um land. Búið er að reyna að andæfa þessu á stjórnsýslustiginu en það hefur ekki borið árangur og þess vegna er nú verið að fara með málið fyrir dómstóla. Í grunninn snýst þetta allt saman um verndun verðmætra náttúruréttinda á Íslandi.“