Ekki hefur verið miklum snjó fyrir að fara á vestfirskri grundu það sem af er þessum vetri og sýnist hverjum sitt um það. Skíðafólk hefur kannski öðrum hópi fremur verið langeygara eftir snjónum og eflaust einhverja farið að klæja undan þránni eftir að renna sér niður snæviþaktar brekkur. Á Skíðasvæði Ísafjarðarbæjar er nú unnið hörðum höndum að því að bregðast við þránni, en í Tungudal hefur ekki verið nægjanlegur snjór til að opna megi allt skíðasvæðið. Í dag dregur þó til tíðinda þar sem opnað verður á byrjendasvæðinu. Þar er búið að troða og verður opið á milli klukkan 16 og 19. Í þeirri brekku er nokkuð sléttur og hreinn jarðvegur undir svo betur gengur að vinna á því svæði og gera það klárt til skíðaiðkunar að sögn svæðisstjórans Hlyns Kristinssonar, segir hann önnur svæði í Tungudal erfiðari yfirferðar og þar vanti enn herslumuninn svo sé hægt að opna þar.
Göngusvæðið í Seljalandsdal er einnig opið í dag, en gönguskíðaiðkendur fá skíðaþörfinni iðulega fyrr svalað hér um slóðir og hefur verið opið þar frá því í lok desembermánaðar. Þar er í dag búið að troða 3,3km braut og verður opið frá klukkan 14.