Bændur uggandi vegna stjórnarmyndunar

Sindri Sigurgeirsson.

Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, segir í pistli á vef samtakanna að bændur séu uggandi vegna frétta síðustu daga af stjórnarmyndunarviðræðum. Hann segir þær valda ugg hjá fleirum sem byggja afkomu sína á matvælaframleiðslu víða um land.

„Helstu tíðindin sem borist hafa úr stjórnarmyndunarviðræðunum eru að stefnt verði að frekari tollalækkunum á ostum og svína- og alifuglakjöti. Þessar fregnir koma bændum á óvart enda nýbúið að gera róttækar breytingar á tollaumhverfinu með nýlegum samningi við Evrópusambandið u m aukna tollfrjálsa kvóta á búvörum,“ segir Sindri í pistli sínum og segir áhrif þess samnings afar neikvæð fyrir íslenskan landbúnað og að útreikningar sýni beint fjárhagslegt tjón upp á hundruð milljón króna.

Sindri segir að hér sé notað minna af sýklalyfjum en víðast annars staðar og að heilbrigði búfjár sé betra en í samanburðarlöndum og spyr hvort stjórnmálamenn sé tilbúnir að fórna því: „Lyfjaþolnar bakteríur hafa ekki fundist hér á landi og meiri kröfur eru gerðar til framleiðenda varðandi eyðingu á salmonellasmituðum afurðum og þannig má lengi áfram telja. Vilja stjórnmálamenn og kjósendur þeirra gefa eftir þessa stöðu í skiptum fyrir ódýrar matvörur að utan?“

brynja@bb.is

DEILA