Aron Ottó tekur þátt í Söngkeppni FÍS

Aron Ottó Jóhannsson keppir í Vox Domini um helgina

Vox Domini, söngkeppni Félags íslenskra söngkennara, FÍS, fer fram í Salnum í Kópavogi um helgina. Meðal þátttakenda í keppninni er ungur Ísfirðingur Aron Ottó Jóhannsson sem stundar nú söngnám við Tónlistarskóla Ísafjarðar undir handleiðslu Ingunnar Óskar Sturludóttur. Vox Domini er opin söngvurum yngri en 35 ára og er þar keppt til verðlauna í 3. flokkum: miðstigi, framhaldi og opnum flokki, sem er fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu spor í þessari atvinnugrein og verða veittar viðurkenningar þeim sem þykja skara fram úr í hverjum flokki. Aron Ottó keppir á miðstigi en þar etja kappi þeir nemendur sem lokið hafa grunnprófi.

Er þetta í fyrsta sinn sem keppnin er haldin en stefnt er að því að hún verði árlegur viðburður og er hún fyrsta keppni sinnar tegundar hér á landi. Þess má geta að Sigrún Pálmadóttir, söngkennari við Tónlistarskóla Ísafjarðar, er meðal dómara í keppninni. Hún mun þó víkja úr dómnefnd þegar Aron Ottó stígur á stokk.

 

annska@bb.is

DEILA