Áhrif umhverfis á þróun smábleikju í Vísindaporti

Í Vísindaporti Háskólaseturs Vestfjarða þessa vikuna mun líffræðingurinn, doktorsneminn og Ísfirðingurinn Sigurður Halldór Árnason fjalla um rannsókn sína á íslenskum dvergbleikjustofnum. Erindið ber titilinn: Hvernig mótar umhverfið svipfarsbreytileika á meðal dvergbleikjustofna í ferskvatnslindum á Íslandi?

Í erindinu mun Sigurður fjalla um doktorsverkefni sitt en í því er hann að skoða áhrif umhverfis á þróun smábleikju á Íslandi. Hann mun ræða um það hvernig umhverfið getur haft bein áhrif á þróun stofna og þær breytingar sem geta orðið á umhverfinu í kjölfar slíkra breytinga. Einnig mun hann kynna aðferðir sem hann notar til að skoða hvort og hvernig mismunandi umhverfisaðstæður leiða til þróunar á mismunandi svipfari meðal smábleikjustofna hér á Íslandi. Að lokum mun hann kynna brot af niðurstöðum sínum og ræða hvaða þýðingu þær geta haft fyrir skilning okkar á því hvernig samspil vist- og þróunarferla móta líffræðilegan fjölbreytileika.

Sigurður Halldór er Ísfirðingur að uppruna en fluttist ungur til Bandaríkjanna. Hann er með MSc gráðu í líffræði frá Háskóla Íslands þar sem hann sérhæfði sig í frumerfðafræði og stofnerfðafræði plantna. Hann lauk BS nám við Háskólann í Hawaii á Honolulu þar sem hann sérhæfði sig í vist- og þróunarfræði og vann við verndun einlendra landsnigla á Hawaii. Hann býr nú á Ísafirði ásamt konu sinni og tveimur börnum þar sem hann vinnur við að ljúka doktorsnámi í vatnalíffræði við Háskólann á Hólum í samstarfi við Háskóla Íslands.

Vísindaportið er að vanda öllum opið og stendur frá 12.10-13.00 í kaffistofu Háskólasetursins í Vestrahúsinu. Fyrirlesturinn að þessu sinni fer fram á ensku.

annska@bb.is

DEILA