Áfengi í formi matreiðsluvíns í Samkaupum

Matreiðsluvín í hillum Samkaupa

Matreiðsluvín með áfengisstyrkleika allt að 40% má kaupa í verslunum Samkaupa á Ísafirði. Þar eru fjórar tegundir að finna í hálfs lítra flöskum: Koníak sem hefur áfengisstyrkleika 40%, púrtvín 20%, rauðvín og hvítvín sem er 11%. Matarvín er ólíkt áfengi sem nálgast má í verslunum ÁTVR að því leiti að búið er að krydda vínið og telst það því ekki drykkjarhæft.

Ingólfur Hallgrímsson, verslunarstjóri Samkaupa á Ísafirði, segir að kvartanir hafi ekki borist vegna sölu verslunarinnar á þessum varningi en hann fái þó reglulega spurningar um vínið. Þessar vörur hafa verið í sölu í 4 ár í yfir 20 verslunum Samkaupa víðsvegar um landið. Ingólfur segir almennt ekki mikla sölu á víninu, en það hafi þó vakið athygli að síðsumars á síðasta ári hafi salan rokið upp og segir hann það megi mögulega rekja til þess að erlendir ferðamenn hafi haldið að þarna væri um áfengi að ræða, en flöskunum svipar mikið til þeirra sem drykkjarhæft vín kemur í.

Ingólfur segir jafnframt að salan hafi dottið niður að nýju með haustinu og í desembermánuði hafi hún verið afar lítil. Það vekur þó athygli að minnst selst af rauðvíninu og hvítvíninu, jafnvel bara flaska á mánuði en mun meira af þeim tegundum sem hafa hærra áfengismagn, sem mun þó yfirleitt minna notað til matargerðar en léttvínin.

Talsvert var fjallað um sölu á áfengum matreiðsluvínum í fjölmiðlum árið 2014, en þá ákváðu lögregluyfirvöld á höfuðborgarsvæðinu að aðhafast ekkert í málinu, þar sem lögum samkvæmt teldist vínið ekki neysluhæf vara. Hlynur Snorrason, yfirlögregluþjónn á Ísafirði segir að til Lögreglunnar á Vestfjörðum hafi verið að berast ábendingar um að í matvöruverslun á Ísafirði sé vara til sölu sem hafi háan áfengisstyrkleika, hann segir að málið sé í skoðun, en svo virðist sem þessi vara flokkist undir matvöru en ekki áfengi.

annska@bb.is

DEILA