22 ár frá Súðavíkurflóðinu

Björgunarsveitarmenn nærast í frystihúsi Frosta í Súðavík. Mynd: Brynjar Gauti.

Í dag eru 22 ár frá því að snjóflóðið mannskæða féll á Súðavík.  Snjóflóðið, sem var rúmlega 200 metra breitt, féll klukkan 6:25 á miðja byggðina í Súðavík og tók með sér 15 íbúðarhús. Í þeim voru 26 manns og fórust 14 þeirra, þar af átta börn, en 12 manns tókst að bjarga. Húsin sem flóðið féll á stóðu flest utan þeirra marka sem skilgreind voru sem hættusvæði vegna snjóflóða.

Á þessum tíma hafði geysað óveður á Vestfjörðum og var landleiðin milli Ísafjarðar og Súðavíkur ófær sökum snjóa og fjölmargra snjóflóða sem höfðu fallið á veginn um Súðavíkurhlíð. Björgunarlið, læknar, lögreglumenn og sjálfboðaliðar voru því flutt frá Ísafirði og nágrannasveitum sjóleiðis. Djúpbáturinn Fagranes spilaði stóran þátt í því verkefni. Á fjórða hundrað björgunarsveitarmanna af Vestfjörðum og björgunarmenn úr 10 sveitum á SV horni landsins tóku þátt í aðgerðum í Súðavík, en sunnanmenn komu vestur með varðskipi. Þá er ótalinn fjöldi sjálboðaliða frá Súðavík og nágrannabyggðum sem lögðu lið.

smari@bb.is

DEILA