Vinnslustöðvun fyrirsjáanleg

Gísli Halldór Halldórsson bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar

Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, segir það hafa verið fyrirsjáanlegt að fiskvinnslur þyrftu að grípa til neyðarúrræða vegna afleiðinga af verkfalli sjómanna. „Þetta eru vondar fréttir þó að vissulega hafi þetta verið fyrirsjáanlegt í ljósi yfirstandandi sjómannaverkfalls,” segir Gísli. Í fyrradag tilkynnti Íslenskt sjávarfang að það ætlaði að taka um 35 starfsmenn af launaskrá og á sama degi tilkynnti Oddi á Patreksfirði að það ætlaði að taka tæplega 60 manns af launaskrá vegna viðvarandi hráefnisskorts.

Gísli segir það vera jákvætt að Íslenskt sjávarfang hafi ekki áður gripið til slíkra aðgerða: „Áður en fyrirtækið tók við vinnslunni gerðist það margoft að tilkynnt væri um vinnslustöðvun á Þingeyri, starfsmönnum og íbúum til mikils ama. Það er líka jákvætt að vinnslu hafi verið haldið út í nærri tvær vikur eftir að verkfall hófst.“

Hins vegar hefði verið hægt að fara aðra leið. „Fyrirtækið hefði hinsvegar getað farið mildari leið í þessari stöðu, haldið fólkinu á launaskrá og fengið 60% af launum endurgreidd frá Atvinnuleysistryggingasjóði, í stað þess að senda starfsmenn sína á atvinnuleysisbætur – sumir launþeganna eru jafnvel ekki búnir að vinna sér inn bótarétt og geta því lent í umtalsverðu tjóni,“ segir Gísli Halldór.

Um er að ræða heimildarákvæði sem Vinnumálastofnun gaf tilkynningu um 19. desember að fyrirtæki gætu nýtt sér. Heimildin gefur fyrirtækjunum leyfi til að taka fólk af launaskrá og fólk sækir þá um atvinnuleysisbætur í framhaldi af því. Í kjarasamningi starfsfólksins segir að þegar vinnslustöðvun vegna hráefnisskorts hafi staðið lengur en 5 vikur samfellt, sé starfsmanni heimilt að slíta ráðningarsamningi við fyrirtækið og tilkynna með viku fyrirvara að hann ætli að leita að vinnu annars staðar.

„Með þeirri leið sem nú er farin er starfsfólkið tekið af launaskrá en þarf samt að vera tilbúið til að mæta í vinnu fyrirvaralaust ef vinnsla hefst skyndilega – það er svona eins og bara launþeginn sé bundinn af ráðningarsamningnum. Maður spyr sig einnig hvort ekki hefði verið hægt að upplýsa starfsmenn um þessa aðgerð með meiri fyrirvara – verkfallið hófst 14. desember og einhver fyrirsjáanleiki hlýtur að hafa verið um hvenær vinnsla myndi stöðvast,“ segir Gísli Halldór.

brynja@bb.is

DEILA