Vestrakrakkar gera það gott í blakinu

Katla Vigdís Vernharðsdóttir, Hafsteinn Már Sigurðsson og Gísli Steinn Njálsson

Ungir blakiðkendur hjá Vestra hafa verið að gera góða hluti að undanförnu og hafa tveir drengir verið valdir í drengjalandsliðið, þeir Hafsteinn Már Sigurðsson og Gísli Steinn Njálsson og er Katla Vigdís Vernharðsdóttir komin í 15 manna úrtak fyrir stelpnalandsliðið, en um næstu helgi verður valið í 12 manna hóp. Blaksamband Íslands sendir stelpna- og drengjalandslið á Evrópumót í Danmörku sem haldið verður dagana 19.-21. desember. Hjá stelpunum er um að ræða landslið þar sem elstu stelpurnar eru fæddar 2002 og hjá strákunum eru þeir elstu fæddir árið 2001 og er þetta í fyrsta sinn sem Ísland er með í verkefnum fyrir svo ung blaklandslið.

Þau Hafsteinn, Gísli og Katla bætast því í sístækkandi hóp leikmanna Vestra sem valin hafa verið í unglingalandslið í blaki og má því með sanni segja að Ísafjarðarbær sé búinn að stimpla sig inn sem blakbær.

annska@bb.is

DEILA