Nú í höndum fjárlaganefndar

Alþingi

Fyrstu umræðu um fjárlagafrumvarp fyrir 2017 er nú lokið og fjárlaganefnd hefur fengið frumvarpið aftur til meðhöndlunar. Fyrsti fundur nefndarinnar var haldinn í morgun og næsti fundur er boðaður á mánudag. Samkvæmt heimildum bb.is mun verða lögð fram tillaga um að fyrri áætlanir um fjármögnun Dýrafjarðarganga fari inn í fjárlög. Í kjölfarið fara svo fjárlögin aftur til umræðu á alþingi.

Harðar umræður voru í vor í fjölmiðlum um hvort eina ferðina enn yrði framkvæmdum við Dýrafjarðargöng frestað en þá lá fyrir að undirskrift samninga við verktaka yrði ekki fyrr en að loknum kosningum. Þar með gæti ný ríkisstjórn frestað framkvæmdum eins og margoft hefur gerst, þrátt fyrir að Dýrafjarðargöng hafi verið á forgangslista jarðganga frá 1999.

Um þetta skrifaði Ólína K. Þorvarðardóttir á vefnum Skutull.is og sagði meðal annars: „Hinn bitri sannleikur sem nú gæti verið að afhjúpast er sá, að það hefur sennilega aldrei verið meining ríkisstjórnarinnar að standa við Dýrafjarðargöng fremur en fyrri daginn. Dýrafjarðargöngum skyldi bara veifað sem kosningadulu framan í Vestfirðinga eina ferðina enn. Business as usual. Höndin sem hæst hélt þeirri kosningadulu tilheyrir þingmanni Vestfirðinga til 25 ára, Einari K Guðfinnssyni, sem nú hyggst hætta í pólitík. Skýrir það kannski afdrif málsins? Spyr sú sem ekki veit.“

Einar K. Guðfinnsson kallaði umræðuna ys og þys út af engu, fjármögnun væri tryggð enda göngin bæði í ríkisfjármálaáætlun og samgönguáætlun. Og Ólöf Nordal innanríkisráðherra sá ástæðu til að senda út sérstaka áréttingu um að fjármagn til ganganna sé tryggt og í engu hvikað að framkvæmdir skuli hefjast um mitt ár 2017.

Nú liggja fyrir fjárlög sem samin voru í vor og sumar, eða á vikunum eftir þessar umræður um afdrif Dýrafjarðarganga og það liggur fyrir að í þeim fjárlögum er ekki gert ráð fyrir fjármagni til framkvæmda við göngin. Framkvæmd Dýrafjarðarganga eru þar með orðin, eins og Ólína benti á í vor, enn orðin bitbein í stjórnarmyndarviðræðum og ef ekki næst stuðningur við framkvæmdina á nýju þingi má reikna með Dýrafjarðargöngum í næsta kosningaloforðalista.

bryndis@bb.is

DEILA