Námskeið í útvarpsþáttagerð á nýju ári

Í janúar og febrúar á nýju ári verður boðið upp á námskeið í útvarpsþáttagerð á Ísafirði undir yfirskriftinni „Útvarp sem skapandi miðill – þættir af mannabyggð og snortinni náttúru.“ Námskeiðið verður haldið við Fræðslumiðstöð Vestfjarða og er það Kol og salt í samstarfi við Prófessorsembætti Jón Sigurðssonar sem standa fyrir því. Kennarar eru margreynt fjölmiðlafólk og verða helstu kennarar og umsjónarmenn útvarpskonurnar Elísabet Indra Ragnarsdóttir og Þorgerður E Sigurðardóttir, og gestakennarar meðal annars: Eiríkur Guðmundsson, Eiríkur Örn Norðdahl, Finnbogi Hermannsson, Halla Ólafsdóttir, Pétur Grétarsson og Vera Illugadóttir.

Á námskeiðinu fá nemendur þjálfun og innsýn í allt sem viðkemur þáttagerð fyrir útvarp og læra að búa til 30 mínútna langa útvarpsþætti. Í lok námskeiðsins sem stendur í heildina yfir mánaðarlangt tímabil eiga nemendur að hafa lokið við að gera einn þátt. Námskeiðið er ætlað fólki á Vestfjörðum og þeim sem tengjast svæðinu sterkum böndum og leitað verður til þátttakenda sem ljúka námskeiðinu um áframhaldandi þáttagerð fyrir útvarp.

Tilgangurinn með verkefninu er að segja sögur eða fjalla um efni þar sem leitað er fanga í hugarheimi fólks sem býr, hefur eða mun búa í þessum landshluta og byggja jafnframt upp þekkingu og reynslu af þáttagerð innan svæðisins.

Skráningar á námskeiðið hefjast hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða þann 12. desember og er hámarksfjöldi þátttakenda 12 manns. Nánar um námskeiðið má finna hér.

annska@bb.is

DEILA