Mýsnar í Súðvík dúkka upp á nýjum stöðum

Þorsteinn Haukur Þorsteinsson og Lilja Kjartansdóttir í Súðavík senda nú frá sér nýja hljóðbók um Sigfús Músason, Fjólu konu hans og músaungana þeirra, en þau voru fyrst kynnt til sögunnar í Músasögum sem komu út fyrir jólin 2014. Líkt og áður þá dúkka mýsnar upp á hinum ýmsu stöðum í Súðavík og á hinni nýju hljóðbók er að finna sögurnar: Músasaga í kirkjunni og Músasaga á Melrakkasetrinu. Líkt og nöfnin gefa til kynna, segja sögurnar af fjölskyldunni í Súðavíkurkirkju og á Melrakkasetrinu eða gamla Eyrardalsbænum, sem er Lilju vel kunnur þar sem hún ólst þar upp.

Haukur og Lilja semja sögurnar í sameiningu með þeim hætti að Haukur setur þær fyrst niður líkt og þær birtast honum og svo tekur Lilja við þeim og þróar þær áfram í endanlegan búning. Það er Lilja sem ljær sögunum svo rödd á hljóðbókunum og Haukur gerir tónlistina. Káputeikning er svo í höndum annars Súðvíkings, Dagbjartar Hjaltadóttur.

Á morgun verður blásið til útgáfugleði í Kaupfélaginu í Súðavík klukkan 20, lesið verður úr Músasögum og flutt lifandi tónlist, á meðan að gestir geta fengið sér kaffisopa, smákökur og konfekt og notið þess að eiga huggulega kvöldstund.

annska@bb.is

DEILA