Launahækkanir kennara kosta um 46,1 milljónir

Arna Lára Jónsdóttir.

Heildaráhrifin af kjarasamningunum kennara nema um 46,1 milljónum króna fyrir Ísafjarðarbæ. Samkvæmt nýgerðum kjarasamningum við grunnskólakennara fela samningarnir í sér 7,5% launahækkun frá 1. des 2016, og 3,5% hækkun frá 1. mars 2017. Auk þess felur samningurinn í sér að greiða skuli hverjum starfsmanni sem var í fullu starfi í desember eingreiðslu að upphæð 204 þúsund þann 1. janúar 2017.

Eingreiðsla til kennara í janúar kemur til með að vera um 8,9 milljónir miðað við 43,6 stöðugildi. Aðspurð um áhrif á útgjöld Ísafjarðarbæjar segir Arna Lára Jónsdóttir, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar, sveitarfélagið hafa gert ráð fyrir einhverri hækkun við gerð fjárhagsáætlunar: „Við höfðum gert ráð fyrir 6.6% hækkun í áætlun en raunin verður 11% hækkun – þ.e. fyrir utan eingreiðsluna. Hækkun umfram fyrri áætlun gæti því verið um 15 milljónir króna, sem er vel viðráðanlegt.“

Aðspurð um hvort umræða um að skila rekstri grunnskóla til ríkisins hafi verið áberandi, segir Arna Lára svo ekki vera: „Við höfum ekki rætt það að skila grunnskólanum til ríkisins og ég efast um að einhver vilji sé til þess, enda erum við að gera betur en ríkið. Ég held að flest sveitarfélög hafi mikinn metnað í fræðslumálum og vilja gera vel, það er allavega svo í Ísafjarðarbæ. Við höfum þurft að takast á við auknar kröfur, sem er eðlilegt, án þess að því fylgi nægjanlegt fjármagn. Við þurfum áfram berjast fyrir að fá tekjustofna til að standa undir þeim verkefnum sem okkur eru falin. Við viljum frekar bæta á okkur verkefnum og það sem við teljum nú brýnast er að stjórnvöld finni sveitarfélögum tekjustofn þannig að sveitarfélög hafi efni á að reka leikskóla fyrir börn frá því að fæðingarorlofi lýkur – sem nú er 9 mánuðir en ætti auðvitað að vera 12-15 mánuðir.“

brynja@bb.is

DEILA