Karlakórinn Ernir með aðventutónleika

Karlakórinn Ernir heldur um þessar mundir árlega aðventutónleika sína á norðanverðum Vestfjörðum. Frá því er þeir félagarnir byrjuðu að hefja upp raust sína í þessum tilgangi hafa tónleikarnir notið mikilla vinsælda meðal heimafólks og iðulega þétt setinn bekkurinn. Í gær voru tvennir tónleikar bæði á Ísafirði og í Bolungarvík, en óþarfi er að örvænta ef tónleikarnir fóru framhjá ykkur því þeir félagar endurtaka leikinn í kvöld í Félagsheimilinu á Þingeyri þar sem tónleikar hefjast klukkan 20.

Stjórnandi kórsins er Bjarney Ingibjörg Gunnlaugsdóttir og undirleikari Pétur Ernir Svavarsson. Á tónleikunum syngja einsöng Aron Ottó Jóhannsson, Pétur Ernir Svavarsson, Sindri Sveinbjörnsson og Vilhelm Stanley Steinþórsson. Á gítar leikur, Jón Gunnar Biering Margeirsson og á fiðlu, Henný Þrastardóttir. Án þess að ætla að spilla spennunni fyrir tónleikunum má geta þess að þar er flutt nýtt lag eftir Jón Hallfreð Engilbertsson sem ber titilinn Sól í húmi sefur.

annska@bb.is

DEILA