Hið ótrúlega mál um leikskólann Grænagarð.

Kristján Torfi Einarsson

Á Flateyri er frábær leikskóli. Allt er eins og best verður á kosið; falleg bygging, gróin lóð og hlýlegt umhverfi. Frönsku gluggarnir í réttri hæð fyrir börnin. Það er aldrei hávaði í húsinu. Sumir eru í ærslafullum koddaslag í einu herbergi á meðan rétt hinum megin við þilið sitja aðrir og teikna í ró og næði. Það er hugsað fyrir öllu og engu til sparað.

Það kostar hundruð milljóna að byggja fyrsta flokks leikskóla. Leikskólinn á Neskaupstað kostaði 640 milljónir. Það kostaði a.m.k. 740 milljónir að breyta Grunnskóla Ísafjarðar þannig að hægt væri kalla bygginguna góða. Leikskólinn á Flateyri er fyrsta flokks. Það eru mikil gæði.

Þessum verðmætum á nú að kasta á glæ. Það á að loka leikskólanum og börnin eiga nú að dvelja í byggingu grunnskólans. Módernískum steinklumpi við aðalgötu með holótt og slitið malbik fyrir lóð. Fjögurra metra lofthæð og glugga í 150 cm hæð. Í dag yfirgefa grunnskólanemar bygginguna í hádeginu, ganga niður í bæ og borða hádegismatinn. Af hverju borða þau ekki matinn í skólanum? Meðal annars vegna þess að hljóðvistin í húsinu er svo óheppileg að öllum líður miklu betur í matartímanum í Félagsbæ.

Það á að breyta grunnskólanum fyrir 27 milljónir. Ég efast stórlega um að 27 milljónir dugi til þess að gera bygginguna þannig úr garði að hún standist lágmarkskröfu – Það kostar 27 milljónir að hanna góðan leikskóla. Á Flateyri verður ekki lengur fallegur og frábær leikskóli. Bygging eins og Gamla sjúkrahúsið sem gaman er að koma inn í og dvelja. Á Flateyri verður lélegur leikskóli.

Þessi aðgerð er gerð til þess að efla skólastarf á Flateyri. Hvernig má það vera?

Eftir mörg samtöl við flesta bæjarfulltrúa er ég engu nær. Enginn fjárhagslegur ávinningur, enginn sparnaður í starfsgildum. Það eina sem stóð upp úr var að aðgerðin er gerð til að vinna gegn félagslegri einangrun starfsmanna og barna. Það var nefnilega það. Enginn starfsmanna leikskólans hefur sagt að hann sé raunverulega fylgjandi þessum breytingum og enginn hefur kvartað undan félagslegri einangrun, hvorki börn, foreldrar né starfsmenn. Þvert á móti hef ég alltaf talið félagslegt umhverfi barna minna hér í þorpinu til mikillar fyrirmyndar – grobba mig stundum af því hvað börnin mín eru heppin að leika sér saman óháð aldri og deila lífinu með fullorðnu fólki sem það kynnist og lærir að umgangast.

“Það þurfti t.d. að færa eina stelpu upp um bekk í fyrra,” sagði einn bæjarfulltrúinn. Hann var að tala um dóttur mína. Ég sem var svo stoltur af félagshæfni hennar og hélt að hún væri ánægð og glöð.

Leikskólinn var tekinn í notkun sama ár og Flateyri sameinaðist Ísafjarðarbæ. Lokunin er síðasti naglinn í líkkistu draumsins um hinn mikla ávinning sem stærðarhagkvæmnin átti að færa. Veruleikinn er fjarlæg stjórnsýsla sem segir þér að börnin þín eigi við vandamál að stríða og lausnin sé aðeins meiri stærðarhagkvæmni. Sennilega er tilraunin fullreynd. Stærðarhagkvæmnin var ekki lausnin heldur vandinn þegar allt kom til alls.

Efnisleg atriði málsins eru þessi: Það á að leggja niður frábæran leikskóla og færa börnin í lélegan leikskóla. Ég hef ekki tæpt á formlega ferlinu sem málið fékk. Það stenst engan veginn lágmarkskröfur í stjórnsýslu. Ég hef ekki talað um svikin, lygarnar, rangfærslurnar, vanræksluna, yfirganginn og skort á almennri kurteisi af hálfu bæjaryfirvalda í þessu máli.

Nú er mál að linni. Flateyringar yrðu ákaflega þakklátir bæjarfulltrúum ef þeir gætu sett sig í samband við foreldra sem allra fyrst og tilkynnt þeim að bærinn muni falla frá þessum fyrirætlunum.

Kristján Torfi Einarsson, foreldri á Flateyri.

DEILA