Skipulagsnefnd vildi umhverfismat en bæjarstjórn ekki

Landssamband veiðifélaga telur álit Skipulagsstofnunar eigi að standa.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar gerir engar athugasemdir við áform Arnarlax hf. um aukið eldi í Arnarfirði. Fyrirtækið hyggst auka framleiðsluna í firðinum um 4.500 tonn. Skipulags- mannvirkjanefnd tók fyrir umsagnarbeiðni Skipulagsstofnunar um það hvort framleiðsluaukningin skuli sæta mati á umhverfisáhrifum og niðurstaða nefndarinnar var að umhverfismat þyrfti að fara fram og vísaði nefndin í lög um umhverfismat við afgreiðslu sína.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar tók fyrir fundargerð skipulags- og mannvirkjanefndar bæjarins á fundi í gær. Þar lagði Daníel Jakobsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, fram breytingartillögu þess efnis að bæjarstjórn gerir engar athugasemdir við stækkunaráform Arnarlax þar sem þau eru innan viðmiða burðarþolsmats Hafrannsóknastofnunar og í samræmi við nýtingaráætlun Arnarfjarðar.

Breytingartillagan var samþykkt með átta atkvæðum en Nanný Arna Guðmundsdóttir, bæjarfulltrúi Í-listans, sat hjá við atkvæðagreiðsluna. Sigurður Jón Hreinsson, bæjarfulltrúi Í-listans og formaður skipulags- og mannvirkjanefndar, sem fyrir rúmri viku vildi setja stækkunina í umhverfismat greiddi atkvæði með breytingartillögunni.

DEILA