Í nýrri skýrslu sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um álit sjóðsins á stöðu efnahagsmála á Íslandi segir að hagvöxtur hafi dregist saman um 0,5% á síðasta ári, aðallega vegna sértækra þátta (m.a. fiskveiðiafli undir væntingum og takmarkanir á orkuframboði) sem drógu úr útflutningi, og lítils vaxtar einkaneyslu.
Búist er við að hagvöxtur aukist í 1,8% á árinu 2025 og 2,4% árið 2026 og verði studdur af vexti útflutnings, hækkun rauntekna og áframhaldandi slökun á peningalegu aðhaldi.
Horfur um hagvöxt á næstu árum eru sagðar góðar og „búist er við að vöxtur virðisaukandi útflutningsgreina muni auka framleiðni og að innflæði vinnuafls muni leiða til aukinnar atvinnu að einhverju marki.“
Athyglisvert er að sendinefndin bendir einkum á aukin útflutningsverðmæti í lyfjaframleiðslu og fiskeldi sem forsendu hagvaxtarins.
Það er ekki ferðaþjónustan né sjávarútvegurinn sem mun bera uppi batnandi lífskjör á næstu árum samkvæmt mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins heldur fiskeldið og lyfjaframleiðslan. Þaðan munu koma nýjar útflutningstekjur með vaxandi framleiðslu í þessum greinum. Þessar auknu tekjur dreifast svo um þjóðfélagið og standa undir nýjum störfum og hækkandi launum.
Fiskeldið á Íslandi, þ.e. laxeldið í sjókvíum, hefur vaxið mikið á síðusta áratug þrátt fyrir mikinn áróður gegn greininni í flestum Reykjavíkurfjölmiðlunum og er framleiðslan um 50 þúsund tonn á ári sem skilar um 50 milljörðum króna. Þegar hafa verið gefin út framleiðsluleyfi fyrir um 100 þúsund tonn á ári og fyrirsjáanlegt er að öllu óbreyttu að framleiðslan muni tvöfaldast á næstu fáum árum og tekjurnar þar með líka. Þessar nýju tekjur inn í hagkerfið, ásamt tekjum af lyfjaframleiðslu, eru forsenda lífskjarabata almennings á næstu árum. Án þeirra verður ekki kaupmáttaraukning heldur líklega hið gagnstæða, að einhver samdráttur verður í almennum lífskjörum.
Ríkisstjórnin hyggst skattleggja fiskeldið enn meira enn orðið er og boðar hækkun fiskeldisgjaldsins þannig að af hverju kg verði skatturinn mun hærri en veiðigjaldið sem boðað er á sjávarútveginn og SFS telur að gangi of nærri útgerðinni. SFS hefur ekkert sagt um þá hækkun og engar auglýsingar birt hvorki með innlendum né erlendum leikurum. Það er umhugsunarefni.
Það er rétt sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn bendir á að von um batnandi lífskjör á næstu árum byggir að verulegu leyti á framgangi fiskeldisins, einkum laxeldis í sjókvíum. Það er þjóðarhagur að vinna að framgangi atvinnugreinarinnar. Það verður gert með því að búa vel greininni og gera fyrirtækjunum kleyft að auka framleiðsluna og nýta auðlindir lands og sjávar til verðmætasköpunar.
Það þykir okkur Vestfirðingum líka skynsamlegt því laxeldið er vítamínssprauta fyrir fjórðunginn og er að byggja upp samfélagið á Vestfjörðum að nýju eftir samdrátt og niðurlægingu um aldarfjórðungsskeið sem á sér enga hliðstæðu í Íslandssögunni. Nú eru bjartir tímar framundan á Vestfjörðum ef stjórnvöld fylgja leiðsögn.

-k