Ráðgjafi frá Stígamótum mun mæta á staðinn einu sinni í mánuði og taka viðtöl fram á haust. Bæði þolendur og aðstandendur eru hjartanlega velkomin. Viðtölin eru þeim að kostnaðarlausu. Vinsamlegast hafið samband í netfangið gudrung@stigamot.is eða í síma 562-6868.
Hvest: vantar fólk í 79 stöðugildi
Fram kemur í greiningu Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða að það er verulegur skortur á eftirfarandi heilbrigðisstéttum á svæðinu. Samtals eru talin upp 79 stöðugildi. Þar af eru 44 stöður hjúkrunarfræðinga og 8 stöður lækna:
- Heimilislæknar: 5 stöðugildi
- Lyflæknar: 2 stöðugildi
- Skurðlæknir: 1 stöðugildi
- Geislafræðingar: 3 stöðugildi (70% starfshlutfall)
- Lífefnafræðingar: 3 stöðugildi
- Ljósmæður: 3 stöðugildi
- Hjúkrunarfræðingar -skurðhjúkrun: 4 stöðugildi
- Hjúkrunarfræðingar – svæfing: 2 stöðugildi
- Hjúkrunarfræðingar – heimahjúkrun, heilsugæsla, sjúkradeildir: 14 stöðugildi
- Hjúkrunarfræðingar – heilsugæsla/heimahjúkrun/stoðdeildir: 20 stöðugildi
- Hjúkrunarfræðingar – hjúkrunarheimili: 4 stöðugildi
- Sjúkraliðar – hjúkrunarheimili : 12 stöðugildi
- Sálfræðingar: 3 stöðugildi
- Sjúkraþjálfarar: 3 stöðugildi
Ívilnun á endurgreiðslu námslána
Þetta kemur fram í erindi sveitarfélaganna þriggja við Ísafjarðardjúp til Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytisins, sem dagsett er 28. apríl 2025.
Sveitarfélögin fara fram á að ráðuneytið beiti heimild sinni til að veita sérstakar tímabundnar ívilnanir í formi endurgreiðslu námslána vegna sérgreina heilbrigðisstarfsfólks, með það að markmiði að bæta mönnun og tryggja heilbrigðisþjónustu á norðanverðum Vestfjörðum.
Heimild er til þess í 28. gr. laga nr. 60/2020, um Menntasjóð námsmanna að veita þess háttar ívilnun við aðstæður sem sveitarfélögin telja að eigi nú við.
Ísafjarðarbær: gjaldskrá í leikskóla hækkar
Skóla-, íþrótta- og tómstundanefnd leggur til að fyrir næsta skólaár, 2025-26, hækki tímagjald leikskóla og máltíðir um 4% en leggur jafnframt áherslu á að rukkað er fyrir 204 skóladaga. Áfram verður greitt sérstaklega fyrir skráningardaga.
Nefndin leggur einnig til að gjaldskrá fyrir skólamat verði breytt á þann veg að þar standi „Í öllum grunnskólum Ísafjarðarbæjar er boðið upp á hressingu á morgnanna og hádegismat, án endurgjalds.“
Framangreindum tillögum verður vísað til bæjarstjórnar til afgreiðslu.
Knattspyrna: Vestri fær Aftureldingu í heimsókn á morgun – laugardag
Næsti leikur í Bestur deildinni á Ísafirði verður á morgun, laugardag kl 14 á Kerecis vellinum á Torfnesi. Þá koma nýliðar Aftureldingu í heimsókn vestur.
Nýliðarnir unnu Stjörnuna örugglega í síðasta leik og hafa staðið sig betur en spáð var fyrir þeim. Mosfellingarnir eru um miðja deild með 7 stig eftir fimm umferðir.
Hins vegar er Vestri í enn betri stöðu með 10 stig eftir umferðirnar fimm. Liðið er í 2. sæti deildarinnar með jafnmörg stig og Víkingur og Breiðablik. Ekkert lið hefur fengið fleiri stig en Vestri!
Vestfirðingar eru hvattir til þess að fjölmenna á völlinn á morgun og hvetja Vestra til sigurs.
Nornin í þér
Nornin innra með þér hefur verið að kalla á þig segir í kynningu á nýrri bók sem Þórunn Kristín Snorradóttir hefur skrifað.
Bókin hjálpar þér að finna þig í heimi galdra og töfra og hleypa norninni í þér út. Hún kennir þér að nota galdra við daglegar athafnir og finna þinn innri styrk. Það er ekki slæmt að vera norn heldur þvert á móti. Nornir eru heilarar, ljósmæður, grasalæknar, listmálarar, stjórnmálamenn og bændur – eða hvað sem er.
Þessi bók er fyrir öll sem vilja skilja skilja eftir sig fallegt ljós í heiminum, leita inn á við og fá innsýn í þekkingu sem okkur hefur verið gefin í gegnum aldirnar.
Þú ert ljósberi, leyfðu ljósinu þínu að skína! segir í kynningu á bókinn
Þórunn Kristín Snorradóttir er rammíslensk norn og hafa galdrar leitt hana í ferðalag sem á líklegast aldrei eftir að taka enda. Hér deilir hún með lesendum lærdóminum í fyrstu íslensku nornabókinni þar sem hún hvetur lesendur til þess að finna nornina í sér.
Í bókinni er að finna fróðleik, galdra og seiði, rúnir og kristalla og ótalmargt fleira
Landsmönnum fjölgaði um 550 á fyrsta ársfjórðungi
Samtals bjuggu 389.990 manns á Íslandi í lok fyrsta ársfjórðungs 2025. Þar af 199.880 karlar, 189.910 konur og kynsegin/annað voru 200. Landsmönnum fjölgaði um 550 á ársfjórðungnum.
Á höfuðborgarsvæðinu bjuggu 249.560 manns en 140.430 á landsbyggðinni. Erlendir ríkisborgarar voru 67.890 eða 17,4% af heildarmannfjöldanum.
Á fyrsta ársfjórðungi 2025 fæddust 1.050 börn en 710 einstaklingar létust. Á sama tíma fluttust 190 einstaklingar til landsins umfram brottflutta. Brottfluttir einstaklingar með íslenskt ríkisfang voru 250 umfram aðflutta en aðfluttir erlendir ríkisborgarar voru 450 fleiri en þeir sem fluttust frá landinu. Fleiri karlar en konur fluttust frá landinu.
Breytinga á Aðalskipulagi Reykhólahrepps
Sveitarstjórn Reykhólahrepps er með til kynningar skipulagsbreytingar í Króksfjarðarnesi og í Geiradal í landi Ingunnarstaða.
Hlynur Torfi Torfason skipulagsfræðingur VSÓ ráðgjafar og skipulagsfulltrúi Reykhólahrepps kynnti vinnslutillögu aðalskipulagsbreytinganna fyrir fundargestum á fundi í handverkshúsinu í Króksfjarðarnesi og fór yfir ferli skipulagsbreytinganna.
Helstu atriði skipulagsbreytinganna er að skipuleggja nýtt athafnasvæði fyrir atvinnurekstur í Geiradal og nýja íbúðarbyggð og þjónustusvæði í Króksfjarðarnesi fyrir hótelrekstur, verslunarsvæði og samgöngu- og þjónustumiðstöð auk tjaldsvæðis.
Breytingin felur einnig í sér skipulag svæðis undir samfélagsþjónustu og aðstöðu heilsugæslu og viðbragsaðila og nýja staðsetningu smábáta og ferjusvæðis vestar á nesinu. Öðrum atriðum núgildandi skipulags á svæðinu er haldið að mestu óbreyttum og breyta í engu skipulagi þeirrar starfsemi sem nú er á Króksfjarðarnesi.
Íbúar Reykhólahrepps og nærsveita eru hvattir til að kynna sér vinnslutillöguna og er öllum frjálst að koma með athugasemdir en athugasemdafrestur rennur út 14. maí næstkomandi.
Salmonella í kjúklingi
Matvælastofnun hefur fengið upplýsingar um innköllun á einni framleiðslulotu vegna gruns um salmonellusmitaða ferskar kjúklingafurðir frá Matfugli ehf.
Fyrirtækið hefur innkallað vöruna af markaði í varúðarskyni og í samráði við Matvælastofnun sent út fréttatilkynningu.
Einungis er verðið að innkalla eftirfarandi framleiðslulotu:
- Vörumerki: Ali og Bónus
- Framleiðandi: Matfugl ehf, Völuteigi 2, 270 Mosfellsbæ
- Lotunúmer: 011-25-13-3-68 (heill kjúklingur, bringur, lundir, lærakjöt, bitar, kryddlegnir leggir og heill fugl), pökkunardagur 28.04.2025 – 30.04.2025
- Dreifing: Bónusverslanir, Krónuverslanir, Kauptún
Hægt er að skila í verslun eða til Matfugls ehf. til að fá endurgreitt. Mjög mikilvægt er að gegnhita kjúkling við matreiðslu en þá er kjötsafinn í þykkasta bitanum orðinn tær og steikingahitamælir sýnir a.m.k. 75°C.
Bætt við í stjórn Byggðastofnunar

Innviðaráðuneytið birti nú í hádeginu tilkynningu um nýja stjórn Byggðastofnunar. Sú breyting hefur orðið frá því sem lesið var upp á ársfundinum í gær að sjöundi stjórnarmaðurinn hefur bæst við og er það Haraldur Benediktsson, bæjarstjóri á Akranesi, en hann var í fyrri stjórn.
Þá eru nú birt nöfn varamanna í stjórninni og eru það:
- Guðrún Helga Bjarnadóttir, Reykjavík
- Hafþór Guðmundsson, Þingeyri
- Kjartan Páll Þórarinsson, Húsavík
- Lovísa Oktovía Eyvindsdóttir, Akureyri
- Sigríður Framdalz Ólafsdóttir, Hvammstanga
- Unnar Hermannsson, Garðabæ
- Arnar Þór Sævarsson, Reykjavík
Landsnet: tenging Hvalárvirkjunar með fyrirvara
Landsnet kynnti tillögu að kerfisáætlun næstu 10 ára og framkvæmdaáætlun næstu þriggja ára á fundi á Ísafirði á miðvikudaginn. Fram kom að á árunum 2027 – 2030 verður unnið að tengingu Hvalárvirkjunar við flutningskerfið með línu frá Ófeigsfirði að Miðdal á Steingrímsfjarðarheiði, þar sem verður tengivirki og annarri línu þaðan í Kollafjörð við Breiðafjörð sem tengist í Vesturlínu með nýju tengivirki.
Tekið er fram að verkefnið er birt í framkvæmdaáætlunar með þeim fyrirvara að framkvæmdir hefjist aðeins þegar samkomulag um tengingu Hvalárvirkjunar hefur verið náð.
Í skýrslu Landsnets segir að Landsnet hafi unnið að undirbúningi verkefna á Vestfjörðum með það að markmiði að auka afhendingaröryggi raforku. Sé það í samræmi við stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.
Ekki fengust svör við því hvernig afhendingaröryggið yrði betur tryggt ef framkvæmdir við Hvalárvirkjun drægjust á langinn eða frestuðust.
Heildarkostnaður við tengingu Hvalárvirkjunar við flutningskerfi Landsnets er á bilinu 8,7- 10,8 milljarðar m.v. nýjustu áætlanir. Er þar átt við heildarkostnað við þessi tvö aðskildu verkefni, þ.e. annars vegar tengingu Hvalárvirkjunar við nýjan afhendingarstað í Miðdal og hins vegar byggingu á nýjum afhendingarstað í Miðdal ásamt tengingu hans við flutningskerfi Landsnets í Kollafirði.
Fyrra verkefnið, nýr afhendingarstaður í Miðdal, er útvíkkun á meginflutningskerfinu og kostar sú framkvæmd um 4 milljarða króna. Seinna verkefnið, tenging Hvalárvirkjunar, felur í sér aukinn orkuflutning.
Tenging Hvalárvirkjunar við meginflutningskerfið felur ekki í sér gjaldskrárbreytingar þegar horft er á framkvæmdina sem eina heild, sem er nauðsynleg forsenda þar sem ekki verður af nýjum afhendingarstað við Ísafjarðardjúp án Hvalárvirkjunar eða sambærilegrar virkjunar.
Línan milli Miðdals og Kollafjarðar verður 26 km löng. Frá Hvalá í Miðdal verður lögð um 40 km löng raflína, þar af verða um 14 km í jarðstreng.
Landsnet áformar að vinna að þessu verki á árunum 2027 og að ljúka því 2030 þegar Hvalárvirkjun verður gangsett skv. áætlunum.