Þriðjudagur 13. maí 2025
Heim Blogg

Hrafnreyður KÓ 100 áður Valur ÍS 18

1324. Hrafnreyður KÓ 100 ex Valur ÍS 18. Ljósmynd Jón Páll Ásgeirsson 2013.

Hrefnubátnum Hrafnreyður KÓ 100 er hér á mynd sem Jón Páll Ásgeirsson tók á miðunum sumarið 2013.

Báturinn var smíðaður hjá Vélsmiðju Seyðisfjarðar hf. árið 1973 og er 101 brl. að stærð. Hann hét upphaflega Ottó Wathne NS 90 og var í eigu Gyllis hf. á Seyisfirði.

Ottó Wathne NS 90 var seldur til Hornafjarðar árið 1981 þar sem hann fékk nafnið Bjarni Gíslason SF 90. 

Árið 2005 var báturinn seldur til Vestmannaeyja og varð Bjarni Gíslason VE 30, 2007 fékk hann nafnið Valur ÍS 18, heimahöfn Súðavík. 

Árið 2010 fékk hann að nafn sem hann ber á myndinni, Hrafnreyður KÓ 100. Stundaðar voru hrefnuveiðar á bátnum en í júní 2018 hóf hann veiðar á sæbjúga.

Sumarið 2019 fékk báturinn fékk nafnið Halla ÍS 3 með heimahöfn á Flateyri.

Báturinn var seldur úr landi sumarið 2021.

Af skipamyndir.com

Auglýsing

Verð á matvöru hækkar samkvæmt mælingum Verðlagseftirlits ASÍ

Verðlag á dagvöru hækkaði um 0,61% milli mars og apríl samkvæmt dagvöruvísitölu ASÍ. Var það þriðji mánuðurinn í röð þar sem verðlag á matvöru hækkaði um meira en hálft prósent, sem er meðalhækkun á matvöru undanfarið ár og jafngildir 6% ársverðhækkun. Þó er útlit fyrir að hækkanirnar séu að dragast saman að magni og umfangi.

Áhrifin eru að mestu rekjanleg til tveggja þátta. Sá fyrri er hækkun á verðlagi innlendra vörumerkja, en það hefur frá áramótum hækkað mun hraðar en verðlag erlendra vörumerkja. Munurinn á hækkunartaktinum var mestur í janúar og febrúar.

Síðari þátturinn er slaknandi verðaðhald hjá Nettó og Kjörbúðinni, sem hafa haldið aftur af verðhækkunum frá miðju síðasta ári en hafa gefið eftir frá áramótum.

Auglýsing

Háskóla­lestin á Patreks­firði 13.-15. maí

Háskóla­lest Háskóla Íslands heim­sækir Patreks­fjörð dagana 13.-15. maí og býður unga fólkinu, kenn­urum og íbúum svæð­isins upp á sann­kallað vísinda­æv­in­týri.

Í áhöfn Háskólalestarinnar eru kennarar og nemendur úr fjölbreyttum greinum innan Háskóla Íslands. Miðvikudaginn 14. maí verða þau með fjölbreytt námskeið fyrir nemendur í 5.-10. bekk Patreksskóla þar sem nemendur frá Bíldudalsskóla og Tálknafjarðarskóla taka einnig þátt. Meðal námskeiða í boði eru stjörnufræði, efnafræði, kórallar Íslands, rafstuð, blaða- og fréttamennska, sjúkraþjálfun og gervigreind. Daginn áður, 13. maí, býðst kennurnum grunnskólanna jafnframt að sækja sérstakar smiðjur um gervigreind og náttúruvísindakennslu á vegum kennara í Háskólalestinni.

Fimmtudaginn 15. maí verður Opið vísindahús í Félagsheimili Patreksfjarðar kl. 16:00-18:00. Þar geta gestir á öllum aldri tekið þátt í lifandi og skemmtilegum tilraunum og spreytt sig á spennandi verkefnum: horft upp í himingeiminn, tekið fréttaviðtöl, prófað tól og tæki sjúkraþjálfara, kynnst heimi gervigreindar á ýmsa vegu, séð undir efnafræðinnar hjá Sprengju-Kötu, fræðst um kóralla Íslands og jafnvel kannað hvort það sé hægt að búa til rafhlöðu úr kartöflu! Öll eru hjartanlega velkomin — aðgangur er ókeypis og engin skráning nauðsynleg.

Patreksfjörður er annar áfangastaður lestarinnar í ár en hún heimsótti einnig Vopnafjörð fyrr í maí og stefnir svo á Suðurland í haust. Frá árinu 2011 hefur lestin ferðast vítt og breitt um landið og miðlað vísinidum með líflegum og fjölbreyttum hætti og um leið lagt áherslu á að styrkja starf grunnskólanna og efla tengsl Háskóla Íslands við samfélög um allt land. Háskólalestin hefur heimsótt hátt á fjórða tug áfangastaða og fengið einstaklega hlýjar móttökur hvert sem komið er. Þá hefur lestin hlotið Vísindamiðlunarverðlaun Rannís.

Hægt verður að fylgjast með lestinni á vef hennar og á Facebook-síðu lestarinnar.

Auglýsing

Sjóbjörgunaræfing laugardaginn 17. maí – sjálfboðaliðar óskast

Næsta laugardag mun Landhelgisgæslan, ásamt viðbragðsaðilum á Norðanverðum-Vestfjörðum, og Aðgerðastjórn almannavarna, vera með æfingu sem miðar að því að bjarga tugum manna frá borði skips í Ísafjarðardjúpi.

Leitað er að einstaklingum sem eru tilbúnir til að leika þolendur sem fluttir verða í land með björgunarbátum og fleiri skipum.

Að æfingunni lokinni ætlar áhöfn varðskipsins Þórs að bjóða öllum leikurum og þátttakendum æfingarinnar um borð. Bæði til að skoða skipið og fá hressingu.

Auglýsing hefur verið sett upp vegna þessa og mun Sigrún María Árnadóttir hjá Björgunarfélagi Ísafjarðar taka á móti skráningu og veita frekari upplýsingar.

Auglýsing

Veiðigjöld hækka um 53%

Veiðigjald til ríkisins munu hækka um 245 m.kr. eða um 53% á fjögur stærstu sjávarútvegsfyrirtækin á Vestfjörðum samkvæmt því sem fram kemur í svari Örnu Láru Jónsdóttur, alþm. við fyrirspurnum frá Daníel Jakobssyni, Ísafirði.

Svar Örnu Láru var birt í morgun á vef Bæjarins besta. Það er unnið upp úr ársreikningum fyrirtækjanna fyrir 2023, en ekki liggja fyrir ársreikningar þeirra allra fyrir síðasta ár 2024. Samkvæmt þeim upplýsingum greiddu fyrirtækin 442.884.990 krónur í veiðigjöld árið 2023 en samkvæmt nýju frumvarpi þar sem búið er að leiðrétta veiðigjöldin verða þau 678.035.169 krónur, og er þetta því hækkun um 235.150.169, eða 53%.

70% hækkun veiðigjalda

Í greininni segir Arna Lára að með breytingum samkvæmt frumvarpinu megi áætla „að álagt veiðigjald verði um 19,5 milljarðar króna árið 2026, en án þeirra breytinga sem boðaðar eru samkvæmt frumvarpi þessu væri áætlað álagt veiðigjald um 11,2 milljarðar króna á grundvelli gildandi laga. Er þá gert ráð fyrir meðaltali veiðigjalda síðustu þriggja ára fyrir hverja tegund og að áætlað aflamagn haldist stöðugt. Að teknu tilliti til breytinga á frítekjumarki má gera ráð fyrir að innheimt veiðigjald verði um 17,3 milljarðar króna. árið 2026. Það er um 70% hækkun.“

 

Auglýsing

Vestfjarðastofa: málþing um fjárfestingar

Stjórnsýsluhúsið Álftaver í Súðavík.

Vestfjarðastofa stendur á morgun fyrir opnu málþingi í Súðavík um frumkvæði og fjárfestingar á Vestfjörðum. Fundað verðu rí stjórnsýsluhúsinu.

Frummælandi á málþinginu er Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs og Gylfi Ólafsson stjórnarformaður Vestfjarðastofu mun stýra pallborði sem í verða fulltrúar fyrirtækja sem hafa fjárfest eða hyggjast fjárfesta á Vestfjörðum. Málþingið verður kl. 13-15 í Súðavík og eru áhugasamir hvattir til að skrá sig. 

Frumkvæði og fjárfestingar – málþing – kl. 13:00 – 15:00

Frummælandi: Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs 
Fjárfestingahik/ fjárfestingastífla – er hún til staðar og hvernig er hægt að losa hana? 

Örsögur af fjárfestingum á Vestfjörðum og umræður:
Arctic Fish – Daníel Jakobsson
Kalkþörungaverksmiðjan í Súðavík – Halldór Halldórsson
Hótelbygging á Hólmavík – Friðjón Sigurðsson / Erla Ásgeirsdóttir 
Húsnæðisuppbygging og skipulag sveitarfélaga – Jón Páll Hreinsson

Umræðustjóri: Gylfi Ólafsson

Auglýsing

Svar til Daníels, kjósanda í Norðvesturkjördæmi

Sæll Daníel, kjósandi í Norðvesturkjördæmi. Ég vil nú byrja á því að óska þér til hamingju með forstjórastöðuna í Arctic Fish og stjórnarsæti þitt hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS). Þú þekkir auðvitað vel samfélag okkar sem fyrrum oddviti Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar og fyrrum bæjarstjóri. Ég vil þakka þér fyrir spurningarnar og fyrir áhuga þinn á greinaskrifum mínum.

Í skrifum þínum er þó sett fram fullyrðing sem er röng og ég vil fá að leiðrétta. Það er ekki verið að tvöfalda veiðigjöldin eins og þú fullyrðir, á sama hátt  og félagar þinir í Sjálfstæðisflokknum sem sæti eiga á Alþingi hafa gert.  Í skýringum með frumvarpinu sem ég mæli með að þú kynnir þér kemur eftirfarandi fram: Með breytingum samkvæmt frumvarpinu má áætla að álagt veiðigjald verði um 19,5 milljarðar króna árið 2026, en án þeirra breytinga sem boðaðar eru samkvæmt frumvarpi þessu væri áætlað álagt veiðigjald um 11,2 milljarðar króna á grundvelli gildandi laga. Er þá gert ráð fyrir meðaltali veiðigjalda síðustu þriggja ára fyrir hverja tegund og að áætlað aflamagn haldist stöðugt. Að teknu tilliti til breytinga á frítekjumarki má gera ráð fyrir að innheimt veiðigjald verði um 17,3 milljarðar króna. árið 2026. Það er um 70% hækkun en ekki tvöföldun.

Í grein þinni leggur þú fram eftirfarandi sex spurningar til mín. Það er mér ljúft að svara þeim.

  1. Hvaða þýðingu hefur þessi hækkun fyrir fjögur stærstu sjávarútvegsfyrirtækin á Vestfjörðum?

Þessar upplýsingar miðast við ársreikninga fyrirtækjanna árið 2023 en  félögin hafa ekki öll birt ársreikning fyrir árið 2024. Félögin greiddu 442.884.990 krónur í veiðigjöld árið 2024 en samkvæmt nýju frumvarpi þar sem búið er að leiðrétta veiðigjöldin verða þau 678.035.169 krónur, og er þetta því hækkun um 235.150.169, eða 53%. Árið 2023 var samanlögð EBITDA þessara fyrirtækja 3.983.000 krónur. Skattar á þessi fyrirtæki verða óbreyttir.

  1. Hvað borga þau núna og hvað munu þau borga ef þetta nær fram að ganga?              

Sjá svar við fyrstu spurningu.

  1. Hvernig bætir þetta frumvarp hagsmuni íbúa Ísafjarðarbæjar?

Íbúar Ísafjarðarbæjar sem og íbúar mun fleiri sveitarfélaga hafa kallað eftir bættum innviðum og þá sérstaklega þegar kemur að vegakerfinu, hvort sem er viðhaldi eða nýframkvæmdum. Ríkisstjórn hefur gefið það skýrt út að tekjurnar af leiðréttum veiðigjöldum verða nýttar í vegakerfi, og má sjá merki þess í fjármálaáætlun sem nú er til umfjöllunar í fjárlaganefnd.

  1. Mun tvöföldun á veiðigjaldi auka framboð á störfum á Vestfjörðum?

Nei. Bendi á ranga fullyrðingu í spurningunni.

  1. Mun hækkunin hvetja fyrirtækin til þess að fjárfesta í samfélaginu?

Best er að spyrja fyrirtækin sjálf að því.  Þau eru með sterka EBITDU þannig það er svigrúm til fjárfestinga kjósi þau að gera það.

  1. Og að lokum, telur þú líkur á því að fyrirtæki muni í auknum mæli sameinast og hvaða áhrif telur þú að það muni hafa á Vestfirði?

Það er ekki ólíklegt að það gerist og er í raun þegar farið að gerast, en þar er ég að vísa í kaup útgerðarfélags í Bolungarvík á hlut í félagi í Hnífsdal. Leiðrétting veiðigjalda hafði ekki áhrif á þau viðskipti, frekar en sala aflaheimilda Þórsbergs á Tálknafirði til Útgerðarfélags Reykjavíkur fyrr á þessu ári.

Arna Lára Jónsdóttir, alþm.

Auglýsing

Grunnskólinn á Ísafirði: kostnaður hækkar um 21,3 m.kr.

Grunnskólinn á Ísafirði.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt hækkun á fjárveitingu til Grunnskólans á Ísafirði um 21,3 m.kr. Kostnaður við endurnýjun tölvubúnaðar hækkar um 3 m.kr. Kaupa þarf 15 ipada fyrir nemendur umfram áætlun.

Kostnaður við skólaakstur hækkar um 11,3 m.kr. og verður 35 m.kr. Í skýringum segir að skólaakstur hafi verið áætlaður 2,28 m á mánuði í 10 mánuði. Raunin er að hann er um 3,6 m.kr. á mánuði vegna aukaferða kl 8:40 og kl 13:00 út vorönn 2025. Gert er ráð fyrir að kostnaður lækki í haust þegar 8:40 ferðin fellur niður.

Þá hækkar kostnaður við aðkeypt þrif um 7,4 m.kr. og verður 8 m.kr.  Samið var við ræstifyrirtæki, Sólar ehf., um þrif vegna breyttra forsendna í starfsmannahaldi.

Auknum kostnaði er mætt með hagræðingu á öðrum deildum A hluta segir í bókun bæjarráðs.

Auglýsing

Lýðskólinn á Flateyri: útskrifaði 19 nemendur

Útskriftarnemendur Lýðskólans á Flateyri. Mynd: Lýðskólinn á Flateyri.

Lýðskólinn á Flateyri útskrifaði 19 nemendur þann 1. maí síðastliðinn. Tveir nemdandanna komu frá Ísafirði en annars voru þeir víðs vegar af landinu að sögn Margrétar Gauju Magnúsdóttur, skólastjóra. Athöfnin fór fram í Flateyrarkirkju. Margrét Inga Gylfadóttir frá Ísafirði hélt útskriftarræðu fyrir hönd nemenda, Úlfur Júlíusson var með tónlistaratriði og Runólfur Ágústsson, formaður stjórnar flutti ávarp.

Í ræðu sinni drap Runólfur á tilurð skólans :

„Þegar við hófum ferðalagið að stofnun Lýðskólans á Flateyri, þá vissum við eitt:

að Ísland þurfti fleiri leiðir og fleiri tækifæri –

til náms,

til þroska,

til þess að finna sjálft sig

– utan við þrönga skorður prófa og kerfa.

Þessi skóli var hugsaður sem svar við þeirri þörf.

Og í dag, þegar ég horfi á ykkur,

þá sé ég svarið lifandi og augljóst.

Þið eruð svarið.“

og bætti svo við:

„Í Lýðskólanum á Flateyri er nemandinn í miðjunni – ekki kerfið.

Og þið hafið tekið það hlutverk alvarlega.

Þið hafið vaxið –

ekki með einkunnum,

heldur með þátttöku,

sköpun,

samstarfi

og sjálfsskoðun.“

Margrét Gauja segir að aðstaða við skólann sé fyrir 26 nemendur og unnt að bæta aðeins við og taka á móti 30 nemendum.

Nú hefur verið auglýst eftir nemendur fyrir næsta skólaár sem hefst í haust.

Auglýsing

Leikur að orðum -Tónleikar í Ísafjarðarkirkju í dag 13.maí

í dag verða tónleikar í  Ísafjarðarkirkju og hefjast þeir kl 14.

Þar sameinast börn frá fjórum leikskólum frá Ísafirði, Suðureyri, Flateyri og Bolungarvík. Undirleik annast nemendur Tónlistarskóla Ísafjarðar.

Leikskólinn Tangi, Leikskólinn Tjarnarbær, Leikskólinn Grænigarður, 5 ára deildin Malir og Tónlistarskóli Ísafjarðar flytja lög Braga Valdimars í Ísafjarðarkirkju.

Tónleikarnir eru partur af Barnamenningarhátíð

Auglýsing

Nýjustu fréttir