Sæll Daníel, kjósandi í Norðvesturkjördæmi. Ég vil nú byrja á því að óska þér til hamingju með forstjórastöðuna í Arctic Fish og stjórnarsæti þitt hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS). Þú þekkir auðvitað vel samfélag okkar sem fyrrum oddviti Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar og fyrrum bæjarstjóri. Ég vil þakka þér fyrir spurningarnar og fyrir áhuga þinn á greinaskrifum mínum.
Í skrifum þínum er þó sett fram fullyrðing sem er röng og ég vil fá að leiðrétta. Það er ekki verið að tvöfalda veiðigjöldin eins og þú fullyrðir, á sama hátt og félagar þinir í Sjálfstæðisflokknum sem sæti eiga á Alþingi hafa gert. Í skýringum með frumvarpinu sem ég mæli með að þú kynnir þér kemur eftirfarandi fram: Með breytingum samkvæmt frumvarpinu má áætla að álagt veiðigjald verði um 19,5 milljarðar króna árið 2026, en án þeirra breytinga sem boðaðar eru samkvæmt frumvarpi þessu væri áætlað álagt veiðigjald um 11,2 milljarðar króna á grundvelli gildandi laga. Er þá gert ráð fyrir meðaltali veiðigjalda síðustu þriggja ára fyrir hverja tegund og að áætlað aflamagn haldist stöðugt. Að teknu tilliti til breytinga á frítekjumarki má gera ráð fyrir að innheimt veiðigjald verði um 17,3 milljarðar króna. árið 2026. Það er um 70% hækkun en ekki tvöföldun.
Í grein þinni leggur þú fram eftirfarandi sex spurningar til mín. Það er mér ljúft að svara þeim.
- Hvaða þýðingu hefur þessi hækkun fyrir fjögur stærstu sjávarútvegsfyrirtækin á Vestfjörðum?
Þessar upplýsingar miðast við ársreikninga fyrirtækjanna árið 2023 en félögin hafa ekki öll birt ársreikning fyrir árið 2024. Félögin greiddu 442.884.990 krónur í veiðigjöld árið 2024 en samkvæmt nýju frumvarpi þar sem búið er að leiðrétta veiðigjöldin verða þau 678.035.169 krónur, og er þetta því hækkun um 235.150.169, eða 53%. Árið 2023 var samanlögð EBITDA þessara fyrirtækja 3.983.000 krónur. Skattar á þessi fyrirtæki verða óbreyttir.
- Hvað borga þau núna og hvað munu þau borga ef þetta nær fram að ganga?
Sjá svar við fyrstu spurningu.
- Hvernig bætir þetta frumvarp hagsmuni íbúa Ísafjarðarbæjar?
Íbúar Ísafjarðarbæjar sem og íbúar mun fleiri sveitarfélaga hafa kallað eftir bættum innviðum og þá sérstaklega þegar kemur að vegakerfinu, hvort sem er viðhaldi eða nýframkvæmdum. Ríkisstjórn hefur gefið það skýrt út að tekjurnar af leiðréttum veiðigjöldum verða nýttar í vegakerfi, og má sjá merki þess í fjármálaáætlun sem nú er til umfjöllunar í fjárlaganefnd.
- Mun tvöföldun á veiðigjaldi auka framboð á störfum á Vestfjörðum?
Nei. Bendi á ranga fullyrðingu í spurningunni.
- Mun hækkunin hvetja fyrirtækin til þess að fjárfesta í samfélaginu?
Best er að spyrja fyrirtækin sjálf að því. Þau eru með sterka EBITDU þannig það er svigrúm til fjárfestinga kjósi þau að gera það.
- Og að lokum, telur þú líkur á því að fyrirtæki muni í auknum mæli sameinast og hvaða áhrif telur þú að það muni hafa á Vestfirði?
Það er ekki ólíklegt að það gerist og er í raun þegar farið að gerast, en þar er ég að vísa í kaup útgerðarfélags í Bolungarvík á hlut í félagi í Hnífsdal. Leiðrétting veiðigjalda hafði ekki áhrif á þau viðskipti, frekar en sala aflaheimilda Þórsbergs á Tálknafirði til Útgerðarfélags Reykjavíkur fyrr á þessu ári.
Arna Lára Jónsdóttir, alþm.
Auglýsing