Í tilefni af þjóðhátíðardegi Póllands þann 3. maí veitti Andrzej Duda, forseti Póllands, tónlistarkennurum við Tónlistarskólann á Ísafirði, Iwonu og Janusz Frach, gullkross fyrir framúrskarandi framlag í þróun menningarsamskipta á milli Íslands og Póllands.
Þetta er æðsta heiðursmerki sem forsetinn veitir fyrir slíkt starf.
Athöfnin fór fram þriðjudaginn 6. maí í sendiráði Póllands í Reykjavík.
„Það er sérstaklega ánægjulegt að þessi viðurkenning skuli hafa verið veitt einstaklingum úr okkar ísfirska samfélagi“ sagði pólskættaður viðmælandi Bæjarins besta.
Grafísk mynd sem sýnir borsvæðin 2023 á Patreksfirði.
Blámi, Orkubú Vestfjarða og ÍSOR stóðu fyrir íbúafundi sem haldinn var á Patreksfirði 6. maí 2025. Á fundinum var fjallað um stöðu jarðhitaleitar á svæðinu og möguleika hennar í tengslum við orkuskipti og framtíð fjarvarmaveitu bæjarins.
Á fundinum kom fram að töluvert af jarðhita er að finna á víða á Vestfjörðum og þörf sé á frekari rannsóknum til að átta sig á hvar og hvernig er hægt að sækja hann.
Á Patreksfirði hafa verið boraðar 16 jarðhitaholur, alls um 2.500 metra dýptar, og hafa niðurstöður sýnt að þar leynist volgur jarðhiti, aðallega um 25–30°C. Síðasta borholan sem var boruð árið 2023, með merkinguna GE-14, gaf yfir 30 sekúndulítra af um 25°C heitu vatni. Haldið verður áfram að bora eftir heitu vatni á Patreksfirði en í sumar verður boruð vinnsluhola, um 300 metra djúp, ásamt fleiri rannsóknarholum.
Síðustu ár hafa sjónarmið tekið breytingum hvað varðar jarðhita og hefur áherslan á nýtingu volgs vatns (25-60°C) samhliða aukist í takt við tækniframfarir á borð við samspil jarðhita við varmadælur og aukna þörf fyrir hagkvæmari orku til húshitunar.
Í erindum fundarins kom skýrt fram að jarðhiti getur leikið mikilvægt hlutverk í orkuskiptum á landsbyggðinni. Með því að nýta jarðhita í stað rafmagns eða jarðefnaeldsneytis til húshitunar skapast sjálfbærari innviðir, sparnaður í orkukostnaði og aukið orkuöryggi. Þar að auki losar slíkt raforku sem nýta má í annað og styður við markmið Íslands um kolefnishlutleysi fyrir árið 2040.
Enn fremur var rætt um að takmörkuð afhendingargeta raforku á Vestfjörðum gæti hamlað þróun samfélagsins, atvinnulífs og lífsgæða. Því er nauðsynlegt að fjárfesta í innviðum og gera jarðhitann að burðarás í núverandi veitukerfum.
Niðurstaða fundarins var sú að þrátt fyrir að jarðhitaleit sé tímafrek og krefjandi, sé hún nauðsynleg og lofandi. Með réttum fjárfestingum og áframhaldandi rannsóknum gæti Patreksfjörður orðið fyrirmynd annarra byggðarlaga í sjálfbærri orkunýtingu og framtíðarlausnum í húsahitun.
Gylfi Ólafsson er formaður stjórnar Vestfjarðastofu.
Stjórn Vestfjarðastofu lýsir þungum áhyggjum af frumvarpi ríkisstjórnarinnar um hækkun á veiðigjaldi og væntanlegum áhrifum þess á atvinnulíf og samfélög á Vestfjörðum.
Þetta kemur fram í ályktun stjórnarinnar. Þar segir að miðað við þær forsendur sem liggja að baki breytingu á veiðigjaldi megi telja ljóst að áhrifin verði mjög íþyngjandi og komi afar hart niður á litlum og meðalstórum bolfiskútgerðum.
„Á Vestfjörðum eru eingöngu litlar og meðalstórar útgerðir í bolfiskveiðum og vinnslu. Þrátt fyrir að frítekjumark hafi verið hækkað, þá verður sú hækkun étin upp að miklu leyti upp vegna aukins þunga í gjaldtöku á þorsk og ýsu í nýjustu breytingum frumvarpsins. Misræmi milli útreikninga ráðuneytis og SFS verður að skýra til þess að hægt sé að treysta útreikningum vegna áhrifa af frumvarpinu.“
Óásættanleg áform sem skerða samkeppnishæfi og framlegð
„Miðað við greiningar Deloitte og fyrirtækjanna sjálfra á nýjustu ársreikningum Vestfirskra sjávarútvegsfyrirtækja eru áformin óásættanleg með tilliti til mikillar skerðingar á samkeppnishæfni og framlegð þessara sjávarútvegsfyrirtækja. Slíkur skortur á samkeppnishæfni kemur niður á endurnýjun á tækjabúnaði og fjárfestingu í framþróun, nýsköpun og þjónustukaupum. Fram hafa komið áhyggjur forsvarsmanna minnstu eininganna um tilvistargrundvöll sinn ef breytingarnar ganga eftir sem ber að taka alvarlega. Afleiðingar skertrar samkeppnishæfni og minni fjárfestinga hafa bein áhrif á útsvarstekjur sveitarfélaga og fjölmargar afleiddar þjónustugreinar sem skapa umsvif og tekjur.“
Stjórnin segir í ályktun sinni að eftir „miklar umræður undanfarnar vikur um hækkun veiðigjalda hefur ríkisstjórnin ekki svarað því hvernig staðinn verði vörður um samkeppnishæfni fyrirtækja og samfélaga á Vestfjörðum. Breytingum á frítekjumarki frá fyrstu drögum fylgja aðrar breytingar á útreikningum með tilheyrandi óvissu um endanlega niðurstöðu.“
Fleiri íþyngjandi aðgerðir stjórnvalda
„Aðrar íþyngjandi tillögur á samfélög á Vestfjörðum undanfarinna missera svo sem innviðagjald á skemmtiferðaskip, kolefnisgjald og hækkun á sérstökum laxaskatti í ofanálag leggst ofan á allt annað til þess að draga úr þeim viðnámsþrótti sem hefur einkennt síðustu ár á Vestfjörðum.“
Ályktuninni lýkur með því að stjórn Vestfjarðarstofu „skorar á stjórnvöld að bregðast hratt við og endurskoða enn frekar tillögu sína um hækkun á veiðigjaldi þannig að tekið verði tillit til réttmætra áhyggja atvinnulífs og sveitarfélaga á Vestfjörðum. Það er lágmarkskrafa að áhrifin af hærra veiðigjaldi á samfélög á Vestfjörðum verði könnuð með ítarlegri hætti áður en lengra er haldið.“
Samfélagsleg nýsköpun og samfélagsfrumkvöðlar eru ekki ný af nálinni á Íslandi en hugtökin eru þó ekki vel þekkt (eða á allra vörum) og viljum við gera okkar til að bæta úr því. Hugtökin nýsköpun og frumkvöðlar eru þó vel þekkt og eitt og annað sameiginlegt, en helsti munurinn sá að bæði uppsprettan og markmiðin eru af öðrum toga þegar „samfélags“ forskeytið bætist við.
Dagana 12.-14. maí verður fundaröð MERSE um Vestfirði þar sem rýnt verður í þessi mál. Verkefnastjórar MERSE, Steinunn Ása Sigurðardóttir og Anna Sigríður Ólafsdóttir fara yfir áðurnefnd hugtök og hvernig þau birtast okkur hér á Vestfjörðum. Einnig munu þær fara yfir hvað evrópska samstarfsverkefnið MERSE gengur út á, hvað er búið að eiga sér stað innan þess og hverju við höfum komist að.
Fundirnir eru öllum opnir, en þeir eru ekki síst hugsaðir sem tækifæri til að koma saman fyrir þá sem vinna á sviði samfélagslegrar nýsköpunar eða hafa hug á því að gera það.
Starfshópur sem heilbrigðisráðherra skipaði til að móta aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi hefur skilað ráðherra skýrslu sinni þess efnis.
Áætlunin tekur til áranna 2025–2030 og felur í sér 26 aðgerðir um markvissar og gagnreyndar sjálfsvígsforvarnir á öllum stigum, bæði almennar og sértækar.
Eins og skýrsluhöfundar benda á eru sjálfsvíg alvarlegur lýðheilsuvandi með víðtækar afleiðingar fyrir samfélagið allt.
Á Íslandi hefur árlegur meðalfjöldi sjálfsvíga verið 41 síðustu fimm ár (2019–2023). Rannsóknir hafa sýnt að hvert sjálfsvíg er samfélaginu dýrkeypt auk þess sem hvert sjálfsvíg hefur áhrif á heilsufar og líðan fjölmargra í nærumhverfi þess látna.
Áhrifaríkar sjálfsvígsforvarnir stuðla að því að þau sem þurfa aðstoð fái viðeigandi stuðning á öllum stigum. Þannig má fyrirbyggja aukinn vanda og koma í veg fyrir dýrari úrræði vegna minnkandi getu til að sinna athöfnum daglegs lífs, stunda vinnu og nám.
Sýningin „ELDBLÓM – hvernig dans varð vöruhönnun“ fyrir Vestan! verður í Minjasafninu á Hnjóti þann 10. maí 2025 kl 17:00.
Á sýningunni verður sérstakt verk frumsýnt, unnið með hönnunarteymi Þykjó og börnum á svæðinu en það er samstarf með Hönnunarsafni Íslands, Minjasafninu Hnjóti og List fyrir alla
Sýningin Eldblóm opnar á Vestfjörðum í Galleryinu á Minjasafninu Hnjóti og er sett upp í annað sinn. Sýning vakti mikla á Hönnunarmars en hún opnaði á Hönnunarsafni Íslands. Fjallað var um verkefni Eldblóma sem eitt af 5 áhugaverðustu verkefnum hátíðarinnar af FRAME magazine og heilsíðu umfjöllun um verkefni í franska tímaritinu Elle Decor.
Sýningin er nú sett upp í annað sinn í Örlygshöfn með styrk frá Safnasjóði og Uppbyggingarsjóði Vestfjarða.
„Við höfum farið yfir þetta með bæjarlögmanni sveitarfélagsins og það er okkar mat að ekki sé tilefni til að bregðast við þessum dómi sérstaklega“ segir Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungavík aðspurður um áhrif dóms Landsréttar frá 27.2. 2025 í máli Vesturbyggðar gegn Arnarlax á tekjur hafnasjóðs kaupstaðarins af eldisfiski. Í dómnum var innheimt aflagjald Vesturbyggðar af eldisfiski dæmt ólögmætt.
samningur í gildi og enginn ágreiningur
„Það er í gildi samningur um greiðslu hafnargjalda vegna löndunar á laxi í Bolungarvíkurhöfn. Öll fiskeldisfyrirtæki á Vestfjörðum hafa greitt samkvæmt þeim samning og er ekki til staðar neinn ágreiningur um þær greiðslur.“
Jón Páll bætir því við að ánægja sé með samninginn og við „teljum hann endurspegla sanngjarnt gjald fyrir Bolungarvíkurhöfn og fiskeldisfyrirtækin. Það stendur ekki til að gera neinar breytingar á innheimtu gjalda í Bolungarvíkurhöfn eða forsendur þeirra.“
ánægð með samstarf við fiskeldisfyrirtækin
„Við erum mjög ánægð með það samstarf sem við höfum átt við fiskeldisfyrirtæki vegna þeirra starfsemi í Bolungarvík og teljum hann vera hagfeldan fyrir alla aðila. Rekstur hafnarinnar hefur gengið vel undanfarin ár og er höfnin hryggjarstykki í atvinnulífi Bolungarvíkur. Undanfarið ár hefur verið unnið að nýrri framtíðarsýn fyrir hafnarsvæðið þar sem verið er að skilgreina stækkunarmöguleika til næstu áratuga. Það er mikilvægt að Bolungarvíkurhöfn sé vel rekin og hafi fjárhagslegan styrkleika til að standa undir slíkri framtíðarsýn og haldi áfram að vera nauðsynlegir innviðir fyrir verðmætasköpun á svæðinu.“
Í nýrri skýrslu sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um álit sjóðsins á stöðu efnahagsmála á Íslandi segir að hagvöxtur hafi dregist saman um 0,5% á síðasta ári, aðallega vegna sértækra þátta (m.a. fiskveiðiafli undir væntingum og takmarkanir á orkuframboði) sem drógu úr útflutningi, og lítils vaxtar einkaneyslu.
Búist er við að hagvöxtur aukist í 1,8% á árinu 2025 og 2,4% árið 2026 og verði studdur af vexti útflutnings, hækkun rauntekna og áframhaldandi slökun á peningalegu aðhaldi.
Horfur um hagvöxt á næstu árum eru sagðar góðar og „búist er við að vöxtur virðisaukandi útflutningsgreina muni auka framleiðni og að innflæði vinnuafls muni leiða til aukinnar atvinnu að einhverju marki.“
Athyglisvert er að sendinefndin bendir einkum á aukin útflutningsverðmæti í lyfjaframleiðslu og fiskeldi sem forsendu hagvaxtarins.
Það er ekki ferðaþjónustan né sjávarútvegurinn sem mun bera uppi batnandi lífskjör á næstu árum samkvæmt mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins heldur fiskeldið og lyfjaframleiðslan. Þaðan munu koma nýjar útflutningstekjur með vaxandi framleiðslu í þessum greinum. Þessar auknu tekjur dreifast svo um þjóðfélagið og standa undir nýjum störfum og hækkandi launum.
Fiskeldið á Íslandi, þ.e. laxeldið í sjókvíum, hefur vaxið mikið á síðusta áratug þrátt fyrir mikinn áróður gegn greininni í flestum Reykjavíkurfjölmiðlunum og er framleiðslan um 50 þúsund tonn á ári sem skilar um 50 milljörðum króna. Þegar hafa verið gefin út framleiðsluleyfi fyrir um 100 þúsund tonn á ári og fyrirsjáanlegt er að öllu óbreyttu að framleiðslan muni tvöfaldast á næstu fáum árum og tekjurnar þar með líka. Þessar nýju tekjur inn í hagkerfið, ásamt tekjum af lyfjaframleiðslu, eru forsenda lífskjarabata almennings á næstu árum. Án þeirra verður ekki kaupmáttaraukning heldur líklega hið gagnstæða, að einhver samdráttur verður í almennum lífskjörum.
Ríkisstjórnin hyggst skattleggja fiskeldið enn meira enn orðið er og boðar hækkun fiskeldisgjaldsins þannig að af hverju kg verði skatturinn mun hærri en veiðigjaldið sem boðað er á sjávarútveginn og SFS telur að gangi of nærri útgerðinni. SFS hefur ekkert sagt um þá hækkun og engar auglýsingar birt hvorki með innlendum né erlendum leikurum. Það er umhugsunarefni.
Það er rétt sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn bendir á að von um batnandi lífskjör á næstu árum byggir að verulegu leyti á framgangi fiskeldisins, einkum laxeldis í sjókvíum. Það er þjóðarhagur að vinna að framgangi atvinnugreinarinnar. Það verður gert með því að búa vel greininni og gera fyrirtækjunum kleyft að auka framleiðsluna og nýta auðlindir lands og sjávar til verðmætasköpunar.
Það þykir okkur Vestfirðingum líka skynsamlegt því laxeldið er vítamínssprauta fyrir fjórðunginn og er að byggja upp samfélagið á Vestfjörðum að nýju eftir samdrátt og niðurlægingu um aldarfjórðungsskeið sem á sér enga hliðstæðu í Íslandssögunni. Nú eru bjartir tímar framundan á Vestfjörðum ef stjórnvöld fylgja leiðsögn.
Landsnet verður með kynningarfund á Ísafirði í dag. Fundurinn verður í Bryggjusalnum í Edinborgarhúsinu og hefst kl 16.
Gerð verður grein fyrir helstu breytingum í kerfisáætlun 2025-2034. Sérfræðingar Landsnets, sem komu að gerð hennar, munu sitja fyrir svörum varðandi þau atriði sem fram koma á kynningum fundanna.
Kerfisáætlun Landsnets gefur innsýn inn í áætlanir fyrirtækisins um þróun og endurnýjun flutningskerfisins næstu 10 árin, 2025 – 2034. Í langtímaáætlun má lesa um forsendur og forgangsröðun til tíu ára. Í framkvæmdaáætlun kemur fram nánari greining á verkefnum næstu þriggja ára 2026 – 2028.
Meðal verkefna sem gerð er grein fyrir er tenging Hvalárvirkjunar við flutningskerfið.
Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á síðari hluta árs 2028 og að þeim ljúki árið 2030. Tímasetning verkefnisins er þó með fyrirvara um framgang framkvæmda við virkjunina.
Um verkefnið segir í þriggja ára áætluninni:
„Verkefnið snýr að tengingu Hvalárvirkjunar við meginflutningskerfið um nýjan afhendingarstað við Ísafjarðardjúp í Miðdal. Byggt verður nýtt tengivirki og lína sem tengist flutningskerfinu um nýjan afhendingarstað í Miðdal, þar sem byggt verður við nýtt tengivirki. Vesturverk stefnir á að taka í rekstur nýja virkjun, Hvalárvirkjun árið 2030. Tengja þarf virkjunina við meginflutningskerfi Landsnets og verður það gert í tveimur aðskildum framkvæmdum hér, annars vegar tengingu Hvalárvirkjunar og hins vegar með uppbyggingu nýs afhendingarstaðs í Miðdal.“
5. og 6. maí komu góðir gestir í Árneshrepp þar sem stjórn og starfsfólk Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða komu heimsóttu ferðaþjóna á væðinu og héldu fund með áhugasömum íbúum í Árneshreppi og kynntu starfsemi sjóðsins.
Einig fóru þau yfir þau verkefni sem unninn hafa verið á síðustu árum, það er göngustíg niður að Kistuvog þar sem galdrabrennur voru til forna. Stígurinn er einstaklega vel heppnaður með listaverkum úr rekavið unnið af Guðjóni Kristinnssyni frá Dröngum.
Einnig skoðuðu þau útsýnispall við Norðurfjarðarhöfn og svæðið þar um kring sem hefur tekið miklum stakkaskiptum.
Ungmennafélagið Leifur heppni fékk nú úr síðustu úthlutun styrk að upphæð 13,3 milljónir kr. til að gera göngustíg að Krossneslaug og útsýnispall ofan við laugina. Krossneslaug er hluti af áfangastaðaáætlun Vestfjarða.
Stokkar og steinar sf fékk styrk að upphæð 8,5 milljónir kr. Styrkurinn felur í sér stækkun á bílastæði við Kistuvog. Allur frágangur mun taka mið af umhverfinu með grjóthleðslum og renna inn í aðliggjandi landslag. Kistuvogur er hluti af áfangastaðaáætlun Vestfjarða og er mikið sóttur af ferðamönnum.
Guðjón Kristinson mun sjá um bæði þessi verkefni enda einstakur hagleiksmaður.