Í gær var haldinn ársfundur Byggðastofnunar og var hann að þessu sinni í Breiðadalsvík á Austfjörðum.
Þar var tilkynnt um nýja stjórn stofnunarinnar, en það er Eyjólfur Ármannsson, innviðaráðherra sem skipar hana. Skipt var um alla sex stjórnarmennina.
Nýr formaður er Halldór Gunnar Ólafsson, oddviti á Skagaströnd. Vigfús Þórarinn Ásbjörnsson, Hornafirði er varaformaður.
Aðrir stjórnarmenn eru:
Steindór R. Haraldsson, Skagaströnd
Heiða Ingimarsdóttir, Egilsstöðum
Heiðbrá Ólafsdóttir, Rangárþingi eystra
Margrét Sanders, Reykjanesbæ.
Heiða er varaþingmaður Viðreisnar í Norðausturkjördæmi og Heiðbrá er varaþingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi. Vigfús Þórarinn var 6. maður á lista Flokks fólksins í Suðurkjördæmi.
Í fráfarandi stjórn var einn Vestfirðingur, Guðný Hildur Magnúsdóttir, Bolungavík.
Uppfært kl 10:33. Tveir stjórnarmannanna eiga ættir að rekja til Vestfjarða. Margrét Sanders flutti ung frá Ísafirði til Njarðvíkur með foreldrum sínum, Albert Sanders og Sigríði Friðbertsdóttur, sem voru frá Ísafirði og Súgandafirði. Heiðbrá Ólafsdóttir er dóttir Ólafs þ. Þórðarsonar fyrrv. alþm. frá Stað í Súgandafirði og segist sannarlega vera Vestfirðingur í hjarta sínu.
Þá má bæta því við að Steindór Haraldsson er hálfbróðir Smára Haraldssonar, fyrrv. bæjarstjóra Ísafirði, en þeir eru samfeðra.
Auglýsing