Nú kann að vera að einhverjir kannist við mitt miður fríða smetti (afsakið það) og þá einkum í sambandi við verkefnið Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag sem ég stofnaði til í byrjun ársins 2021 hjá Háskólasetri Vestfjarða og þróaði til febrúarmánaðar ársins 2025. Ekki er ólíklegt að einhverjir hér kannist við hvernig ég lagði mig í líma við að kynna það og mikilvægi íslensku í samfélaginu og hvernig samfélagið geti gert sitt til að hjálpa til við máltileinkun þeirra sem læra íslensku og vilja aðlagast samfélaginu sem best.
Nú er ég hættur þeirri vitleysu enda langeinfaldast að tala bara ensku á Íslandi. Það hefir ekkert upp á sig að púkka upp á frónlensku lengur. Það er búið spil.
En ég nenni ekki að sitja með hendur í skauti og langar því að kynna nýtt verkefni fyrir Vestfirðingum sem einmitt eru svo lukkulegir að búa í fjölmálasamfélagi.
Þannig er mál með vexti að fyrir ekki fyrir svo löngu hafði maður að nafni Nathan samband við mig. Hann hafði heyrt mig gaspra á Samstöðinni hjá Oddnýju Eir Ævarsdóttur er hún fór þess á leit við mig að ég myndi segja aðeins frá Tungumálaskiptunum sem ég stend að ásamt MÍ og Bókasafninu. Þar ámálgaði Oddný þá hugmynd að réttast væri að útbúa e.k. Tungumála-Tinder-app sem hefði það að markmiði að tengja fólk saman svo það geti æft tungumál hvor annars. Frábær hugmynd.
Á þeim tímapunkti var bara verið að fabúlera, að ég hélt. Nú fljótlega eftir mitt gaspur hefir téður Nathan samband við mig, hann hafði heyrt mig þvaðra á Samstöðinni, og segir mér að viðlíka app sé í þróun (hann á heiðurinn að því) og fer þess á leit við mig að ég veiti liðsinni. Mér finnst hugmyndin það góð að ég jánka.
Og þá er ég kominn að aðalatriði þessa greinastúfs eða hvað sem kalla má þennan barning. Til þess að þróa þetta verkefni þarf að mata appið. Til þess væri liðsinni þeirra sem e.t.v. hefðu áhuga á þessu uppátæki (engin skuldbinding fólgin í þessu) vel þegið, s.s. liðsinni þeirra sem langar ef til vill að æfa sig í spænsku, þýsku, frönsku, arabísku eða ensku og bjóða sitt mál á móti. Þetta er sem sagt ekki íslenskuátak sem slíkt.
Hér er sumsé eyðublað sem þið gætuð fyllt út séuð þið áhugasöm og hafið hug á að hjálpa þessu verkefni við að ýta úr vör:
Upplýsingar frá nemendum
Information from students
Ég tek fram að ég hefi engan efnahagslegan ábáta af þessu og er ekki að kynna þetta til að mata krókinn. Mér finnst þetta bara svo ansi góð hugmynd að hún verði að verða að veruleika.
Ólafur Guðsteinn Kristjánsson, áhugamaður um tungumálalega fjölbreytni
Auglýsing