Laugardagur 17. maí 2025
Heim Blogg Síða 2322

Vá Vest: Njótum páskanna saman

Nú stendur fyrir dyrum ein stærsta hátíð ársins, páskahátíðin, þar sem margt verður í boði fyrir íbúa Ísafjarðarbæjar og gesti þeirra. Vel hefur verið vandað til undirbúnings og dagskráin er metnaðarfull og fjölbreytt.  Vá Vest hópurinn bendir á að í páskafríinu slaknar á ýmsum reglum sem annars eru við lýði s.s. að börnin vaki lengur og eru meira úti við. Vá Vest minnir á að áríðandi sé að halda fast í útivistartímann.

Í orðsendingu frá hópnum er minnt á að mikið og gott starf hefur verið unnið í forvarnamálum á norðanverðum Vestfjörðum og vel hefur gengið að halda unglingum frá alls kyns neyslu og óreglu.  „Þó má aldrei slaka á! Til þess að góður árangur haldist verða allir að leggjast á eitt og sýna ábyrgð og metnað gagnvart unga fólkinu okkar sem er það dýrmætasta sem við eigum.  Unglingarnir hafa sjálfir sagt að það sem mesti máli skipti sé samvera með fjölskyldunni.  Hlustum á það og tökum mark á þeirra eigin orðum,“ segir í orðsendingunni.

Stærsti viðburður páskanna á Ísafirði er rokkhátíðin Aldrei fór ég suður sem Vá Vest segir vera frábært framtak einstaklinga, framtak sem er orðið að einkennismerki Ísafjarðarbæjar og dregur að sér fjölda fólks.  „Til þess að við getum öll notið þessa, litið til baka með ánægju og stolti yfir framtakinu, verðum við að sjá til þess að börnin okkar séu örugg – förum því með þeim og njótum stundarinnar. Við berum ábyrgð, lagalega og siðferðislega, á börnunum okkar og því skulum við sameinast um að gæta þeirra allra.  Þetta eru börnin okkar allra!“ segir að lokum í orðsendingu Vá Vest

 

Auglýsing

Dupont eignast meirihluta í Þörungaverksmiðjunni

Þörungaverksmiðjan á Reykhólum.

Bandaríska stórfyrirtækið DuPont hefur keypt heilsuvöruframleiðslu bandaríska fyrirtækisins FMC Corporation og þar á meðal meirihlutann í Þörungaverksmiðjunni hf. á Reykhólum. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.

Magnús Helgason, sem situr í stjórn þörungaverksmiðjunnar, segir í samtali við blaðamann  Morgunblaðsins að ekki sé reiknað með að þessi viðskipti hafi áhrif á starfsemi verksmiðjunnar. Viðskiptin tengjast samruna fyrirtækjanna DuPont og Dow Chemicals, sem tilkynnt var um árið 2015 og á koma til framkvæmda á síðari hluta þessa árs. DuPont hefur nú selt hluta af efnaframleiðslu sinni til FMC og keypt á móti heilsuvöruframleiðsluna

FMC Corporation er skráð fyrir 71,6% hlutafjár í Þörungaverksmiðjunni hf., Byggðastofnun á 27,7% hlut og aðrir hluthafar eru um 70.

Þörungaverksmiðjan framleiðir mjöl úr klóþangi og hrossaþara úr Breiðafirði. Fram kemur á heimasíðu verksmiðjunnar, að meira en 95% af framleiðslunni sé til útflutnings og helstu markaðir séu Skotland, Bandaríkin, Bretland, Noregur, Holland, Þýskaland, Frakkland, Japan og Taívan. Mjölið hafi mjög góða bindieiginleika vegna mikils innihalds svokallaðra gúmmí- efna í mjölinu. Það sé framleitt að miklu leyti fyrir fyrirtæki sem áframvinni efnið til að einangra gúmmíefnin til áframvinnslu í ýmiskonar iðnaði, svo sem matvæla-, snyrtivöru-, lyfja- og textiliðnaði. Öll framleiðsla Þörungaverksmiðjunnar hefur lífræna vottun og grundvallast meðal annars á sjálfbærri nýtingu á þangi og þara úr Breiðafirði.

Dupont er eitt stærsta efnaframleiðslufyrirtæki heims. Það var stofnað árið 1802 í Delaware í Bandaríkjunum til að framleiða púður í byssuskot.

Auglýsing

Veturinn sleppir ekki takinu

Vindaspá fyrir laugardaginn.

Margir bíða þess með óþreyju að vorið hefji innreið sína að fullu og græn slykjan breiði úr sér yfir holt og hæðir. Enda getur veturinn verið langur hér á landi þótt sá vetur sem nú er að renna sitt skeið hafi verið óvenjulegur að mörgu leyti sé horft í meðaltöl og annála. Í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofunnar segir að veturinn ætli ekki að sleppa takinu alveg strax því norðanáttir verða þrálátar þessa vikuna með tilheyrandi kulda. Næstu dagar munu einkennast af björtu veðri með næturfrosti um landið sunnanvert og sennilega mun snjóa eitthvað á Skírdag. Fyrir norðan mun snjóa reglulega og hitastigið verður að mestu á bláa rófinu. Hvort þetta sé sannkallað páskahret skal ósagt látið, en óháð því hvað svona tíð kallast, þá bendir flest til þess að útivistarveður verði ágætt um páskana um mest allt land og við það ættu flestir að geta unað.

Samkvæmt veðurþáttaspá Veðurstofunnar eru líkur á norðan hægviðri á Vestfjörðum um páskana með frosti og ekki er að sjá snjókomu í kortum Veðurstofunnar.

Auglýsing

Bútasaumur í tuttugu ár

Hluti sýningargripa á afmælissýningunni.

Bútasaumsklúbburinn Pjötlurnar fagnar 20 ára afmæli á árinu, en klúbburinn var stofnaður 28. maí 1997. Í tilefni afmælisins heldur klúbburinn sýningu í Safnahúsinu á Ísafirði. Á sýningunni verða óvissuverkefni sem klúbbfélagar hafa gert og verkefni sem hafa verið gerð á Suðureyri, Þingeyri, Núpi og í Reykjanesi á síðustu 20 árum. Sýningin er á göngum og stigagangi safnsins.

Félagssvæði klúbbsins er norðanverðir Vestfirðir og eru félagkonur frá Bolungarvík, Ísafirði, Suðureyri, Súðavík, Flateyri og Þingeyri. Klúbbfélagar hittast á saumafundum fyrsta laugardag hvers mánaðar frá september til apríl. Fyrstu helgi í maí og október eru saumabúðir í Reykjanesi sem eru öllum opnar og þangað koma konur annars staðar af landinu til að sauma. Félagskonur hafa flestar verið um 70 en hefur fækkað núna allra síðustu ár og eru félagskonur í dag 48. Félagar eru á öllum aldri og kynslóðabil er óþekkt.

Klúbburinn tók þátt í handverkssýningu sem haldin var í Menntaskólanum í apríl 2001, hann var með sýningu á Hótel Ísafirði í mars 2003, í Verkalýðsfélagshúsinu í maí 2005 og Jólasýning í Safnahúsinu um mánaðamótin nóvember, desember 2010.

Afmælissýningin í Safnahúsinu stendur yfir frá 10.-18. apríl á opnunartíma safnsins.

Auglýsing

Vestramenn ætla sér upp

Meistaraflokkur Vestra var við æfingar á Spáni snemma í vor.

Meistaraflokkur Vestra í knattspyrnu er nýkominn heim úr vikulangri æfingaferð til Spánar. Samúel Samúelsson, formaður meistaraflokksráðs, segir að ferðin hafi verið vel heppnuð í alla staði, toppaðstæður og frábært veður. Ekki spillti fyrir að liðið lék einn æfingarleik og náði 3-3 jafntefli við úrvalsdeildarlið Breiðabliks. Þegar heim var komið beið Vestramanna síðasti leikur í B-deild Lengjubikarsins sem var leikinn í Egilshöll í gær. „Við ætluðum okkur áfram í Lengjubikarnum en það fauk út um gluggann þegar við töpuðum í gær fyrir þriðjudeildarliðinu Vængjum Júpíters,“ segir Samúel.

Vestramenn líta á Lengjubikarinn sem undirbúningsleiki en Samúel segir engu að síður hundfúlt að detta út eftir tap gegn liði úr þriðju deild.

Fyrsti deildarleikur Vestra í 2. deild Íslandsmótsins verður á Torfnesi þann 6. maí og mótherjinn verður lið Fjarðabyggðar. Samúel segir að leikmenn, þjálfarar og allir sem koma að meistaraflokki Vestra fari bjartsýnir inn í sumarið. „Við ætlum okkur upp um deild, það er ekkert annað í boði.“

Tveir þjálfarar verða með liðið í sumar. Englendingurinn Danil Badu er stuðningsmönnum Vestra vel kunnur, en hann lék fyrst með BÍ/Bolungarvík, forvera Vestra, sumarið 2012 og hefur verið viðloðandi liðið meira og minna síðan.

Með Daniel verður Bosníumaðurinn Danimir Milkanovic, en hann var í þjálfarateymi Grindavíkur síðasta sumar. „Hann hefur verið í þjálfarateymi u-21 landsliðs Bosníu og er mikill fagmaður,“ segir Samúel.

Það er gömul saga og ný að aðstæður til fótboltaæfinga að vetrarlagi eru bágbornar á Ísafirði og og frost og snjóar eru oft langt fram á vor. Samúel segir það því mikið fagnarðarefni að bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar ætli að stefna að byggingu knattspyrnuhúss. „Þetta er það sem við þurfum. Þó veturinn hafi verið ágætur í ár, þá vorum við til dæmis að vonast til að geta komið heim frá Spáni og æft úti en við ráðum ekki við veðrið og snjóalög og því bíður það eitthvað. Mörg þeirra liða sem við erum að keppa við geta æft inni á veturna og knattspyrnuhús verður gríðarlegt framfaraskref fyrir fótboltann,“ segir Samúel.

Auglýsing

Skífuþeytarar heima úr héraði

Það verður sveitt stemning í Kampaskemmunni um helgina.

Rokkhátíðin Aldrei fór ég suður hefur verið þekkt fyrir ákveðna formfestu, en skipuleggjendur hafa þó ekki verið hræddir við breytingar ef góðar hugmyndir fæðast. Eftir einungis fjóra daga hefst fjórtánda Aldrei fór ég suður hátíðin og í ár verður sú nýlunda að plötusnúðar heima úr héraði munu láta ljós sitt skína. Allir eru þeir þekktari fyrir önnur störf en að þeyta skífum, má þar nefna Dj. Baldur Smára Einarsson, formann bæjarráðs Bolungarvíkurkaupstaðar, Dj. Höllu Míu Ólafsdóttur, fréttakonu RÚV á Vestfjörðum og Dj. Herra Hammond einnig þekktur sem Guðmundur Heiðar Gunnarsson tónlistarspekúlant með meiru.

„Það er alltaf smá bið á milli hljómsveita þó við reynum okkar besta til að halda vel á spöðunum og keyra tempóið áfram. Okkur datt í hug að það væri gaman að binda dagskrána saman með því að fá skífuþeytara heima úr héraði og allir sem við töluðum við tóku þessu ótrúlega vel og voru til í geimið,“ segir Kristján Freyr Halldórsson rokkstjóri Aldrei fór ég suður.

Plötusnúðarnir sem koma fram eru:

  • Gló
  • Gulli Diskó
  • Halla Mia
  • Rúna Esra
  • Baldur Smári
  • Helga Þórdís
  • Ylfa Mist
  • Herra Hammond.

Það verður enginn svikinn af þessu lænöppi:

 

 

 

Auglýsing

Köfunarþjónustan bauð lægst í ofanflóðavarnir

Patreksfjörður.

Köfunarþjónustan ehf. átti lægsta tilboðið í snjóflóðavarnir á Patreksfirði. Fjögur tilboð bárust og var tilboð Köfunarþjónustunnar 56 milljónir kr. Kostnaðaráætlun verksins hljóðar upp á 70 milljónir kr. Íslenskir aðalverktakar skiluðu inn tveimur tilboðum, annars vegar frávikstilboði upp á 60 milljónir kr. og öðru tilboði upp á 65 milljónir kr. Fjórða tilboðið var frá Munck Íslandi ehf. upp á 80 milljónir kr.

Verkið er tvíþætt og felst annars vegar í að setja upp snjósöfnunargrindur úr stáli og hins vegar að setja upp fimm vindkljúfa úr stáli og timbri á steypta undirstöðu ofan upptakasvæða Urða og Klifs.

Áformað er að koma fyrir um 240 m af stálgrindum, en hæð þeirra er 3,0 m.

Tilgangur varnanna er að minnka snjósöfnun á upptakasvæðum annars vegar og draga úr hengjumyndun við upptakasvæðin hins vegar.

smari@bb.is

 

 

Auglýsing

Blússveitin Akur heiðrar Bítlana

Hinir frábæru fjórmenningar frá Liverpool.

Nú er gengin í garð dagskrárhlaðnasta vika ársins á Ísafirði. Enn svífur talsverð mánudagsró yfir vötnum en eftir því sem líður á vikuna þéttist dagskráin frá degi til dags og á miðvikudag verður Skíðavikan sett með pompi og prakt á Silfurtorgi og markar setningin formlega upphaf páskadagskrárinnar sem er fjölbreytt og víðtæk og sannarlega ekki einungis bundin við Ísafjörð.

Blúshljómsveitin Akur, sem í Skíðavikunni á síðasta ári færði gestum Rolling Stones heiðurstónleika, telur í að nýju og í þetta sinn eru það ekki minni menn sem heiðraðir eru, sjálfir Bítlarnir. Boðið verður upp á tvenna tónleika í Edinborgarhúsinu, hinir fyrri á miðvikudagskvöldið og þeir seinni á fimmtudagskvöld. Það er Hjörtur Traustason sem syngur, en söng sinnir einnig hljómborðsleikarinn Stefán Steinar Jónsson, gítarleikarinn Guðmundur Hjaltason og bassaleikarinn Hlynur Kristjánsson, auk þeirra skipa sveitina gítarleikarinn Stefán Freyr Baldursson og trommarinn Jón Mar Össurarson. Trommur.

Tónleikarnir hefjast klukkan 21 bæði kvöldin, en húsið opnar klukkustund fyrr. Miða má nálgast á miðasöluvefnum tix.is.

annska@bb.is

Auglýsing

Heiðarnar mokaðar í dag

Mokstur á Hrafnseyrarheiði. Mynd úr safni.

Mokstursmenn eru að störfum á Hrafnseyrarheiði og vegurinn verður fær fljótlega upp úr hádegi í dag. Vegurinn um Dynjandisheiði ætti að vera fær seinnipartinn í dag. Heiðarnar voru mokaðar í lok mars en tepptust á ný í í norðanáttunum sem hafa ríkt upp á síðkastið. „Það kom reyndar á óvart hvað það hefur bætt lítið í snjó á heiðunum miðað við veðurfarið norðan heiða. En það er ekkert nýtt að það dragi úr norðaustanáttinni þegar vestar dregur,“ segir Guðmundur Björgvinsson, yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni á Ísafirði.

Miðað við veðurspá er nokkuð líklegt að vesturleiðin verði fær um páskana. Guðmundur bendir þó á fljótt skipast veður í lofti á fjallvegum og hann hvetur fólk til að fylgjast með veðurspá hyggi það ferðir um fjallvegi. „Við verðum ekki mikið á ferðinni á föstudaginn langa og páskadag að fylgjast með færð en við reynum að hafa kortin okkar eins vel uppfærð og kostur er,“ segir hann.

smari@bb.is

 

Auglýsing

Sætt og salt framleiðir páskasúkkulaði

Páskasúkkulaði Sætt og salt, hér í glugga Skóbúðarinnar, felur í sér sætleika páskanna og kikk rokkhátíðarinnar.

Einn merkari sprota sem fæðst hafa nýverið á norðanverðum Vestfjörðum er súkkulaðiframleiðslan Sætt og salt í Súðavík, sem framleiðir af miklum myndugleika og natni hágæða handunnið súkkulaði, sem verður vinsælla með hverjum mánuðinum sem líður. Súkkulaðið sem kemur alla jafna í þremur bragðtegundum er nú að finna í hinum ýmsu sælkeraverslunum um landið, sem og verslunum sem selja ferðamönnum varning, en síðustu ár hafa heitustu minjagripirnir oftar en ekki verið matarkyns, svokallaðir matarminjagripir, sem þeir hafa með sér aftur til síns heima eftir að hafa heimsótt nýjar slóðir.

Sætt og salt hefur síðasta ár boðið upp á árstíðatengdar vörur, síðasta haust sendi framleiðslan frá sér hvítt súkkulaði með ferskum aðalbláberjum og svo kom jólasúkkulaði sem sló allrækilega í gegn. Nú er páskasúkkulaði komið á sölustaði, sem konan á bak Sætt og salt, Elsa Guðbjörg Borgarsdóttir, hefur nostrað við og náð fram í gegnum bragðlaukana sætleika páskanna og kikkið af rokkhátíðinni Aldrei fór ég suður. Líkt og áður þegar boðið hefur verið upp á árstíðartengda vöru er súkkulaðið hvítt og er það með ristaðri og kryddaðri fræ- og hnetublöndu, kókosflögum, gullrúsínum og kryddblöndu. Sölustaðir á Ísafirði eru Skóbúðin-Sögusetur og Þristur Ormsson, í Bolungarvík má fá páskasúkkulaðið í O-Design og er kjörið fyrir súkkulaðiaðdáendur að næla sér í plötu sem hinir fullorðnu mættu njóta á hinni miklu súkkulaðitíð páskunum, á meðan að yngri belgir sig út af páskaeggjum.

annska@bb.is

Auglýsing

Nýjustu fréttir