Fram komu á fyrri degi málþings um snjóflóð og samfélög, sem haldin er á Ísafirði, alvarlegar athugasemdir við dvöl fólks í íbúðum í eldri byggðinni í Súðavík í vetur.
Eftir snjóflóðið 1995 var byggðin flutt innar í fjörðinn, að Langeyri. Þau hús, sem eftir stóðu og voru íbúðarhæf, voru keypt upp og síðar seld með þeirri kvöð að dvöl fólks í þeim væri óheimil frá 1. október til 30. apríl ár hvert. Fyrir páska kom fram að lögreglan á Vestfjörðum hafði gert athugasemdir við dvöl fólks í nokkrum íbúðum, en gat ekkert aðhafst ef viðkomandi vildi ekki rýma húsið þar sem ekkert lagaákvæði er til staðar sem bannar dvöl í íbúðunum, einungis ákvæði í afsali. Þvi eru engin úrræði til að grípa til og engin refsiákvæði sem hægt er að beita til að fá fólk til að fara úr íbúðinni.
Lögreglan hefur því engin ráð nema lýst hafi verið yfir hættuástandi vegna snjóflóðahættu, en þá virkjast heimildir til rýmingar.
Á ráðstefnunni fóru Rögnvaldur Ólafsson, yfirlögregluþjónn hjá Fjarskiptamiðstöð Ríkislögreglustjóra og Hlynur Hafberg Snorrason, yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á Vestfjörðum yfir aðkomu lögreglunnar að snjóflóðunum í Súðavík og á Flateyri og spurðu hvað við hefðum lært. Þeir voru þá báðir starfandi lögreglumenn á Vestfjörðum og tóku virkan þátt í björgunaraðgerðum. Báðir gagnrýndu þeir dvöl fólks í íbúðunum í Súðavík á þeim tíma sem bannað er að vera í þeim. Hlynur nefndi sérstaklega að hann vildi að húsin yrðu keypt aftur til ríkisins og rifin en annars yrði bætt í lög bann við dvöl og refsiúrræði sem hægt yrði að grípa til.
Halldór Halldórsson, fyrrv. bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ í 12 ár og Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri í Súðavík tóku báðir í svipaðan streng í umræðum að loknu erindi Rögnvaldar og Hlyns.
Fram kom hjá fulltrúa umhverfisráðuneytisins, sem fer með ofanflóðamálefni, að þessi staða væri þegar til skoðunar í ráðuneytinu og væri verið að skoða hvernig best væri að bregðast við. Þar kæmu lagabreytingar til greina.