Þriðjudagur 6. maí 2025
Heim Blogg

Friðlandið á Hornströndum 50 ára

Í tilefni þess að 50 ár eru um þessar mundir síðan stofnað var til Friðlands á Hornströndum, efnir Hornstrandanefnd til afmælismálþings á Ísafirði föstudaginn 23. maí, milli klukkan 15 og 18.

Á dagskránni eru nokkur stutt erindi og umræður er líta að náttúrufari og þýðingar friðunarinnar á það, til samfélags fólksins og sögu þess sem og skipulags og framtíðarsýnar.
Aðgangur að málþinginu er endurgjaldslaus og öllum heimill. Boðið verður upp á kaffiveitingar.
Um kvöldið verður efnt til kvöldvöku á Dokkunni þar sem gestum gefst tækifæri á að spreyta sig í þekkingu á Hornströndum í PubQuiz.

Nánari dagskrá verður send út mjög fljótlega.
Hornstrandanefnd er skipuð fulltrúum Landeigendafélags Sléttu – og Grunnavíkurhrepps, Ísafjarðarbæjar og Náttúruverndarstofnunar.

Auglýsing

Ekkert tilboð barst í málun og múrviðgerðir

default

Bolungarvíkurkaupstaðar óskar nýlega eftir tilboði í verkið Aðalstræti 22 – múrviðgerðir og málun þar sem helstu verkþættir eru múrviðgerðir, málun utanhúss, endurnýjun á gleri og endurnýun þakants

Útboðsfrestur var til 29 apríl en þegar til kom barst ekkert tilboð í verkið.

Auglýsing

Landsmótið í skólaskák var á Ísafirði

Landsmótið í skólaskák fór fram um liðna helgi á Ísafirði. Landsmótið er keppni sterkustu ungmenna allra landshluta Íslands og er eitt af sögufrægustu skákmótum landsins. 

Mótið stóð yfir dagana 3. og 4. maí og teflt var í þremur aldurskiptum flokkum, 1.-4. bekk, 5.-7. bekk og 8.-10. bekk. Tólf keppendur eru í hverjum flokki og tefla allir við alla með atskákartímamörkum, 15+5.

Keppendur frá Grunnskólanum á Ísafirði voru 5 að þessu sinni. 

Í keppni 1-4 bekkjar sigraði Pétur Úlfar Ernisson í Langholtsskóla en Samúel Máni Samúelsson Ísafirði var í 5. sæti og Pétur Ívar Eyþórsson Ísfirði í því 12.

Í keppni 5-7 bekkjar sigraði Birkir Hallmundsson í Lindaskóla en Ísfirðingarnir Karma og Nirvaan Halldórssynir voru í 2 og 6 sæti

Í keppni 8-10 bekkjar sigraði Mikael Bjarki Heiðarsson og Sigurjón Kári Eyjólfsson Ísafirði varð í 10 sæti.

Segja má að árangur Ísfirðinganna hafi verið góður í þessu móti sterkustu ungmenna allra landshluta.

Auglýsing

Fyrsta skemmtiferðaskipið kom í dag

Frá heimsókn leikskólanna í skemmtiferðaskip á Ísafirði.

Tæplega 200 komur skemmtiferðaskipa eru bókaðar frá 6. maí til 30. október.

Samanlagður fjöldi farþega um borð í skipunum er að hámarki 267.300 en vert er að geta þess að nýting plássa um borð í skipunum er alla jafna um 70%.

Hægt er að glöggva sig betur á bókuðum skipakomur til hafna Ísafjarðarbæjar á facebooksíðu Ísafjarðarhafnar og á heimasíðu Ísafjarðarbæjar.

Í maí eru eftirfarandi heimsóknir á áætlun:

DagsetningKomaBrottförSkipLegustaðurHámarksfjöldi farþegaFjöldi starfsfólks
MAÍ
06. maí08:0018:00AmeraSundabakki835443
11. maí08:0018:00Silver DawnSundabakki596576
12. maí08:0017:00Fridtjof NansenSundabakki530150
13. maí07:0017:00AmbitionSundabakki1196500
08:0016:00SpitsbergenSundabakki33565
18. maí09:0017:00BorealisSundabakki1404620
19. maí08:0017:00VolendamSundabakki1432647
08:0017:00Fridtjof NansenSundabakki530150
20. maí09:0018:00Norwegian PrimaSundabakki32151506
23. maí08:0018:00Norwegian PrimaSundabakki32151506
24. maí07:0019:00MSC PreziosaSundabakki35021370
26. maí06:0013:00SeaventureSundabakki16494
08:0017:00Fridtjof NansenSundabakki530150
27. maí08:0018:00Norwegian StarSundabakki23481031
13:0020:00Viking NeptuneSundabakki930470
28. maí07:0018:00FramSundabakki25475
29. maí08:0017:00Celebrity EclipseSundabakki28521271
09:0018:00AmadeaSundabakki594292
30. maí08:0018:00AuroraSundabakki1868816
Auglýsing

Flateyri: Walvis og Vestfirsk Flateyri fái 400 tonna byggðakvóta

Tindur ÍS í Flateyrarhöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Aflamarksnefnd Byggðastofnunar leggur til að 400 tonna byggðakvóta til Flateyrar næstu fimm ár verði úthlutað til Walvis ehf í samstarfi við Tjaldtanga ehf, sem fái árlega 200 tonn og Vestfirsk Flateyri ehf ásamt samstarfsaðilum, sem einnig fái 200 tonn á ári.

Auk þess sótti ÍS 47 ehf um en aflamarksnefndin leggur til að umsókn þess verði hafnað.

Tillaga aflamarksnefndar fer fyrir stjórn Byggðastofnunar á fimmtudaginn. Bæjarráð Ísafjarðarbæjar fékk tillöguna til umsagnar og bókaði í gær að það gerði ekki athugasemdir við tillöguna.

Í minnisblaði aflamarksnefndar kemur fram að umsóknirnar þrjár voru metnar á grundvelli tiltekinna matsþátta. Fékk umsókn ÍS 47 38,5 stig, umsókn Vestfirsk Flateyri fékk 57,9 stig og Walvis og Tjaldtangaumsóknin fékk 60,2 stig.

Í niðurstöðu minnisblaðsins segir:

„Samkvæmt ofangreindu fengu umsóknir Vestfisks ehf. og sameiginleg umsókn Walvis ehf. og Tjaldtanga ehf. álíka mörg stig. Báðir umsækjendur eru með starfsemi á Flateyri og er úthlutun til þeirra til þess fallin að styrkja starfsemi þeirra og þar með byggðafestu á Flateyri. Rök hníga því til þess að skipta því aflamarki sem er til ráðstöfunar jafnt á milli þessara aðila en hafna umsókn Ís 47 ehf. þar sem sú umsókn hlaut mun færri stig.“

Auglýsing

Verkvest: Finnbogi áfram formaður

Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkvest.

Aðalfundur Verkalýðsfélags Vestfirðinga var haldinn 28. apríl sl. a Ísafirði. Finnbogi Sveinbjörnsson var endurkosinn formaður til næstu tveggja ára. Bergvin Eyþórsson er varaformaður, Kolbrun Sverrisdóttir gjaldkeri og Guðrún Sigríður Matthíasdóttir ritari.

Auk þeirra eru formenn deilda félagsins í stjórninni. Þeir eru:

Gunnhildur B. Elíasdóttir – Almenn deild SGS

Hlynur S. Kristjánsson – Opinber deild SGS

Margrét J. Birkisdóttir – deild Verslunar- og skrifstofufólks LÍV

Sævar K. Gestsson – Sjómannadeild SSÍ

Viðar Kristinsson – Iðnaðardeild Samiðn

Auglýsing

Bolvíkingafélagið : aðalfundur í dag

Kaffinefndin öfluga í Bolvíkingafélaginu. Mynd: Kristján B. Ólafsson.

Aðalfundur Bolvíkingafélagsins í Reykjavík verður haldinn í dag, þriðjudaginn 6. maí 2025 kl. 17. Fundarstaður: Siglingaklúbburinn Ýmir, Naustvör 14, Kópavogi.

Ætlunin er að senda fljótlega út rukkun árgjalds ársins 2025 alls kr. 3.000,-

Unnið er að útgáfu Brimbrjótsins og allir félagar fá blaðið í pósti.

Þeir sem vilja ganga í félagið sendi nafn og kennitölu á netfangið kbo@simnet.is eða sms á 892 9200 og við bætum ykkur á félagalistann.

Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í stjórn eða starfi félagsins eru hvattir til þess að hafa samband við formann. Það vantar alltaf nýja og ferska liðsmenn.

Félagið verður 80 ára á næsta ári og stefnt er að því að halda upp á þau tímamót.

Í stjórn félagsins eru nú :

Kristján B Ólafsson s: 8929200

Ósk Gunnarsdóttir

Oddný Jóhannsdóttir

Ingólfur Hauksson

Sæbjörn Guðfinnsson

Auglýsing

Umhverfisráðherra: meira fé til ofanflóðavarna á næstu árum

Jóhann Páll Jóhannsson ráðherra á málþinginu í gær. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-,orku- og loftslagsráðherra ávarpaði málþing um snjóflóð og samfélög sem hófst á Ísafirði í gær og lýkur í dag. Í máli hans kom fram að í nýframlagði fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu 5 ára væri þrátt fyrir að þar sé lögð áhersla á aðhald í útgjöldum á flestum sviðum, væri ekki verið að skera niður heldur að gefa í þegar kemur að ofanflóðavörnum. Samhliða þessu væri ríkisstjórnin að vinna að heildstæðri stefnu um náttúruvá á Íslandi — með það að markmiði að tryggja forgangsröðun, samræmingu og markvissari nýtingu fjárheimilda.

Ávarp ráðherra í heild:

Kæru fundargestir, íbúar Vestfjarða, samstarfsfólk í ofanflóðamálum, góðir gestir.

Það er mér heiður að standa hér í dag og ávarpa þetta mikilvæga málþing, sem haldið er til að minnast þess að þrjátíu ár eru liðin frá snjóflóðunum hörmulegu í Súðavík og á Flateyri.

Þetta eru atburðir sem ristu djúp sár í íslenskt samfélag og meðvitund þjóðarinnar.

Við sem ekki upplifðum þetta á eigin skinni eigum erfitt með að setja okkur í spor þeirra sem urðu illa úti og þeirra hafa þurft að lifa með þessari lífsreynslu.

Við Íslendingar höfum glímt við náttúruhamfarir allt frá því land byggðist. En jafnvel langt fram eftir 20. öld ríkti ákveðið sinnuleysi gagnvart snjóflóðahættu, sú hætta féll í skuggann af öllu manntjóninu í sjóslysum og illviðrum á landi. Samfélagið tókst á við snjóflóðaslys af æðruleysi, með því að lagfæra skemmdir en harka af sér manntjónið – og svo var bara haldið áfram með tilveruna.

Snjóflóðin í Súðavík í janúar 1995 og á Flateyri í október sama ár ollu straumhvörfum í afstöðu Íslendinga til snjóflóðahættu. Mannskaðasnjóflóðin í Neskaupstað 1974, þar sem tólf fórust, leiddu til ákveðinnar vakningar um að bæta þyrfti viðbúnað við snjóflóðahættu en vinna við greiningu hættunnar á nokkrum stöðum landsins í framhaldinu leiddi ekki til umtalsverðra breytinga. Það var ekki fyrr en eftir flóðin 1995 sem gripið var til afgerandi aðgerða;  Ný lög um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum voru sett árið 1997 og stofnaður var Ofanflóðasjóður til þess að fjármagna hættumat, varnarvirki, uppkaup húsnæðis á hættusvæðum og búnað til rannsókna og eftirlits með ofanflóðahættu.

Veðurstofunni var falin ábyrgð á vöktun snjóflóðahættu og rýmingu húsnæðis í samvinnu við almannavarnir í heimabyggð, og á hættumati, skráningu upplýsinga og rannsóknum á snjóflóðum og snjóflóðahættu. Loks var stjórnsýsla ofanflóðamála færð á einn stað í ráðuneyti umhverfismála í stað þess að hún væri dreifð á fleiri ráðuneyti.

Stjórnvöld mörkuðu stefnu um að meta ofanflóðahættu á traustari forsendum en áður, að byggja upp varnarvirki gegn ofanflóðum eða flytja byggð til þess að íbúar byggju við ásættanlegt öryggi.  Veðurstofa Íslands vann álitsgerð árið 1996 um þörf fyrir snjóflóðavarnir á landinu í samvinnu við erlenda sérfræðinga og sú stefna var mörkuð að varnir fyrir hættulegustu svæði landsins yrðu komnar upp fyrir árið 2010. Það gekk ekki eftir. Áætluðum verklokum var seinkað til 2020 sem tókst heldur ekki – og þá var markið sett á 2030.

Í dag eru framkvæmdir við ofanflóðavarnir langt komnar.

Lokið hefur verið við að reisa um 70% þeirra varna sem nauðsynlegar eru til að verja íbúðarhús á fimmtán þéttbýlisstöðum víðs vegar um landið.

Það er mikilvægt að hafa í huga að í lögunum sem mótuðu þessa stefnu var lögð sérstök áhersla á að verja fólk á heimilum sínum — þar sem það dvelur mestan hluta sólarhrings og þar sem uppsöfnuð áhætta er mest.

Þetta eru framkvæmdir sem hafa aftur og aftur sannað gildi sitt. Mér er sagt að 58 snjóflóð hafa fallið á nýlega varnargarða, víðs vegar á landinu og sum þeirra hefðu, ekki ef ekki væri fyrir þessi mannvirki, náð niður að byggð.

Atburðir undanfarinna fimm ára í Neskaupstað, á Flateyri, Seyðisfirði og Patreksfirði eru auðvitað áminning um að verkinu er ekki lokið. Og líka óþægileg áminning um að uppbyggingin hefur ekki gengið eins hratt og stefnt var að í upphafi.

Þetta er eitthvað sem ný ríkisstjórn horfist í augu við. Og áherslur okkar í þessum efnum eru skýrar. Nýlega kynntum við okkar fyrstu fjármálaáætlun, og þrátt fyrir að þar sé lögð áhersla á aðhald í útgjöldum á flestum sviðum, þá erum við ekki að skera niður heldur að gefa í þegar kemur að ofanflóðavörnum. Við erum að setja meiri fjármuni í ofanflóðavarnir heldur en áður var gert ráð fyrir, til þess einmitt að flýta brýnum framkvæmdum.

Samhliða þessu erum við að vinna að heildstæðri stefnu um náttúruvá á Íslandi — með það að markmiði að tryggja forgangsröðun, samræmingu og markvissari nýtingu fjárheimilda.

Við ætlum að efla getu Veðurstofunnar til að greina og leggja mat á áhættu, því hún gegnir lykilhlutverki í þeirri vegferð að vera einu skrefi á undan vánni.

Við vitum líka að uppbygging varna gegn ofanflóðum er sífelluverkefni. Við þurfum að viðhalda varnarmannvirkjum, og skapa rými — bæði fjárhagslega og skipulagslega — fyrir endurskoðun og uppfærslu varna með tilkomu nýrrar þekkingar, þróaðri reiknilíkana og aukinnar gagnasöfnunar.

Fjárfesting í öryggi samfélaga skilar sér margfalt til baka. Hún skilar sér í auknu trausti, í öflugri byggðaþróun, og í lífsgæðum og vellíðan fólks. Við berum sameiginlega ábyrgð á því að skapa umgjörð þar sem öryggi fólks er í forgrunni.

Það gleður mig að hér hafi safnast saman fólk úr öllum helstu stofnunum, sveitarfélögum og fagsamfélaginu. Það er á grunni þessarar samvinnu og samtals sem árangur næst.

Við minnumst þeirra þrjátíuogfjögurra sem létust í flóðunum 1995. Við minnumst einnig annarra mannskaðasnjóflóða undanfarinna áratuga.

Og ég vil nota tækifærið hér til að votta aðstandendum og ástvinum þeirra sem létust samúð mína og jafnframt færa öllum þeim þakklæti sem hafa sinnt björgunaraðstæðum við erfiðar aðstæður.

Við heiðrum minningu þeirra sem létust og við heiðrum hugrekki þeirra sem brugðust við, og þetta gerum við einna best með því að halda áfram að fjárfesta í öryggi fólks og varnarmannvirkjum sem bjarga mannslífum.

Það er mér sérstakt ánægjuefni að fá að verja deginum með ykkur — bæði í samtali og í vettvangsferð um Ísafjörð og Flateyri, þar sem við fáum að sjá með eigin augum hvernig snjóflóðahættan hefur mótað byggð og umhverfi þessara fallegu staða.

Auglýsing

Grunnskólinn á Ísafirði: tvö tilboð í þakendurbætur

Grunnskólinn á Ísafirði.

Tvö tilboð bárust í þakendurbætur á norðurhlið Grunnskólans á Ísafirði. Vestfirskir Verktakar buðust til að vinna verkið fyrir 26.915.080 kr. og Geirnaglinn ehf. bauð 22.013.200 kr. Kostnaðaráætlun var 23.086.100 kr.

Bæjarráð samþykkti í gær að ganga til samninga við lægstbjóðanda, Geirnaglann ehf.

Verklok inni eiga að vera 15. ágúst 2025 og úti 30. ágúst.

Verkið felur í sér eftirfarandi verkliði:
Utanhúss: Endurnýja þakklæðningu einangrun og nýjar þakáfellur. Þétta sprungur útveggja með inndælingu. Mála steypta fleti útveggja.
Innanhúss:
Endurnýja einangrun og rakavarnarlag í lofti. Taka niður timburloft og setja upp kerfisloft.

Auglýsing

Ísafjörður: fyrsta skemmtiferðaskipið kom í morgun

Skemmtiferðaskipið Amera.

Nú kl 8 í morgun átti fyrsta skemmtiferðaskipið í sumar að koma til hafnar í Sundabakka. Það er skipið Amera sem er engin smásmíði. Það er 205 metra langt og 28 metra breitt og er með 9 farþegaþilför. Amera getur tekið 835 farþega og hefur 443 í áhöfn.

Amera verður við Sundabakka til kl 18 í kvöld og heldur þá áfram för sinni.

Næsta skip er Silver Dawn sem kemur á lokadaginn 11. maí.

Í sumar eru 197 skipakomur skráðar í Ísafjarðarhöfn frá 6. maí til 30. október í haust.

Auglýsing

Nýjustu fréttir