Sameining sveitarfélaga hefur verið gegnumgangandi stef í sveitarstjórnarmálum um áratugaskeið. Sérstaklega stórt átak var gert í upphafi tíunda áratugarins. Árið 1993 voru þannig umdæmanefndir heimamanna sem fengu það hlutverk að gera tillögur að sameiningum og var þá lagt til að sveitarfélögum á landsvísu myndi fækka úr 194 í 43. Þar af áttu Vestfirðir að samanstanda af fjórum sveitarfélögum.
Þessum hugmyndum var sumstaðar hafnað og annarsstaðar tekið fagnandi, og nú með sameiningu Tálknafjarðar og Vesturbyggðar erum við komin með átta sveitarfélög á svæðinu, en þau voru 24 árið 1993.

Þessi átta sveitarfélög sem nú skipta Vestfjarðakjálkanum á milli sín eru misstór í ferkílómetrum, en sérstaklega þó í manneskjum talið. Það lætur nærri að sextíufaldur munur sé á fámennasta og fjölmennasta sveitarfélaginu. Staða þeirra, fjárhagslegir burðir og hagsmunir eru einnig ólík. Þrátt fyrir talsverðar vegabætur og byltingu í upplýsingatækni eru fjarlægðir enn langar; það er svipað langt frá Norðurfirði í Árneshreppi til Ísafjarðar og suður að Esjurótum, um 300 km.
Bókun bæjarráðs
Á fundi bæjarráðs Ísafjarðarbæjar í morgun lagði ég fram dagskrárlið um sameiningu sveitarfélaga:
„Strandabyggð hefur óskað eftir sameiningarviðræðum við þrjú önnur sveitarfélög á Vestfjörðum; Kaldrananeshrepp, Súðavíkurhrepp og Árneshrepp, sjá fundargerð sveitarstjórnar Strandabyggðar nr. 1375 frá 8. apríl 2025.
Í stefnuyfirlýsingu Í-listans fyrir kjörtímabilið segir: „Ísafjarðarbær er opinn fyrir öllu samstarfi sveitarfélaga á svæðinu og hugmyndum um sameiningu þeirra.“ Fyrr á kjörtímabilinu lýsti Árneshreppur yfir vilja til sameiningar sem bæjarráð tók vel í, en ekkert varð meira úr málinu.
Formaður hefur á síðustu vikum átt samtöl við forsvarsmenn annarra sveitarfélaga á Vestfjörðum. Almennt sjá þau fyrir sér að frekari sameiningar séu skynsamlegar og óumflýjanlegar á næstu 5–15 árum, en misjafnt er hversu mikill áhugi er á sameiningum að sinni.
Formaður leggur til að bæjarráð lýsi yfir skýrum vilja til sameininga sveitarfélaga á Vestfjörðum og að bæjarstjóra verði falið að vera fulltrúi sveitarfélagsins í óformlegum viðræðum sem kunna að skapast í tengslum við það. Það sé skýrt af hálfu bæjarins að sameiningarvilji eigi ekki að koma í veg fyrir smærri sameiningar annarra sveitarfélaga ef þær eru taldar heppilegri til skemmri tíma.“
Sameiningar á Ströndum
Ef Strandabyggð, Árneshreppur og Kaldrananeshreppur sameinast verður samanlagður íbúafjöldi 580, og með Súðavíkurhreppi 200 íbúum fleiri. Hvort heldur sem er, nær sameinað sveitarfélag ekki viðmiðun laga um 1000 íbúa lágmark. Ýmsar óformlegar þreifingar á sameiningu sveitarfélaga eru í gangi, þar á meðal er til skoðunar að Kaldrananeshreppur og Árneshreppur sameinist án aðkomu Strandabyggðar. Ókosturinn við þá sameiningu er að það næði ekki 200 manna markinu og þar með ekki þeim markmiðum sem eðlilegt er að leggja til grundvallar þeirri miklu vinnu sem sameining hefur í för með sér. Líkur eru á að þar með færi mikil orka sem betur nýtist í stærri sameiningu.
Samstarf er að aukast
Samstarf milli sveitarfélaga hefur verið að aukast síðustu ár. Þannig er Ísafjarðarbær leiðandi sveitarfélag í velferðarmálum ýmsum, eins og sést í ársskýrslu Ísafjarðarbæjar 2024 sem fylgir ársreikningi.

Úrklippa úr ársskýrslu Ísafjarðarbæjar fyrir 2024, en þar er samstarfi í velferðarmálum lýst í stuttu máli. Ársskýrslan er annars afar greinargóð samantekt á rekstri sveitarfélagsins.
Þá standa sveitarfélög við Djúp saman að Byggðasafni Vestfjarða.
Og svo er það Vestfjarðastofa, sem er vettvangur fjölbreytts samstarfs. Þar hef ég verið stjórnarformaður síðasta hálfa árið eða svo og séð frá fyrstu hendi þá möguleika sem felast í samstarfi á héraðsvísu í atvinnuþróun, velferðarmálum, ferðaþjónustu og málafylgju gagnvart landsstjórninni.
En Vestfjarðastofa er á ýmsan hátt máttlaus. Hún er klemmd á milli ríkis og sveitarfélaga. Hún er ekki stjórnvald í skilningi laga, og í mörgum tilvikum er það svo að einstök sveitarfélög hafa neitunarvald. Stundum kemur það fram í því að mál eru ekki afgreidd. Það er hinsvegar undantekningin. Meginreglan er að allar ákvarðanir sem snerta sveitarfélögin allar taka lengri tíma en heppilegt er, bitið vantar og áræðið skortir. Ákvarðanir snúast um lægsta samnefnarann, sem getur verið mjög lágur þegar stærðar- og aðstöðumunur sveitarfélaga er jafnmikill og raun ber vitni. Það er því ljóst að aukið hlutverk Vestfjarðastofu er ekki heppileg lausn í ýmsum tilvikum.
Aukið samstarf?
Oft er bent á að aukið samstarf í ákveðnum málaflokkum sé heppilegra milliskref. Það hefur orðið í velferðarmálunum eins og að ofan er greint, og unnið er að því að auka það með gerð svæðisskipulags, í umhverfismálum og nú síðast í málefnum sem tengjast innleiðingu laga um farsæld barna.
Og svo er það hafnarsamlag, einkum við Djúp, sem gæti verið sniðugt. Mín fyrsta greining hefur ekki bent til þess að það sé eitt og sér heppilegt skref, en ég er reiðubúinn til að taka rökum um annað. Byggðasamlög eru almennt klunnalegt stjórnfyrirkomulag, einkum vegna þeirra löngu boðleiða sem geta orðið til þrátt fyrir fámenni og lítið umfang.
Öflugri saman
Ég er sannfærður um þetta: Tímans þungi niður fellur í þá átt að hafa fá en öflug sveitarfélög á Vestfjörðum sem geta tekið áskorunum framtíðarinnar. Í sameiningu þurfa byggðakjarnarnir og svæðin að halda sinni rödd, sinni sérstöðu og sinni menningu. Það á ekki að breytast með sameiningu.
Það sem af er kjörtímabilinu hef ég, sem forsvarsmaður stærsta sveitarfélagsins, verið hikandi við að hafa frumkvæði að sameiningu sveitarfélaga, þar sem ég hef óttast að það setji smærri sveitarfélög í baklás. Nú þegar Strandabyggð er farin að skoða ýmsa kosti sameininga held ég að rétti tíminn sé kominn að byrja alvöru samtal um næstu sameiningar.
Það tekur tíma, en orð eru til alls fyrst.
Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar