Mánudagur 5. maí 2025
Heim Blogg Síða 2

Vegið ómaklega að lögreglunni

Fullyrðingar Kristins Hrafnssonar hjá Wikileaks um að auðmenn ráði öllu sem þeir vilji á Íslandi og að lögreglan hér á landi þjóni þeim standast enga skoðun. Nægir í því sambandi að benda á þann fjölda auðmanna sem rannsakaðir hafa verið af lögreglunni, sóttir til saka og sakfelldir frá bankahruninu haustið 2008. Enn eru slík mál í gangi í dómskerfinu meira en 16 árum síðar og verið árum saman. Vægast sagt ómaklega er vegið að lögreglunni í þessum efnum.

Tilefnið er það að varðstjóri hjá lögreglunni hefur verið sakaður um að hafa þegið greiðslur fyrir að taka að sér njósnir sem athafnamaðurinn Björgólfur Thor Björgúlfsson er sagður hafa fjármagnað og beinzt að einstaklingum í málaferlum gegn honum. Hefur lögreglumaðurinn verið leystur frá störfum á meðan málið er rannsakað en ljóst er að hann tók að sér umrætt verk án vitundar yfirmanna sinna. Kýs Kristinn að dæma alla lögregluna fyrir vikið.

Væntanlega hefði Björgólfur Thor ekki þurft að fjármagna slíkar njósnir úr eigin vasa, ef rétt reynist, ef það væri á rökum reist að auðmenn eins og hann hefðu lögregluna í vasanum. Hvað þá að þurft hefði að ráða til þess einhvers konar málaliða; starfandi lögreglumann án vitneskju yfirmanna hans auk fyrrverandi lögreglumanna. Þá hefði væntanlega verið hægt að leita beint til lögreglunnar. Slíkar ásakanir í garð hennar standast alls enga skoðun sem fyrr segir.

Vegna skorts á málefnalegum rökum kýs Kristinn að tengja málið við rannsókn lögreglunnar á Norðurlandi eystra á svonefndu byrlunarmáli. Vill hann meina að útgerðarfyrirtækið Samherji hafi þar fengið „auðsveipa þjónustu“ hjá lögreglunni til „pólitískra ofsókna gegn blaðamönnum.“ Hins vegar er deginum ljósara að full ástæða var til þess að rannsaka málið í ljósi þeirra alvarlegu ásakana sem settar voru fram um byrlun og þjófnað á farsíma þess sem byrlað var.

Rannsókn byrlunarmálsins tók nokkuð langan tíma einkum vegna þess að blaðamennirnir sem höfðu stöðu brotaþola í því, sem er hugsað þeim sem eru til rannsóknar til varnar enda fylgja því ákveðin mikilvæg réttindi, neituðu ítrekað að mæta í skýrslutöku. Með sömu rökum og Kristinn teflir fram, ef rök skyldi kalla, hafa áralöng málaferli ákæruvaldsins gegn ófáum auðmönnum í kjölfar bankahrunsins væntanlega verið pólitískar ofsóknir gegn þeim.

Vitanlega eiga allir borgara landsins að sitja við sama borð gagnvart ákæruvaldinu. Vonandi geta allir tekið undir það að ef borgari kærir til lögreglunnar að honum hafi verið byrluð ólyfjan sem hefði sett hann í lífshættu á meðan símanum hans hafi verið stolið til þess að afrita hann ætti hún að rannsaka málið. Það væri fyrst ámælisvert ef lögreglan hefði ekki rannsakað málið á þeim forsendum að meintur brotaþoli væri starfsmaður tiltekins fyrirtækis.

Málið var loks látið niður falla þrátt fyrir að ljóst þætti að verknaðurinn hefði átt sér stað. Ekki tókst hins vegar að sýna fram á það hver hefði afritað símann, hvernig og hver hefði afhent fjölmiðlum gögn úr honum að sögn lögreglunnar. Væri það rétt að auðmenn hefðu lögregluna í vasanum og réðu því sem þeir vildu hefði rannsókn málsins varla verið hætt. Lögreglunni ber einfaldlega skylda til þess að rannsaka mál sem kærð eru óháð því hverjir eigi í hlut.

Hjörtur J. Guðmundsson
Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

Auglýsing

Veðrið í Árneshreppi í apríl

Yfirlit yfir veðrið frá veðurstöðinni í Litlu-Ávík frá Jóni G Guðjónssyni veðurathugunarmanni.

Mæligögn:

Úrkoman mældist 21,0 mm. (í apríl 2024:21,9 mm.)

Úrkomu sem varð vart en mældist ekki var í 1 dag.

Þurrir dagar voru 10.

Mestur hiti mældist þann 10:+14,0 stig.

Mest frost mældist þann 19:-2,9 stig.

Meðalhiti mánaðarins var +3,9 stig.(í apríl 2024: +0,7 stig.)

Meðalhiti við jörð var -0,5 stig. (í apríl 2024: -2,2 stig.)

Alhvít jörð var í 1 dag.

Flekkótt jörð var í 11 daga.

Auð jörð var því í 18 daga.

Mesta snjódýpt mældist þann 1 og 2: 10.CM.

Yfirlit dagar eða vikur:

Frá 01 til 7 var hlýtt yfir daginn enn svalt á kvöldin og á nóttinni. Kalt var í þokunni Þ.8. Síðan var hlýtt aftur frá 9 og til 10.

Frá 11 voru norðlægar vindáttir með köldu veðri, él, slydda, snjókoma.

Það hlýnaði aðeins þ.24 og 25. Vel hlýtt var þ.26.

Þá Kólnaði aftur í norðan átt og þoku og súld.þ.27 og 28.

Vel hlýtt þ.29 enn svalara Þ.30.

Auglýsing

Fræðslufundur um málefni kirkju­garða

Boðað hefur verið til fundar þriðju­daginn 6. maí kl 15:00 í sal Mennta­skólans á Ísafirði um ýmis málefni er varða skipulag og umhirðu kirkju­garða og samvinnu kirkju­garðs­stjórna og sveita­fé­laga.

Fyrirlesarar: Ágústa Erlingsdóttir framkvæmdastjóri kirkjugarðaráðs og  Smári Sigurðsson framkvæmdastjóri Kirkjugarða Akureyrar.

Á fundinn eru boðaðir fulltrúar sveitafélaga á Vestfjörðum, kirkjugarðsstjórnir og  fulltrúar stærstu trúfélaga á svæðinu.

Fjallað verður um eftirfarandi atriði:

Almennt um kirkjugarða

Kirkjugarðasjóð

Tekjur og gjöld kirkjugarða

Umhirðu og grafartöku

Auglýsing

Meiri rækja við Snæfellsnes

Hafrannsóknastofnun leggur til í samræmi við nýtingarstefnu sem mun leiða til hámarksafraksturs til lengri tíma litið, að rækjuafli á svæðinu við Snæfellsnes frá 1. maí 2025 til 15. mars 2026 verði ekki meiri en 460 tonn. Þetta er aukning um 23% frá síðustu ráðgjöf, en veiðiálag hefur verið fyrir neðan kjörsókn (Fproxy) síðustu ár.

Stofnvísitala rækju hefur verið töluvert lægri á árunum 2017-2025 en á árunum 2008-2016. Vísitala ungrækju hefur verið lág frá árinu 2014. Lítið var af stærri þorski og ýsu (2 ára og eldri) en mikið hefur verið af 1 árs ýsu á svæðinu frá árinu 2020.

Auglýsing

Fjögur verkefni á Vestfjörðum fengu styrk

Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra úthlutaði á miðvikudag úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða fyrir árið 2025. Að þessu sinni hljóta 28 verkefni styrk úr sjóðnum. Heildarúthlutun er 553,2 milljónir króna og dreifast verkefnin um land allt.

Eins og áður hefur verið sagt frá fékk Ísafjarðarbær 33,536,976 kr í styrk til byggingar útsýnispalls á Flateyri.

Önnur verkefni sem fengu styrki á Vestfjörðum voru:

Ungmennafélagið Leifur heppni – Stígagerð og útsýnispallur við Krossneslaug
Kr. 11.382.000,- styrkurinn felst í smíði útsýnispalls, þar sem hægt er að virða fyrir sér
laugina og strandlengjuna ofan frá, auk lagningar nýs göngustígs niður að lauginni.
Markmið verkefnisins er að auka öryggi, aðgengi og náttúruvernd við Krossneslaug í
Árneshreppi.

Stokkar og steinar sf. – bílastæði við Kistuvog.
Kr. 8.546.675.- styrkurinn felur í sér stækkun á bílastæði. Allur frágangur mun taka mið
af umhverfinu með grjóthleðslum og renna inn í aðliggjandi landslag.

Remote Iceland ehf. – Hönnun og uppbygging brúarstæðis yfir Hallardalsá við
Goðafoss í Bjarnarfirði.
Kr. 2.000.000,- styrkur felst i að bæta við gönguleiðum með brú yfir ána, sem myndi
auka aðdráttarafl og draga úr slysahættu.

Auglýsing

Fjölmenni á 1. maí hátíðarhöldum á Ísafirði

Kröfugangan að koma að Edinborgarhúsinu. Gengið var frá Alþýðuhúsinu.

Á annað hundrað manns tók þátt í kröfugöngu Verkalýðsfélags Vestfirðinga á Ísafirði í gær. Hátíðarhöldin fóru svo fram í Edinborgarshúsinu og var húsfyllir.

Lúðrasveit Tónlistarskóla Ísafjarðar lék og kvennakór Ísafjarðar söng nokkur lög fyrir gesti. Ræðumaður dagsins var Guðrún Anna Finnbogadóttir, teymisstjóri hjá Vestfjarðastofu og Sigríður Gísladóttir, kennari við M.Í. flutti pistil dagsins.

Húsfyllir var í Edinborgarhúsinu.

Lúðrasveit Tónlistarskóla Ísafjarðar lék fyrir gesti.

Kvennakór Ísafjarðar söng. Kórinn verður með tónleika í Ísafjarðarkirkju 15. maí n.k.

Guðrún Anna Finnbogadóttir var ræðumaður dagsins.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Auglýsing

Sjávarréttaveisla Kiwanisklússins Bása á morgun

Kíwanisklúbburinn Básar á ísafirði stendur fyrir sjávarréttaveislu á morgun, laugardaginn 3. maí í húsnæði félagsins í Sigurðarbúð. Húsið opnar kl 19.

Í boði verða hinir ýmsu fiskréttir sem munu ýmist gæla við bragðlaukana eða láta þá loga. Um eldamennskuna sjá listakonurnar á Thai Tawee.

Árni H. Ívars mun sjá fyrir léttri skemmtun. Það eru allir innilega velkomnir, svo endilega mæta og njóta segir í tilkynningu.

Sjávarréttaveislan er ein af fjáröflunum klúbbsins og er afraksturinn nýttur til ýmissa góðar málefna í sveitarfélaginu.

Auglýsing

Veiðigjöld: frítekjumark hækkað

Áskell og Vörður ÞH í Ísafjarðarhöfn. Mynd: Heimir Tryggvaason.

Ríkkisstjórnin hefur dreift frumvarpi sínu á Alþingi um hækkun veiðigjalda. Í því hefur verið gerð sú breyting á áður kynntum frumvarpsdrögum að svokölluðu frítekjumarki er breytt og það hækkað. Við það lækka áætlaðar tekjur af breytingunni um 1,5 milljarð króna.

Skv. frumvarpinu verður álagt veiðigjald á útgerðir landsins 19,5 milljarðar króna en hefðu orðið 12 milljarðar króna skv. gildandi reglum. Frá álagningunni dregst lækkun vegna frítekjumarksins. Er hún nú talin verða 2,2 milljarðar króna en hún var áður um hálfur milljarður króna.

Hækkunin er um 3 -4 milljarðar króna á uppsjávarfisktegundir og 5 -6 milljarðar króna á þorsk og ýsu skv. því sem fram kemur í greinargerð með frumvarpinu.

Innheimt veiðigjald verður því 17,3 milljarðar króna skv frumvarpinu en hefði orðið 11,2 milljarðar króna miðað við meðaltal síðustu þriggja ára. Hækkunin er um 6 milljarðar króna.

Í gildandi lögum er veittur afsláttur 40% af fyrstu 6 m.kr. álögðu veiðigjaldi eða samtals að hámarki 2,4 m.kr.

Í frumvarpinu er lagt til að afslátturinn verði 40% af fyrstu 50 milljónum kr. af álögðu veiðigjaldi af þorski og ýsu og til viðbótar 40% af fyrstu 9 m.kr. álögðu veiðigjaldi af öðrum fisktegundum. Samkvæt þessu verður afslátturinn 20 m.kr. og 3,2 m.kr. eða að hámarki 23,2 hjá þeim útgerðum sem geta nýtt afsláttinn að fullu.

50 – 59% hækkun í Ísafjarðarbæ

Birtar eru upplýsingar um áhrif frumvarpsins eftir sveitarfélögum og er miðað við skráningu greiðenda. Mest verður hækkunin í Árneshreppi 80 – 89%. Í Súðavík er hækkunin 70 – 79% og Ísafjarðarbæ og í Strandabyggð er hækkunin 50 – 59%.

Í Bolungavík, Kaldrananeshreppi, Vesturbyggð og Tálknafjarðahreppi er hækkunin 40 – 49%. Minnst eru áhrifin í Reykhólahreppi 0 – 9%.

Auglýsing

Vikuviðtalið : Neil Shiran Þórisson

Starfa sem fjármálastjóri hjá Háafelli, sem er  laxeldisfyrirtæki sem Hraðfrystihúsið Gunnvör (HG) á.  Er búinn að vera í því starfi í um eitt og hálft ár, þurfti ekki mikinn aðlögunartíma þar sem ég kom úr laxeldisfyrirtæki og þekkti nokkuð vel til Háafells og HG.  Starfið er fjölbreytt þar sem ég er líka að sjá um sölumál félagsins en er auk þess að sinna öðrum rekstrartengdum verkefnum.  Þar sem við erum að slátra fiski þessa dagana er mikið um að vera.  Verð á mörkuðum hafa lækkað nokkuð og það er því talsverð áskorun að hámarka verðmætin úr þessari slátrun.  Þegar fiskinum er slátrað þá er búið að fjárfesta í honum í um þrjú ár með allri þeirri óvissu sem fylgir seiðaeldinu og eldinu í sjó. Það er því  gaman að vera inn í sölunni og sjá afrakstur fjárfestinganna verða að verðmætum í þeim viðskiptum sem við eigum í við okkar kaupendur.  Fjármálatengdu verkefnin eru kerfisbundin og regluleg og því gott að fá að vera virkur þáttakandi í daglegum rekstrartengdum verkefnum til þess að brjóta upp tilveruna og formfestuna. Er einnig lánsamur að vera með góða samstarfsfélaga og gaman að mæta í vinnuna daglega hjá fyrirtæki sem ég er stoltur af að tilheyra.

Utan vinnunnar hef ég sinnt mínum tveimur helstu áhugamálum.   Á veturna er það félagsstarfið hjá Körfuknattleiksdeild Vestra. Þar höfum við undanfarin ár verið að leggja áherslu á að byggja upp starfið á okkar elstu iðkendum úr barna- og unglingastarfinu. Þar er í mörg horn að líta en sem betur fer eru góðir félagar og foreldrar að starfa við þessi sjálfboðaliðastörf. Á sumrin er það Golfklúbbur Ísafjarðar, en auk stjórnarstarfa spila ég helst daglega  a.mk. 9 holur af golfi á sumrin ef ég get. Er þeirrar gæfu aðnjótandi að synir mínir spila mjög oft með mér og er það skemmtileg samvera.  Þá eru mínir bestu vinir mjög áhugasamir og líklega jafn forfallnir og ég í golfinu. Það eru sífellt fleiri sem átta sig á að með því að búa á Ísafirði gefst góður tími til þess að sinna félagsstörfum og áhugmálum. 

Ég er kvæntur Hafdísi Gunnarsdóttur, sviðsstjóra skóla og tómstundasviðs Ísafjarðarbæjar.  Við eigum þrjá syni, Jón Gunnar 18 ára er elstur, Guðmundur Arnór 15 ára er miðjubarnið og svo er sá yngsti Þórður Örn 6 ára.   Við Hafdís höfum búið á Ísafirði frá því að við kláruðum okkar háskólanám og vorum lánsöm að geta fundið störf sem hentuðu okkar námi og styrkleikum.  Fjölskyldan metur mikils þau lífsgæði sem við höfum á Ísafirði.

Auglýsing

Ísafjörður: Málþingi um snjóflóð og samfélög

Málþing um snjóflóð og samfélög verður haldi á Ísafirði dagana 5.-6. maí 2025, en málþingið er haldið í tilefni af að 30 ár eru nú liðin frá snjóflóðunum í Súðavík og á Flateyri. Hægt er að fylgjast með málþinginu í streymi á vef Stjórnarráðsins. https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2025/05/02/Streymi-fra-malthingi-um-snjoflod-og-samfelog/. Málþingið hefst kl 12 mánudaginn 5. maí.

Snjóflóð og skriðuföll hafa valdið mörgum slysum, stórfelldu efnahagslegu tjóni og margs konar röskun á starfsemi og mannlífi hér á landi allt frá landnámi. Mannskaðasnjóflóðin í Neskaupstað í desember 1974 og svo í Súðavík í janúar 1995 og á Flateyri í október sama ár ollu straumhvörfum í afstöðu Íslendinga til snjóflóðahættu og síðan hefur verið unnið ötullega að uppbyggingu snjóflóðavarna og bættum viðbúnaði við snjóflóðahættu.

Á málþinginu verður sjónum beint að samfélögum á hættusvæðum, öryggi á vegum, uppbyggingu á ofanflóðavörnum í landinu og þeim áhrifum sem sú uppbygging hefur á þróun byggða. Einnig verður fjallað um endurskoðun á mögulegri hættu undir varnargörðum og þann lærdóm sem dreginn hefur verið af snjóflóðunum sem féllu á varnargarða á Flateyri í janúar 2020, þar sem hluti flóðanna barst yfir garðana, og í Neskaupstað í mars 2023 þar sem snjóflóð lentu á varnargörðum og keilum.

Skipuleggjendur málþingsins eru Ofanflóðasjóður, Veðurstofa Íslands, Vegagerðin, Almannavarnir, Samband íslenskra sveitarfélaga, Byggðastofnun, Verkfræðingafélag Íslands og Snjóflóðasamtök Íslands.

Meðal fyrirlesara eru: Harpa Grímsdóttir, deildarstjóri ofanflóðadeildar Veðurstofu Íslands, Elías Pétursson, formaður Ofanflóðanefndar, Þóroddur Bjarnason, prófessor við HÍ, Halla Ólafsdóttir, dagskrárgerðarmaður á Ísafirði, Magni Hreinn Jónsson, fagstjóri ofanflóðahættumats hjá Veðurstofu Íslands, Bergþóra Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri þjónustusviðs Vegagerðarinnar, Edda Björk Þórðardóttir, dósent við Læknadeild HÍ og klínískur sálfræðingur, Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn og Hlynur Hafberg Snorrason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vestfjörðum. Þá munu fyrrverandi framkvæmdastjórar sveitarfélaga fara yfir áskoranir sveitarfélaga vegna ofanflóðahættu fyrr og nú.

Hlekkur á streymi: https://vimeo.com/event/5105377/embed/e842756d60/interaction

Dagskrá er að finna í viðhengi og á Ofanflóð 2025 – Málþing um snjóflóð og samfélög

Auglýsing

Nýjustu fréttir