Á laugardaginn var tilkynnt um 1 m.kr. styrk til kaupa á nýju björgunarskipi fyrir Björgunarfélag Ísafjarðar. Það eru Kiwanisklúbburinn Básar, útgerðarfélagið Öngull og starfsmannafélag áhaldahússins sem leggja fram fé til kaupanna. Kiwanisblúbburinn gefur 300 þúsund kr., starfsmannafélagið 200 þúsund krónur og útgerðarfélagið Öngull 500 þúsund krónur.
Það er Landsbjörg ásamt ríkissjóði sem annast smíði nýrra björgunarskipa og fara tvö þeirra til Vestfjarða. Annað til Patreksfjarðar og hitt til Ísafjarðar.
Að sögn Ragnars Kristinssonar, gjaldkera björgunarbátasjóðs Ísafjarðar kemur nýja skipið í október. Kostnaður við hvert skip er um 340 m.kr. Ríkissjóður greiðir helming og Landsbjörg fjármagnar fjórðung. Heimamenn á hverjum stað sjá svo um síðasta fjórðunginn, sem er um 85 m.kr.
Ragnar sagði fjársöfnun björgunarbátasjóðsins færi nú af stað fyrir alvöru og hvatti hann alla þá sem vildu styrkja kaupin að hefjast handa, svo sem fyrirtæki og starfsmannafélög.
Ragnar sagði að settur verður sérstakur gálgi á skipið sem kemur til Ísafjarðar svo það geti verið með gúmbjörgunarbát tilbúinn um borð og því verði kostnaður heimamanna um 90 m.kr. Það er fjárhæðin sem stefnt er að því að safna fyrir. Þetta sagði Ragnar nauðsynlegt vegna þess hve oft verða útköll yfir í Jökulfirði og stundum koma önnur útköll þegar báturinn er fyrir í útkalli. Þá kemur sér vel að hafa búnaðinn svo ekki þurfi fyrst að fara til Ísafjarðar og sækja gúmbátinn.
Skipið er smíðað í Finnlandi. Það er 17 metra langt af gerðinni Kewatec Serecraft SAR 17.

Útlitsmynd af nýja björgunarbátnum.