Í frétt frá Byggðastofnun kemur fram að á síðasta ári hafi samningar Byggðastofnunar um aflamark hennar við útgerðir og vinnsluaðila um allt land runnið sitt skeið á enda.
Vinna við nýja samninga hefur því verið fyrirferðamikil síðustu misserin en gerðir hafa nú verið samningar í öllum þátttökubyggðalögunum, utan við Flateyri en sá samningur mun væntanlega líta dagsins ljós á næstu vikum.
Alltaf er mikil umræða um þetta verkefni Byggðastofnunar og skiljanlegt að menn hafi á því skiptar skoðanir þar sem verið er að úthluta takmörkuðum gæðum án endurgjalds.
Því er það mikið metnaðarmál starfsmanna stofnunarinnar í þessu verkefni sem og öðrum að vanda vel til verka og fylgja skýrum réttarheimildum að því er segir í frétt Byggðastofnunar.
Nýir samningar eru í flestum tilfellum til sex ára og með það að markmiði að auka fyrirsjáanleika í rekstri samningsaðila og ýta þannig undir byggðafestu í viðkomandi byggðum.
Samkvæmt skilagreinum samningsaðila viðhéldu eða sköpuðu samningarnir 416 ársverkum/störfum í mörgum af viðkvæmustu byggðalögum á Íslandi á seinasta fiskveiðiári. Störf sem mörg hver hefðu ella aflagst með viðeigandi neikvæðum byggðaáhrifum á þessum stöðum.