Samtök sjávarútvegssveitarfélaga fékk KPMG til þess að gera greiningu á fyrirhugaðri hækkun veiðigjalda sundurliðað eftir sveitarfélögum. KPMG segir að greiningin byggi á opinberum gögnum úr frumvarpinu, frá Fiskistofu og Hagstofu Íslands og að ekki hafi verið framkvæmd sérstök könnun á áreiðanleika þeirra gagna sem byggt er á, en miðað er við að um traustar heimildir sé að ræða.
Niðurstaða KPMG er að vænt hækkun veiðigjalda m.t.t. frítekjumarka er um 7,9 ma.kr. Um 90% af hækkuninni falli á fyrirtæki með heimilisfesti í 8 sveitarfélögum.
Alls munu 141 fyrirtæki verða fyrir verulegum áhrifum af hækkun veiðigjalda.
Veruleg hækkun er skilgreind þannig að hækkun veiðigjalda vegi 80% eða meira af meðalhagnaði félaganna 2020-2023.
1,5 milljarður kr. í Vestmannaeyjum
Nærri einn og hálfur milljarður króna af hækkuninni fellur á fyrirtæki sem skráð eru í Vestmannaeyjum. Svipuð fjárhæð kemur frá Fjarðabyggð, 1.262 m.kr. af hækkuninni leggst á fyrirtæki í Reykjavík og 986 m.kr. á Akureyri. Nokkur fyrirtæki eru með starfsstöðvar í fleiri sveitarfélögum en öllu hækkunin er þá færð á skráningarsveitarfélagið. Þetta á einkum við um Vestmannaeyjar, Akureyri og Reykjavík.
377 m.kr. á Vestfjörðum
Af hækkuninni sem er 7,9 milljarðar króna leggst 377 m.kr. á fyrirtæki á Vestfjörðum skv. greiningu KPMG. Nær öll upphæðin er á fyrirtæki í Ísafjarðarbæ, Bolungavík og Vesturbyggð.
Ísafjarðarbær 202,8 m.kr. og hækkar hjá 11 fyrirtækjum
Vesturbyggð 67,0 m.kr. og 15 fyrirtæki verða fyrir hækkun
Bolungavík 100,3 m.kr. og 6 fyrirtæki fá hækkun
Drangsnes 1,1 m.kr.
Súðavík 3,7 m.kr.
Strandabyggð 1,0 m.kr.
Árneshreppur 0,9 m.kr.
Reykhólahreppur 0 m.kr.
Ekki kemur fram í greiningunni hve veiðigjöldin voru há á síðasta ári.