Fimmtudagur 15. maí 2025

Grásleppan komin í nefnd

Lilja Rafney Magnúsdóttir, alþm mælti á þriðjudaginn á Alþingi fyrir frumvarpi meirihluta atvinnuveganefndar um veiðistjórn grásleppu.

Í frumvarpinu er lagt til að falla frá aflamarksstjórn á grásleppuveiðum, sem Alþingi samþykkti í fyrra og verður stjórnunin færð til fyrra horfs.

Tekin verði upp veiðistýring með útgáfu leyfa sem bundin eru við þá aðila sem veiðar stunduðu á tilteknu árabili. Ákvörðun um fjölda veiðidaga taki þá mið af leyfilegum heildarafla, þátttöku í veiðunum og þróun veiða á fyrstu vikum vertíðar. Frumvarpinu er ætlað að tryggja möguleika sjómanna til veiða sem stundað hafa þessar veiðar um árabil en hafa flestir ekki aflaheimildir í öðrum fisktegundum. Veiðarnar myndu því takmarkast við ákveðna stærð báta sem tryggir tilveru smærri útgerða og hinna dreifðu sjávarbyggða.

Flutningsmenn segja í greinargerð að grásleppuveiðar hafi ekki ógnað grásleppustofninum með nokkrum hætti sé litið til vísindalegrar veiðiráðgjafar Hafrannsóknastofnunar, enda hafi veiði nánast öll árin verið vel innan ráðgjafar stofnunarinnar. Frumvarpið falli því vel að markmiðum um verndun og hagkvæma nýtingu nytjastofna á Íslandsmiðum.

Töluverðar umræður urðu um frumvarpið við fyrstu umræðuna og lögðust þingmenn stjórnarandstöðunnar sem til máls tóku gegn frumvarpinu. Töldu þeir að nauðsynlegur fyrirsjáanleiki í útgerðinni væri ekki með stjórnun í fjölda veiðidaga og fleiri atriðum.

Stjórn grásleppuveiðanna í ár hefur verið með nýja sniðinu og kvótasetningunni en verður horfið frá því fyrir næstu vertíð ef frumvarpið verður að lögum.

Að umræðunni lokinni var málinu vísað til atvinnuveganefndar.

Auglýsing

Nýtt á BB

Auglýsing

Fleiri fréttir