Landsnet verður með kynningarfund á Ísafirði í dag. Fundurinn verður í Bryggjusalnum í Edinborgarhúsinu og hefst kl 16.
Gerð verður grein fyrir helstu breytingum í kerfisáætlun 2025-2034. Sérfræðingar Landsnets, sem komu að gerð hennar, munu sitja fyrir svörum varðandi þau atriði sem fram koma á kynningum fundanna.
Kerfisáætlun Landsnets gefur innsýn inn í áætlanir fyrirtækisins um þróun og endurnýjun flutningskerfisins næstu 10 árin, 2025 – 2034. Í langtímaáætlun má lesa um forsendur og forgangsröðun til tíu ára. Í framkvæmdaáætlun kemur fram nánari greining á verkefnum næstu þriggja ára 2026 – 2028.
Meðal verkefna sem gerð er grein fyrir er tenging Hvalárvirkjunar við flutningskerfið.
Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á síðari hluta árs 2028 og að þeim ljúki árið 2030.
Tímasetning verkefnisins er þó með fyrirvara um framgang framkvæmda við virkjunina.
Um verkefnið segir í þriggja ára áætluninni:
„Verkefnið snýr að tengingu Hvalárvirkjunar við meginflutningskerfið um nýjan afhendingarstað við Ísafjarðardjúp í Miðdal. Byggt verður nýtt tengivirki og lína sem tengist flutningskerfinu um nýjan afhendingarstað í Miðdal, þar sem byggt verður við nýtt tengivirki. Vesturverk stefnir á að taka í rekstur nýja virkjun, Hvalárvirkjun árið 2030. Tengja þarf virkjunina við meginflutningskerfi Landsnets og verður það gert í tveimur aðskildum framkvæmdum hér, annars vegar tengingu Hvalárvirkjunar og hins vegar með uppbyggingu nýs afhendingarstaðs í Miðdal.“
Fundurinn er opinn almenningi og allir velkomnir.