Blámi, Orkubú Vestfjarða og ÍSOR stóðu fyrir íbúafundi sem haldinn var á Patreksfirði 6. maí 2025. Á fundinum var fjallað um stöðu jarðhitaleitar á svæðinu og möguleika hennar í tengslum við orkuskipti og framtíð fjarvarmaveitu bæjarins.
Á fundinum kom fram að töluvert af jarðhita er að finna á víða á Vestfjörðum og þörf sé á frekari rannsóknum til að átta sig á hvar og hvernig er hægt að sækja hann.
Á Patreksfirði hafa verið boraðar 16 jarðhitaholur, alls um 2.500 metra dýptar, og hafa niðurstöður sýnt að þar leynist volgur jarðhiti, aðallega um 25–30°C. Síðasta borholan sem var boruð árið 2023, með merkinguna GE-14, gaf yfir 30 sekúndulítra af um 25°C heitu vatni. Haldið verður áfram að bora eftir heitu vatni á Patreksfirði en í sumar verður boruð vinnsluhola, um 300 metra djúp, ásamt fleiri rannsóknarholum.
Síðustu ár hafa sjónarmið tekið breytingum hvað varðar jarðhita og hefur áherslan á nýtingu volgs vatns (25-60°C) samhliða aukist í takt við tækniframfarir á borð við samspil jarðhita við varmadælur og aukna þörf fyrir hagkvæmari orku til húshitunar.
Í erindum fundarins kom skýrt fram að jarðhiti getur leikið mikilvægt hlutverk í orkuskiptum á landsbyggðinni. Með því að nýta jarðhita í stað rafmagns eða jarðefnaeldsneytis til húshitunar skapast sjálfbærari innviðir, sparnaður í orkukostnaði og aukið orkuöryggi. Þar að auki losar slíkt raforku sem nýta má í annað og styður við markmið Íslands um kolefnishlutleysi fyrir árið 2040.
Enn fremur var rætt um að takmörkuð afhendingargeta raforku á Vestfjörðum gæti hamlað þróun samfélagsins, atvinnulífs og lífsgæða. Því er nauðsynlegt að fjárfesta í innviðum og gera jarðhitann að burðarás í núverandi veitukerfum.
Niðurstaða fundarins var sú að þrátt fyrir að jarðhitaleit sé tímafrek og krefjandi, sé hún nauðsynleg og lofandi. Með réttum fjárfestingum og áframhaldandi rannsóknum gæti Patreksfjörður orðið fyrirmynd annarra byggðarlaga í sjálfbærri orkunýtingu og framtíðarlausnum í húsahitun.
Auglýsing