Laugardagur 10. maí 2025
Heim Blogg Síða 6

Sniglarnir – Bifhjólasamtök lýðveldisins söfn­uðu fyrir vega­gerð

Söfnunarátak Sniglanna bar yfirheitið „Veginn heilan heim“ og fór af stað í samstarfi við Endurvinnsluna í desember í fyrra.

Tilgangurinn var að greiða niður 150 milljarða króna viðhaldsskuld á samgöngukerfinu.

Meginmarkmið átaksins var að vekja athygli á bágri stöðu á viðhaldi vega og þörf fyrir meira fé til framkvæmda.

Þann 1. maí var komið að því að afhenda afrakstur söfnunarinnar. Stjórn Snigla ásamt fríðum hópi mótorhjólafólks mætti fyrir framan Alþingi til að afhenda Arndísi Ósk Ólafsdóttur Arnalds, framkvæmdastjóra mannvirkjasviðs Vegagerðarinnar, ágóða söfnunarinnar.

Svo vel vildi til að Eyjólfur Ármannsson, innviðaráðherra, var á gangi um Austurvöll og slóst í hópinn enda málið honum sannarlega skylt. Gott samtal varð milli þessara aðila sem sammæltust um að berjast áfram fyrir bættum samgöngum.

Söfnunin gekk framar vonum en í heild söfnuðust 400 þúsund krónur sem samsvarar því að leggja 10 metra af malbiki, eða 50 metra af klæðingu. Það munar sannarlega um minna.

Auglýsing

Öruggari Vestfirðir

Þann 7. maí næstkomandi frá kl.10-15 verður annar samráðsfundur um „Öruggari Vestfirði“ haldin í Sauðfjársetrinu á Hólmavík.

Öruggari Vestfirðir er svæðisbundinn samráðsvettvangur þar sem unnið er með markvissum hætti að auknu öryggi íbúa með fræðslu um ofbeldi og skaðsemi þess auk varna gegn afbrotum á Vestfjörðum. Á samráðsfundum koma allir helstu hagaðilar á Vestfjörðum að undirbúningi eða samtali með einum eða öðrum hætti.

Á samráðsfundinum verður sérstök áhersla á forvarnir meðal barna og ungmenna. Því eru öll þau sem vinna með málefni barna og fjölskyldna sérstaklega velkomin á fundinn.

Auglýsing

Samningum Byggðastofnunar lokið nema á Flateyri

Í frétt frá Byggðastofnun kemur fram að á síðasta ári hafi samningar Byggðastofnunar um aflamark hennar við útgerðir og vinnsluaðila um allt land runnið sitt skeið á enda. 

Vinna við nýja samninga hefur því verið fyrirferðamikil síðustu misserin en gerðir hafa nú verið samningar í öllum þátttökubyggðalögunum, utan við Flateyri en sá samningur mun væntanlega líta dagsins ljós á næstu vikum.

Alltaf er mikil umræða um þetta verkefni Byggðastofnunar og skiljanlegt að menn hafi á því skiptar skoðanir þar sem verið er að úthluta takmörkuðum gæðum án endurgjalds. 

Því er það mikið metnaðarmál starfsmanna stofnunarinnar í þessu verkefni sem og öðrum að vanda vel til verka og fylgja skýrum réttarheimildum að því er segir í frétt Byggðastofnunar. 

Nýir samningar eru í flestum tilfellum til sex ára og með það að markmiði að auka fyrirsjáanleika í rekstri samningsaðila og ýta þannig undir byggðafestu í viðkomandi byggðum. 

Samkvæmt skilagreinum samningsaðila viðhéldu eða sköpuðu samningarnir 416 ársverkum/störfum í mörgum af viðkvæmustu byggðalögum á Íslandi á seinasta fiskveiðiári.  Störf sem mörg hver hefðu ella aflagst með viðeigandi neikvæðum byggðaáhrifum á þessum stöðum.  

Auglýsing

Ísafjarðarbær fær 9 m.kr. styrk vegna netöryggis

Sjóður á vegum Rannís, Eyvör, hefur samþykkt að veita Ísafjarðarbæ 9 m.kr. styrk til að vinna að netöryggi. Verkefnið felur í sér ítarlega úttekt á netkerfum sveitarfélagsins, með áherslu á
veikleikaskimun, öryggisgreiningu og fræðslu starfsmanna um netöryggi. Markmið
verkefnisins er að greina hugsanlegar öryggisógnir, efla innri þekkingu starfsmanna og auka
vitund um mikilvægi netöryggis innan sveitarfélagsins. Niðurstöður verkefnisins munu leggja
grunn að bættri netöryggismenningu og öruggari stafrænum innviðum segir í minnisblaði verkefnisstjóra tæknilausna og innkaupa til bæjarráðs.

Áhrif verkefnisins á sveitarfélagið eru m.a. aukið rekstraröryggi og betri vernd persónuupplýsinga, ásamt betri undirbúningi gegn netárásum og gagnalekum.

Heildarkostnaður verkefnisins er áætlaður 10.800.000 kr., þar af nemur styrkur Eyvarar NCCIS 9.000.000 kr. eða 83,3% af heildarkostnaði. Mótframlag Ísafjarðarbæjar nemur að hámarki 1.800.000 kr., eða 16,7% af heildarkostnaði. Mótframlagið er fyrst og fremst vinnuframlag starfsfólks sveitarfélagsins. Komi til þess að vinnuframlag sveitarfélagsins nái ekki að uppfylla þetta framlag að fullu gæti þurft að leggja fram hluta þess í formi fjármagns, þó aldrei hærri upphæð en 1.800.000 kr.

Bæjarráð samþykkti í síðustu viku að leggja fram mótframlag sveitarfélagsins.

Auglýsing

Skotís: 17 verðlaun á Íslandsmeistaramóti

Sveit Skotís í liðakeppninni í 50 m liggjandi riffil sem vann gullið. Mynd: Skotís.

Um helgina fór fram Íslandsmeistaramót í skotíþróttum á vegum Skotíþróttafélags Íslands. Keppt var í Digranesi í Kópavogi. Skotíþróttafélag Ísafjarðar sendi 7 keppendur til leiks og fengu þeir 8 Íslandsmeistarartitla og samtals 17 verðlaun.

Leifur Bremnes vann gull í 50 metra þrístöðuriffli og Karen Rós Valsdóttir varð hlutskörpust í stúlknaflokki í 50 metra liggjandi. Í liðakeppninni varð sveit Skotís Íslandsmeistari.

Auglýsing

Súðavík: vill ræða við sveitarstjórn Strandabyggðar

Sveitarstjórn Súðavíkurhrepps tók fyrir erindi frá Strandabyggð þar sem óskað er eftir óformlegum viðræðum um sameiningu sveitarfélaganna. Sveitarstjóra var falið að finna tíma í maí fyrir fund með sveitarstjórn Strandabyggðar. Ekkert er bókað um afstöðu til sameiningar sveitarfélaganna.

Þá tók sveitarstjórn Árneshrepps fyrir sams konar erindi fyrir páskana frá Strandabyggð. Um það er einungis bókað að umræður fóru fram um sameiningarmál á fundinum.

Auglýsing

Knattspyrna: Vestri aftur á toppinn

Gunnar Jónas Hauksson skorar seinna mark Vestra í Eyjum í gær.

Enn heldur knattspyrnulið Vestra í Bestu deild karla að koma sparkspekingum á óvart. Í gær sótti Vestri heim ÍBV í Vestmannaeyjum. Eyjamenn hafa einnig komið á óvart í byrjun móts og voru með 7 stig eftir fyrstu þrjár umferðirna,rétt eins og Vestri.

Í leiknum voru það Vestfirðingarnir sem höfðu betur, spiluðu sterka og skipulagða vörn og sóttu hratt fram á við þegar færi gafst. Vladimir Tufegdiz skoraði fyrra markið rétt fyrir lok fyrri hálfleiks og Gunnar Jónas Hauksson skoraði síðara markið skömmu fyrir leikslok eftir snögga sókn.

Vestri var í 3. sæti deildarinnar eftir fyrstu þrjár umferðirnar og sigurinn í gær gerði það að verkum að liðið tyllti sér á toppinn. Fjórðu umferð lýkur í kvöld en Vestri hefur með sigrinum tryggt sér að verða ekki neðar en í 3. sæti. Breiðablik og Víkingur geta komist upp fyrir Vestra en verða þá að vinna sína leiki í kvöld.

Næsti leikur verður á Ísafirði á laugardaginn kemur. Leikið verður á Kerecis vellinum á Torfnesi og það verður Afturelding úr Mosfellsbænum sem kemur í heimsókn.

Auglýsing

Ísafjörður: Styrkja kaup á nýju björgunarskipi um 1 m.kr.

Frá styrkafhendingunni sem fór fram í Kiwanishúsinu Sigurðarbúð. F.v. Páll Brynjar Pálsson, Ragnar Kristinsson, Eggert Stefánsson,Kolbeinn Guðjónsson og Marinó Arnórsson. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Á laugardaginn var tilkynnt um 1 m.kr. styrk til kaupa á nýju björgunarskipi fyrir Björgunarfélag Ísafjarðar. Það eru Kiwanisklúbburinn Básar, útgerðarfélagið Öngull og starfsmannafélag áhaldahússins sem leggja fram fé til kaupanna. Kiwanisblúbburinn gefur 300 þúsund kr., starfsmannafélagið 200 þúsund krónur og útgerðarfélagið Öngull 500 þúsund krónur.

Það er Landsbjörg ásamt ríkissjóði sem annast smíði nýrra björgunarskipa og fara tvö þeirra til Vestfjarða. Annað til Patreksfjarðar og hitt til Ísafjarðar.

Að sögn Ragnars Kristinssonar, gjaldkera björgunarbátasjóðs Ísafjarðar kemur nýja skipið í október. Kostnaður við hvert skip er um 340 m.kr. Ríkissjóður greiðir helming og Landsbjörg fjármagnar fjórðung. Heimamenn á hverjum stað sjá svo um síðasta fjórðunginn, sem er um 85 m.kr.

Ragnar sagði fjársöfnun björgunarbátasjóðsins færi nú af stað fyrir alvöru og hvatti hann alla þá sem vildu styrkja kaupin að hefjast handa, svo sem fyrirtæki og starfsmannafélög.

Ragnar sagði að settur verður sérstakur gálgi á skipið sem kemur til Ísafjarðar svo það geti verið með gúmbjörgunarbát tilbúinn um borð og því verði kostnaður heimamanna um 90 m.kr. Það er fjárhæðin sem stefnt er að því að safna fyrir. Þetta sagði Ragnar nauðsynlegt vegna þess hve oft verða útköll yfir í Jökulfirði og stundum koma önnur útköll þegar báturinn er fyrir í útkalli. Þá kemur sér vel að hafa búnaðinn svo ekki þurfi fyrst að fara til Ísafjarðar og sækja gúmbátinn.

Skipið er smíðað í Finnlandi. Það er 17 metra langt af gerðinni Kewatec Serecraft SAR 17.

Útlitsmynd af nýja björgunarbátnum.

Auglýsing

Strandveiðar hefjast í dag

Töluverð umferð var við höfnina í gær og unnið að því að gera klárt fyrir strandveiðina. Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Strandveiðar smábáta hefjast í dag. Fyrir liggur yfirlýsing í ríkisstjórnarsáttmála að heimilt verði að veiða í 48 daga í ár, 12 daga í mánuði næstu fjóra mánuði.

Þegar hefur Fiskistofa gefið út 775 leyfi til strandveiða og hafa aldrei verið fleiri. Tugir umsókna til viðbótar eru óafgreiddar.

Vestfirðir tilheyra svæði A og þar hafa verið gefin út 342 leyfi sem er 13 færra en í fyrra. Á öðrum svæðum eru leyfin mun færri. Næstflest leyfi eru á svæði D. Þar eru útgefin leyfi 196 og hefur þeim fjölgað nokkuð frá síðasta ári þegar þau voru 159.

Flestir strandveiðibátar voru í fyrra á Patreksfirði og í Bolungavík og búast má við því að svo verði áfram.

Strandveiðibátarnir tilbúnir fyrir róður í dag.

Auglýsing

Ísafjörður: Myndalottó – Safnahúsið okkar

100 ára afmæli Safnahússins við Eyrartún

2. maí – 17. júní 2025

Í tilefni 100 ára afmælis Safnahússins við Eyrartún bjóðum við öllum börnum og ungmennum, 18 ára og yngri, að taka þátt í Myndalottói! (Athugið: Fullorðnir mega einnig endilega skila inn verkum en verða utan við lottóútdráttinn.)

Hvernig tek ég þátt?

✏️ Sendu inn tvívíða mynd – teikningu, málverk eða stafræna mynd – sem túlkar Safnahúsið á einhvern hátt.

Hámarksstærð: A4.

Myndin þarf að vera vel merkt með nafni og fæðingarári þátttakanda.

📅 Innsendingarfrestur: til og með 1. júní 2025.

Skil á verkum:

Myndunum skal skila í umslagi merkt Myndalottó ásamt nafni þátttakanda, annað hvort í kassa í anddyri Safnahússins eða inn um póstlúgu hússins.

Aðstaða í safninu:

🎨 Í Safnahúsinu verður hægt að fá blöð og liti fyrir þá sem vilja vinna myndina sína á staðnum allan maímánuð. Aðstaða verður inn af sýningarsal safnsins á annarri hæð, við salernið.

Hvað gerist næst?

Öll þátttökuverk verða sýnd á gangi Safnahússins á afmælisdeginum, 17. júní 2025.

🎈 Þennan dag verður einnig fjölbreytt hátíðardagskrá í húsinu, með sýningaropnunum og viðburðum.

Verðlaun og viðurkenningar:

🏆 Fimm verðlaunaverk verða valin – eitt úr hverjum aldurshópi.

Útdráttur ræður hvaða verk vinna – þannig hefur hver þátttakandi jafna möguleika!

Allir þátttakendur fá þátttökuverðlaun sem afhent verða við sýningaropnunina 17. júní 2025.

Auglýsing

Nýjustu fréttir