Miðvikudagur 14. maí 2025
Heim Blogg Síða 42

Sameiginleg æfing þyrlusveitar og áhafnarinnar á Þór

Æft var við Þrídranga og sigmönnum slakað þar niður og ástand vitans kannað. Eftir tæplega tveggja tíma æfingu var hífingum lokið og þyrlan hélt þá aftur til Reykjavíkur.

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar og áhafnir varðskipanna halda reglulega sameiginlegar æfingar til að stilla saman strengi sína.

Í fyrradag fór þyrluæfing fram með áhöfninni á Þór sem var við eftirlitsstörf norðvestur af Geirfuglaskeri. Um þessar mundir stendur yfir þjálfun á tveimur nýjum sigmönnum í þyrlusveitinni sem þurfa að gangast undir umfangsmikla grunnþjálfun.

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar og áhafnir varðskipanna halda reglulega sameiginlegar æfingar,

Auglýsing

Landsþingi Sam­bands ís­lenskra sveit­ar­fé­laga

Sigríður Júlía í pontu á landsþingi 2025.

Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga sem hefur æðsta vald í málefnum sambandsins kemur saman árlega í í ár er fundurinn haldinn í dag 20 mars. 

Ísafjarðarbær á þrjá kjörna landsþingsfulltrúa, sem jafnframt hafa atvæðisrétt. Það eru þau Gylfi Ólafsson, Nanný Arna Guðmundsdóttir og Steinunn Guðný Einarsdóttir. Þá eru framkvæmdastjórar sveitarfélaga með málfrelsi á þinginu.

Á dagskrá þingsins, fyrir utan hefðbundin þingstörf, eru ávörp frá innviðaráðherra og mennta- og barnamálaráðherra og kynningar á stöðu fjármála sveitarfélaga vegna kjarasamninga og breytingum á Jöfnunarsjóði. Þá eru lagðar fram tillögur frá þingfulltrúum.

Þá mun Heiða Björg Hilmisdóttir núverandi formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga láta af formennsku í dag. Tillaga um að hægt sé að víkja formanni frá störfum var lögð fram á þinginu, en talsverð óánægja hefur ríkt með Heiðu Björg sem formann að undanförnu.

Auglýsing

Vesturbyggð: 20 m.kr. til kaupa á björgunarskipi

Ráðhús Vesturbyggðar.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar samþykkti á fundi sínum í vikunni að styrkja kaup Landsbjargar á nýju björgunarskipi til Patreksfjarðar um 20 m.kr., sem greidd verða á næstu fjórum árum.

Erindi barst frá Björgunarbátasjóð Barðastrandarsýslu dags. 19. febrúar 2025 um stuðning frá Hafnasjóði Vesturbyggðar. Í erindinu kemur fram að nú sé komið að endurnýjun á björgunarskipi á svæði 6, Verði II sem þjónustar svæði frá Arnarfirði að Kollafirði á sunnanverðum Vestfjörðum.

Heildarkostnaður við smíði skipsins er 340 milljónir króna og það sem fellur í hlut Björgunarbátasjóðs Vestur Barðastrandarsýslu eru 85 milljónir króna. Áformað er að nýtt björgunarskip verði afhent 2026.

Nýju skipin eru smíðuð í Finnlandi í skipasmíðastöð KewaTec og eru útbúin með nýjustu siglingatæki og búnað til leitar og björgunar. Nýju skipin eru 17,1 metri að heildarlengd og eru með 5 tonna dráttargetu. Þau eru knúin áfram af tveimur öflugum Scania vélum sem geta komið þeim á allt að 32 hnúta, ganghraði núverandi skips er 14 hnútar. Gert er ráð fyrir allt að 6 áhafnarmeðlimum í fjaðrandi sætum. Skipin hafa getu til að bjarga allt að 60 manns í ítrustu neyð en pláss er fyrir 40 inni í skipinu auk þess sem í því er
eldunar- og svefnaðstaða sem er mikil framför frá eldra skipi. Skipið er sjálfréttandi og er farsvið nýs skips um 200 sm og eru skipin hönnuð til notkunar á úthafi. Þá eru öflugar brunadælur um borð sem koma að góðum notum ef slökkva þarf elda á sjó.

Auglýsing

MÍ í samstarf við Kómedíuleikhúsið

Heiðrún skólameistari, Elfar Logi og Dóróthea aðstoðarskólameistari.

Menntaskólinn á Ísafirði hefur tekið upp samstarf við Kómedíuleikhúsið.

Samstarfið felst í því að nemendur í ákveðnum áföngum sæki reglulega leiksýningar Kómedíuleikhússins í Haukadal og verði einnig leitast við að bjóða öllum nemendum skólans upp á leikhúsupplifun í húsnæði skólans a.m.k. einu sinni á ári.

Kómedíuleikhúsið er eina atvinnuleikhúsið á Vestfjörðum. Frá stofnun leikhússins árið 1997 hefur verður settur á svið fjöldi leikverka sem eiga það flest sameiginlegt að tengjast með einum eða öðrum hætti sögu Vestfjarða. Nokkur dæmi eru Gísli Súrsson, Jón Sigurðsson strákur að vestan og Ariasman sem er nýjasta leikverk Kómedíuleikhúss.

Auglýsing

Hvatvís grein um stöðu (að hluta) íslensku sem annars máls

Já, ég átta mig á því að ég hljóma líkt og rispuð plata og gef mér í hroka mínum að einhver nenni að renna augunum yfir það sem ég hamra á lyklaborðið. Skrif mín sem lúta að þessu máli bera keim af þráhyggju og máske smá geggjun. Só bí it!  En kannski má líta á það sem hér kemur sem eitthvað öðruvísi nálgun, nálgun þess sem er við það að leggja árar í bát þegar kemur að þessum málaflokki og segja bara „fokk it, íslensku er ekki viðbjargandi.”

Sjáum hvert hvatvísin leiðir oss.

Ég fæ ekki betur séð en að Ísland sé um margt í algerum draslflokki þegar kemur að máltileinkun innflytjenda. Byggi ég það mat mitt á því að hafa lifað og hrærst í heimi íslensku sem annars máls, verið þar vakinn og sofinn og leitast við að brydda upp á ýmsum nýjungum í málaflokknum með alltof mögrum árangri. Ég er sum sé maðurinn á bakvið Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag sem einhverjir kunna að hafa heyrt af eða lesið sér til um. Þetta er ágætis verkefni, þótt ég segi sjálfur frá, sem var spýtt í heiminn hjá Háskólasetri Vestfjarða, sem nýverið varð 20 ára (lengi lifi menntun á Vestfjörðum), en hefir nú flutt búferlum og er komið til Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða. Kem ég ekki nálægt verkefninu lengur en treysti á að það blómstri þar sem aldrei fyrr. Gefum íslensku séns er og verðlaunaverkefni, afsakið gorgeirinn. Samt hefir það enn sem komið er ekki skilað þeim árangri sem ég batt vonir við hér fyrir vestan. Langt í frá. Eftir 3-4 ár er útkoman enn mjög mögur. Því miður. Þetta tekur fáránlega langan tíma.

Við þetta má svo bæta að hefi ég kennt íslensku bæði sem erlent mál svo og annað mál í allt of langan tíma. Ég festist í þessu ginnungagapi fyrir að verða tuttugu árum og á mér líkast til engrar undankomu auðið. Og talandi um erlent mál þá er það þyngra en tárum tekur að sú skuli eiginlega vera raunin hérlendis að innflytjendur læri íslensku sem erlent mál sakir þess hve aðgengi að málinu er oft og tíðum bagalegt, að hvatinn til að nota málið sé vart til staðar að ekki sé sett pressa á fólk að nota málið sem það margt hvert leggur stund á í málaskóla þar sem vissulega þarf að bæta sig hvað fjölbreytni og framboð. Þetta eru ekki bara mín orð. Þetta segja nemendur mínir æ ofan í æ.

Dæmi: Iðulega þegar ég fylgist með samskiptum (fluga á vegg) móðurmálshafa og innflytjenda eða þess aðila sem hefir málið ekki að móðurmáli þá skal móðurmálshafinn oftlega sýna þeim aðila sem reynir að tjá sig á íslensku þá megnustu vanvirðingu að svara á ensku. Annað hvort af því viðkomandi nennir ekki að bíða þær tvær til fimm sekúndur sem það oft tekur aðilann að melta það sem sagt var, eða þá að viðkomandi metur (hugsanlega) hinn aðilann framandlegan og byggir þá skoðun á útliti viðkomandi að hann/hún eða hán (djöfull er ég vók) kunni ekki málið, geti vart kunnað það. Stundum næ ég ekki að sitja á strák mínum og finn mig knúinn til að benda á að aðilinn tali íslensku, hann hafi rétt í þessu verið að því. Sannlega pirraður og nenni ekki einu sinni lengur að fara í grafgötur með það.

Sé fólk í vafa má bara ósköp einfaldalega ákveða að „kunna ekki“ ensku. Þá þarftu að tala íslensku ekki satt? Eða ætlarðu kannski að tala pólsku?

Hver svo sem ástæðan er þá eru skilaboðin skýr: Íslenska er ekki fyrir þig og fjandinn hafi mig ef ég reyni nú að gera svo lítið að liðsinna þér við að ná tökum á málinu. Enginn furða þótt enskan ríði röftum þegar íslenskan er æ sett í annað sæti og oftlega undirskipuð eins og til að mynda má sjá í Leifsstöð.

Hér er bolli fyrir Íslendinga nema hvað þar ætti að standa: Ég nenni ekki að tala íslensku við þá sem læra hana.


Og svo hvað íslensku sem opinbert mál, lögfesta stöðu þess og það að ýta þýðingum á pólsku og ensku út á hafsauga (fært í stílinn hér) varðar þá er verið að byrja á öfugum enda þar. Þegar forsendurnar til að ná tökum á málinu eru vægast sagt slælegar þá er til lítils, nema þá til þess að gera fólk enn meira hornreka, að leggja blátt bann við slíkum þýðingum. Hitt er svo annað mál að vissulega má líta á þýðingar yfir á þessi mál sem grófa mismunun gagnvart þeim sem hafa önnur tungumál að móðurmáli og spyrja sig hvort þetta ætti ekki að gilda fyrir alla. Hvers eiga þeir sem hafa króatísku að móðurmáli t.d. að gjalda!? Eiga þeir þá bara að læra íslensku!? Það er þó önnur saga. Vissulega má taka undir að íslenskan eigi að vera ráðandi, helst kannski allsráðandi, að of mikið af þýðingum letji til íslenskunotkunar. En það gerir einnig almenn enskunotkun í samfélaginu. Það væri því hyggilegra að byrja á þeim endanum. Þá skapast kannski forsendur til að „forðast notkun útlensku í samskiptum við borgara í lengstu lög“ svo ég vitni til orða Snorra Mássonar.

En sennilega er okkur bara ekki viðbjargandi í þessum efnum.

Hugsanleg lausn: Hvetjum þá sem við þekkjum (innflytjendur) til að tala íslensku, tölum íslensku við þá, líka þegar þeir svara á ensku, líka þegar það tekur lengri tíma, líka þegar stundum þarf að giska á merkinguna … þetta er allt hluti af ferli máltileinkunar. Í mínu tilfelli er þetta einfalt: Ég neita að tala annað mál en íslensku, bara nenni því ekki og finnst ekki hægt að ætlast til þess af mér, en legg mig í líma við að tala skiljanlega, skýrt og einfalt. Slíkt má æfa. Ég mæli því með að fólk bjóði vini, maka, kunningja eða kollega með sér á kaffihús/tónleika/veitingastað eða þá á viðburði Gefum íslensku séns, búi viðkomandi fyrir vestan, (áþekk verkefni má örugglega og finna í heimabyggð) og spreyti sig á þessu. Þetta er æfing sem margborgar sig.

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson

Höfundur kennir íslensku sem annað mál við Háskóla Íslands.

Auglýsing

Lögreglan: gat ekki annað en brugðist við

Helgi Jensson er lögreglustjóri á Vestfjörðum.

Helgi Jensson, lögreglustjóri á Vestfjörðum segir að lögreglan á Vestfjörðum hafi tekið ákvörðun um að óska eftir aðstoð sérsveitar.

„Ég tel að í upphafi aðgerða hafi legið fyrir mun meira en rökstuddur grunur um tiltekin atvik og að lögregla hafi ekki getað annað en brugðist við. Í því fólst að óska eftir aðstoð sérsveitar, m.t.t. upplýsinganna sem lágu fyrir. Síðar, eftir talsvert umfangsmikla rannsókn kom í ljós að upplýsingarnar voru ekki réttar og þá var aðgerðum hætt þegar í stað.“

Helgi bætir því við að lögreglan bregðist við útköllum án þess að einhver rannsókn fari fram fyrir fram og ekki er krafist sannana áður en brugðist er við.

„Oft koma útköll í gegnum neyðarlínu. Síðar eftir að lögreglan kemur á staðinn eru atvik stundum ekki eins og útkallið gaf tilefni til. Yfirleitt látum við borgarana njóta vafans og bregðumst hratt við, en stoppum svo aðgerðir ef í ljós kemur að ekki er tilefni til þeirra.

Það var gert í þessu tilfelli og íbúar Bolungarvíkur látnir njóta vafans. Ég tel að viðbragð lögreglu hafi verið í réttu hlutfalli við þær upplýsingar sem í upphafi lágu fyrir. Ég get því miður ekki farið nánar út í hvað lá fyrir í upphafi og hvernig rannsókn lögreglu þróaðist.“

Auglýsing

Sigurrós Elddís ráðin kennslustjóri Lýðskólans á Flateyri

Sigurrós Elddís Huldudóttir hefur verið ráðin sem kennslustjóri við Lýðskólann á Flateyri og mun hún hefja þar störf 16.júní næstkomandi.

Sigurrós lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 2017. Hún lauk B.A. gráðu í sálfræði frá háskólanum á Akureyri árið 2021 og M.Sc. gráðu í heilsueflingu og heilsusálfræði við Háskólann í Bergen, Noregi, árið 2023.

Sigurrós starfar eins og er sem barna- og fjölskylduleiðbeinandi á heilsugæslu í sveitarfélaginu Frøya í Noregi. Hún hefur einni margra ára reynslu af félagsstarfi, meðal annars fyrir skiptinemasamtökin AFS.

Í tilkynningu frá Lýðskólanum segir að Sigurrós sé boðin velkomin og við hlökkum til samstarfsins og Erlu Margréti Gunnarsdóttur sem er að láta af störfum er þakkað kærlega fyrir allt sitt framlag til Lýðskólans á Flateyri.

Auglýsing

Vesturbyggð: nýr bæjarfulltrúi

Tryggvi Baldur Bjarnason, bæjarfulltrúi N lista nýrrar Sýnar, sem fékk meirihluta í bæjarstjórn Vesturbyggðar í síðustu sveitarstjórnarkosningum, var veitt lausn frá störfum að eigin ósk á bæjarstjórnarfundi í fyrradag. Tryggvi skipaði fjórða sætið á listanum við kosningarnar vorið 2024. Hann er verksmiðjustjóri í Kalkþörungaverksmiðjunni á Bíldudal og hefur búið þar frá 2015.

Sæti Tryggva tekur Þórkatla Soffía Ólafsdóttir. Hún sat áður í bæjarstjórninni á síðasta kjörtímabili.

Auglýsing

Hágæðaflug til Ísafjarðar

Ísafjarðarflugvöllur. Mynd: Ljósmyndasafnið Ísafirði.

Frá því að Icelandair tilkynnti í byrjun mars að fyrirtækið hygðist hætta flugi til Ísafjarðar hefur mikil umræða verið um framtíðarfyrirkomulag flugs til Ísafjarðar. Flugið er hraðleiðin á milli norðanverðra Vestfjarða og höfuðborgarsvæðisins þar sem nánast öll miðlæg þjónusta ríkisins er staðsett.

Bættar samgöngur á landi breyta ekki þeirri staðreynd að ekki er fyrirsjáanlegt að það muni taka skemmri tíma en tæpa 5 tíma að aka til Reykjavíkur. Meðal markmiða í gildandi samgönguáætlun segir „íbúar landsbyggðarinnar eigi kost á að komast til höfuðborgarsvæðisins á um 3,5 klst. samþættum ferðatíma, akandi, með ferju og/eða í flugi. Flugið er eina tegund almenningssamgangna til Ísafjarðar sem uppfyllt getur þetta markmið.

Ekki hvort heldur hvernig

Það er ekki spurning um hvort flogið verður áfram til Ísafjarðar heldur hvernig það verður gert bæði hvað varðar tíðni flugs og öryggi þjónustunnar. Núverandi staða og framtíð flugsins er háð mörgum þáttum sem hafa verður í huga þegar framtíðarfyrirkomulag flugsins er ákveðið. Vestfirðir eru í mikilli sókn og efnahagsleg umsvif hafa á síðustu árum aukist hratt. Því mun mikilvægi þess ekki minnka á næstu árum og til að viðhalda þessari sókn er gríðarlega mikilvægt að tryggt sé áætlunarflug með að minnsta kosti þeirri tíðni og öryggi sem hefur verið hluti af hjartslætti svæðisins.

Í fyrra fóru tæplega 28.000 farþegar í áætlunarflugi til og frá Ísafirði. Það sýnir þá miklu þörf sem er fyrir reglulegt flug ekki aðeins fyrir íbúa svæðisins heldur einnig fyrir ferðamenn, fólk í viðskiptaferðum og fjölmarga aðra. Til að viðhalda þessari mikilvægu samgönguæð þarf að tryggja ásættanlega tíðni fluga. Eitt af markmiðunum er að vera að flogið verði tvisvar á dag alla daga vikunnar. Þetta tryggir betri tengingar og aukið aðgengi að miðlægri þjónustu svo sem heilbrigðisþjónustu.

Einnig skiptir stærð flugvéla máli. Ekki þarf bara að tryggja sætaframboð, heldur er einnig mikilvægt að hægt sé að taka hópa. Fundir, ráðstefnur og ferðaþjónusta með hópa byggir á því, en einnig starf íþróttafélaga. Félög og fylgdarfólk þurfa auðvitað að komast á sama tíma til og frá. Þær 9 og 16 sæta vélar sem notaðar eru á nokkrum flugleggjum innanlands eru því öldungis óásættanlegar.

Undirbúningur er hafinn

Á þeim dögum sem liðnir eru frá tilkynningu Icelandair höfum við átt fjölmarga fundi um málefni flugsins til Ísafjarðar og aflað ýmissa gagna. Ljóst er af þeim samtölum að sérstaða flugvallarins hvað varðar aðflugsskilyrði og legu veldur því að ekki eru margar tegundir flugvéla sem geta lent þar. Hér þarf að skoða þær vélar sem flugfélög á Íslandi hafa yfir að ráða og hvernig hægt er að nýta þær á sem bestan hátt til að þjóna farþegum á þessari leið.

Í allmörg ár hefur verið flogið á Dash Q200 flugvélum til Ísafjarðar. Þær eru sterkbyggðar, þurfa stutta flugbraut og eru vel færar um að lenda við þær aðstæður sem Ísafjarðarflugvöllur býður upp á. Til þess að sinna áætlunarfluginu þarf að minnsta kosti tvær flugvélar til að hægt sé að sinna viðhaldi og þeim óvæntu uppákomum sem þar geta orðið. Ísafjörður er nú, eftir breytingar á aðstæðum í Grænlandi, eini áfangastaður Icelandair sem þjónað yrði með Q200 vélunum. Til Akureyrar og Egilsstaða er flogið á Dash Q400 vélum sem eru nokkuð stærri og því hagkvæmari, en geta ekki lent á Ísafirði. Önnur flugfélög á Íslandi eiga ekki vélar sem eru ásættanlegar fyrir flug á Ísafjörð en horfa þarf til þess að Icelandair á tvær slíkar vélar og átta eru í eigu Air Greenland sem líklegt er að verða til sölu fljótlega.

Nokkrar leiðir í boði

Þó það sé ekki gaman að segja það, stefnir í að ríkisvaldið þurfi að stíga inn til að tryggja áfram flug af þeirri tíðni, öryggi og gæðum sem þarf til. Þá þarf fyrirsjáanleiki að vera mikill. Það á auðvitað við fyrir farþega og ferðaþjónustuna, en einkum fyrir flugfélögin. Kaup á flugvélum og öllu því sem til þarf í flugrekstur krefst fyrirsjáanleika í tekjum. Hér má líta til að minnsta kosti tveggja kosta. Sá fyrr er að farið verði í umtalsvert lengri útboð en tíðkast hefur hingað til, til dæmis 10–15 ár. Kostur tvö er að horft sé til fordæmis í ferjusiglingum til dæmis ferjunnar Baldurs þar sem ríkið á farartækið en býður út reksturinn til 3–5 ára í svokallaðri þurrleigu þar sem rekstraraðili annast allan rekstur og viðhald. Í þessu tilviki, þar sem viðhaldsþátturinn er talsvert stór, er sennilega betra að vélarnar verði tvær svo alltaf að minnsta kosti önnur til reiðu.

Hvort heldur sem er, er eðlilegt að fleiri flugleiðir sem svipað er ástatt um verði teknar inn í myndina, og lítum við þar sérstaklega til Hafnar í Hornafirði, Húsavíkur, Bíldudals og Vestmannaeyja, en frekari greiningar þurfa að fara fram á þessu öllu saman. 

Við þökkum samgönguyfirvöldum, þingmönnum og ráðherrum fyrir hve hratt og vel unnið er að lausnum í málinu. Við í héraði munum ekki láta okkar eftir liggja til þess að tryggja að áfram verði  hágæðaflugsamgöngur til Ísafjarðar.

Gylfi Ólafsson formaður stjórnar Vestfjarðastofu

Sigríður Ó. Kristjánsdóttir framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu

Auglýsing

Hennar rödd

Hennar rödd eru sögur kvenna af erlendum uppruna á Íslandi og er bókin tímamótaverk sem heiðrar framlag kvenna af erlendum uppruna til íslensks samfélags.

Bókin inniheldur sögur 33 kvenna sem hafa auðgað íslenskt samfélag á einn eða annan hátt, og endurspegla fjölbreytileika kvenna af erlendum uppruna á Íslandi.

Sögurnar fjalla um áskoranirnar sem þær hafa mætt vegna skorts á inngildingu í íslensku samfélagi, jafnt og frásagnir um fallegar lífsreynslur við að flytja til nýs lands, læra nýtt tungumál og jafnvel ala upp fjölskyldur á Íslandi.

Ritstjórar bókarinnar eru Elinóra Guðmundsdóttir, Chanel Björk Sturludóttir og Elínborg Kolbeinsdóttir.

Vinna við gerð bókarinnar hefur staðið yfir í fimm ár, frá því um sumarið 2020. Við upphaf verkefnisins var leitað til almennings um tilnefningar á konum sem hafa auðgað samfélagið með einhverjum hætti og fóru viðbrögðin fram úr björtustu vonum. 

Bókin er því fjölradda frásögn, og eiga viðmælendur rætur sínar að rekja til ótalmargra landa, þar á meðal Afganistan, Filippseyja, Íran, Ghana, Póllands, Bosníu, Taívan, Jamaíku, Suður Afríku, Sýrlands, og Kólumbíu. 

Auglýsing

Nýjustu fréttir